Sól á sunnudegi

Ég hef ekki lagt í vana minn að skrifa mikið um veðrið. Finnst umræða um veður svona næstum því eins og að finnast óþægilegt að sitja þegjandi og verða þess vegna að tala um veðrið. En í dag ætla ég að gera undantekningu á þessu. Því í dag skein sólin inn um gluggann á íbúðinni minni í Hansabænum. Eitthvað sem mér hefur ekki fundist gerast nógu oft í sumar. Þetta hefur eiginlega verið frekar blaut og kalt sumar það sem af er. Á sama tíma hefur sumarið sjaldan verið heitara í Bretlandi.

Þetta hefur óneitanlega haft áhrif á mannlífið. Í stað þess að eyða hádeginu úti undir beru lofti að njóta sólarinnar, þá flý ég rigninguna. Ég er líka ekki frá því að þetta hafi áhrif á geðslag okkar. Þau okkar sem vonast eftir sólargeislum yfir sumarið, verða mörg hver brúna þung. Reyndar er þetta fínt veður fyrir þá sem sjá um að koma Íslendingum til útlanda. Nóg að gera. Ég er einn af þeim sem finnst eiginlega sorglegt að eyða íslenska sumrinu í útlöndum. Það er eitthvað svo stutt. Getur verið svo yndislegt og bjart. Eins og ég upplifði svo sterkt fyrir nokkrum dögum. Þess vegna finnst mér það yndislegt að sólin skuli skína í dag.

Það minnir mig á að það er nóg eftir af sumrinu ennþá. Því þó ég hafi tekið stærstu göngu sumarsins á Hornströndum. Þá er ég aldeilis ekki búinn að setja skóna á hilluna. Mig langar til dæmis að komast upp á nokkur fjöll hér í nágrenni Reykjavíkur. Gæti hugsað mér að prófa að ganga aftur yfir Fimmvörðuháls. Taka jafnvel tjaldið og bakpokann og halda út í óvissuna. Núna þegar ég kann orðið vel á GPS tækið, þá treysti ég mér til þess að fara ótroðnar slóðir. Veit sem er að tækið kemur mér aftur á upphafspunktinn. En það er samt skemmtilegra að fara þessar ferðir í sæmilegu veðri. Vona að þetta sé vendipunktur og að nú verði sólardagarnir fleiri en rigningardagarnir það sem eftir lifir sumars.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Simmi, hvernig væri að auglýsa næstu fjallgöngu á blogginu þínu eða með tölvupósti, þ.e. ef þig vantar einhvern tímann göngufélaga?
Simmi sagði…
Alveg borðliggjandi hugmynd. Ekki spurning að ég set inn upplýsingar hér og þá geta lesendur slegist með í hópinn. Alltaf skemmtilegt að hafa fleiri með í för:-)

Vinsælar færslur