Sólskinsdagur í sumarfríi

Þetta er bara eins og ég hefði sett fram sérstaka ósk um þetta. Nákvæmlega svona á veðrið nefnilega að vera þegar ég er í sumarfríi. Sem styttist reyndar. En ég á eftir nóg til að taka mér frí ef það skellur á hitabylgja fyrir sumarlok. En ég fór sem sagt út í dag. Ók alla leið vestur í bæ og keypti mér gamaldagsís með lúxusdýfu. Ekki frá því að það sé besti ísinn í svona hita eins og er þessa dagana. Kíkti svo í bæinn. Austurvöllur var fullur af óléttum konum. Veit ekki hvort þetta er alltaf svona í bænum. En í dag sá ég lítið annað en tilvonandi og nýbakaðar mæður í bænum.

Annars var óskaplega notalegt að staldra aðeins við í miðbænum. Það var einhver ónefnd djasssveit að taka gamla slagara á Austurvelli. Ég rölti út á höfn. Stóð í biðröð til að skoða rússneskt seglskip. En nennti svo ekki að standa í röð. Vissi eiginlega ekki af hverju ég var að hanga þarna. Er ekki nógu mikil áhugamaður um seglskip. Enda hafa þau ekki þróast mikið. Tók samt myndir og fannst þetta fallegt fley. Finnst samt magnað að hugsa til þess að það standa menn efst upp á siglutrjánum og eiga við seglin. Út á rúmsjó. Það hefur verið alvöru að vera sjómaður í gamla daga. En ég rölti mér bara til baka. Stoppaði í Bæjarins Bestu og fékk mér pulsu. Eins og allir túristarnir sem stóðu með mér í röðinni. Held ég hafi heyrt í einum Íslending. Fór aftur út á Austurvöll.

Ákvað að það væri rugl að hanga þar með óléttu konunum. Svo ég skellti mér bara aftur í Hansabæinn og rölti mér upp á Helgafellið. Fyrsta svoleiðis síðan ég kom frá Hornströndum. Nú má veðrið haldast sæmilegt og þá fer ég eitthvað um helgina. Létt mér detta í hug að rölta upp á Keili frá Nesjavöllum. Það er fín leið. Eða fara aftur á Móskarðshnjúka. Það er líka fín ganga. Annars á ég eftir að komast upp á Botnsúlur. Kannski það sé málið um helgina. Sjáum til hvernig spilast úr veðrinu. En það var gott að komast aftur í gönguskóna. Þetta sumar er rétt að byrja held ég.

Ummæli

Vinsælar færslur