Hvert nú?

Ég var um tíma að spá í að kalla þessa færslu ógn og skelfing. En hætti svo við. Þetta er ekki svo ægilegt umfjöllunarefni að það eigi skilið slíka fyrirsögn. En í gær ætlaði ég að láta þvo bílinn minn. Skola af honum ferðarykið frá Vestfjarðarferðinni. Veitir ekki af. Undanfarin ár hef ég látið þvo bíla sem ég er á í Sætúninu. Á þvottastöð sem ennþá notar handvirkar aðferðir. Eða líklega ætti ég að segja "notaði" því í gær þegar ég lagði leið mína þarna inn eftir úr Hansabænum þá kom í ljós að það var búið að loka. Eftir 40 ára starfsemi þá hafði dyrunum verið lokað 23. júní í síðasta skipti. Það var engin ábending um hvert ég ætti að snúa mér. Aðeins þessar upplýsingar um að þarna yrði ekki opnað aftur. Reglulegum viðskiptavinum þökkuð viðskiptin. Borgarskipulagi hefði verið breytt og starfsemi eins og þessi því ekki lengur æskileg á þessum stað.

Ég veit ekki með ykkur, en svona minnir mig meira en flest annað á að tíminn líður. Eitthvað breytist. Búðin á horninu lokar. Uppáhaldsbarinn þinn er ekki lengur til. Bíóhúsið sem þú ólst upp í orðið að einhverju allt öðru. Kannski ekki einu sinni til. Uppáhalds bloggarinn þinn hættur að skrifa. Bakarinn hættur að baka uppáhalds kökuna þína. Allt breytist. En við viljum helst ekki breytast. Viljum halda í hlutina eins og þeir eru. Eða voru. Okkur finnst einfaldlega öllum erfitt að takast á við breytingar. Við getum vanist því. Gert það að lífstíl að svífa fremst á öldunni. Fyrir sumum verður þetta ógn og skelfing. Hjá mér eins og öðrum. En núna er vandamálið þó ekki svo stórt að ég kalli það ógn og skelfingu. Vantar bara upplýsingar um hvar sé gott að láta þvo bílinn minn.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
ég er svo sammála þér simmi þoli ekki e-ð sem ÉG er ánægð með breytist,fer í taugarnar á mér.En að vandamálinu,hvar áttu að láta þrifa bílinn....þér hefur ekki dottið í hug að dúlla þér við það sjálfur þar sem þú ert í sumarfríi og svona?nei maður spyr bara
Simmi sagði…
Jú, auðvitað datt mér í hug að gera þetta sjálfur. En það er hins vegar bara skammtímalausn. Í næsta skipti verð ég kominn aftur í hversdagsstressið og hef ekki tíma fyrir sjálfþvott. Hvað á ég þá að gera? Á Ísafirði gat ég líka fengi kókostop í Gamla. Hér þar sem meiri hluti landsmanna býr, virðist ekki vera markaður fyrir svoleiðis. Kannski ég ætti bara að flytja út á land, þar leysast svona vandamál að sjálfu sér.
Blinda sagði…
Jahérna! Er þvottastöðin í Sóltúni farin?? Ég segi bara eins og þú: "Hvert á ég þá að fara?" Ég veit ekki um neina aðra stöð sem handþvær undir 3000 kalli. Hmmm....

Vinsælar færslur