Dásamlegt stund

Það er ekkert annað en heppni að fá svona dásamlegt veður á meðan ég er í sumarfríi. Það gaf mér tækifæri til þess að gera eitthvað sem ég geri ekkert óskaplega oft hérna í Hansabænum. Að rölta á eitt af kaffihúsunum í bænum. Setjast niður út undir bert loft. Með góðar veitingar fyrir framan mig. Góða sumartónlist í eyrunum. Njóta þess að vera til. Þetta var eitthvað svo dásamlegt.

Ég hafði tekið með mér bókina sem ég er að lesa þessa dagana. Finnst Bill Bryson dásamlega fyndin og skemmtilegur penni. Hann hefur skrifað einhverjar skemmtilegustu ferðasögur sem ég  hef lesið. Fékk mig til þess að langa til þess að vera í Hammerfest, París og Brussel. Allt á meðan ég las um ferðalög hans á viðkomandi stað. Á milli þess sem ég las bókina mína þá horfði ég á ferðamenn í Hansabænum villast. Það er nefnilega þannig að það er alveg dásamlega vel falið hvar upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn er. Yfirleit er það þannig að slíkt er merkt í bak og fyrir. Allt til þess að illa upplýstir ferðamenn geti áttað sig á því hvert þeir eiga að fara. Enda veitir ekkert af. Hér í Hansabænum er þetta þannig að upplýsingaþjónustan er inn á bæjarskrifstofunum. Skilti sem hefur verið hengt á ljósstaur bendir einmitt á þetta hús. Nema hvað á húsinu er ekkert sem bendir til þess að þar sé þessi þjónusta. Þeir þvældust því allir inn á bókasafnið til þess að spyrjast fyrir. Ég hafði lúmskt gaman af þessu í kvikyndisskap mínum.

Ég hafði hins vegar óskaplega gaman af því að lesa bókina sem ég var að lesa. Sérstaklega þegar Bill fór að tala um gæludýr. Það kom nefnilega í ljós að hundum er eitthvað sérstaklega uppsigað við hann. Sama gildir um öll önnur gæludýr. Eins og til dæmis gullfiska. Sem hann skilur alls ekki. Eina gæludýrið sem hann gat hugsað sér að eiga eru kýr. Beljur eru að hans mati dásamleg dýr. Svo óskaplega gæfar og heimskar skepnur. Gagnlegar til þess að halda grasvexti niðri í garðinum þínum. Eða svo ég vitni í Bill: "They will listen to your problems and never ask for a thing in return. They will be your friends for ever. And when you get tired of them, you can kill them and eat them. Perfect". Ekki það að ég mæli með því að borða vini sína.

Ummæli

Barbie Clinton sagði…
Það sama er hægt að segja um öll dýr!
Simmi sagði…
Veit ekki alveg hvað þú átt við Barbie. Kannski er ég bara með svona langan fattara en ég þykkist vita að þú eigir við að maður eigi ekki að borða öll dýr - því varla áttu við að öll dýr séu beljur? Sem yfirlýst omnivore þá geri ég ekki upp á milli þess að níðast jafnt á öllum lífverum mér til matar.

Vinsælar færslur