Geðveikt ævintýri

Ég get ekki annað en notað þessi tvö orð sem fyrirsögn á umfjöllun um þessa ferð. Því þetta var svo sannarlega ævintýri. Geðveikina á ég eftir að segja frá betur er á líður. En ég ætla að koma þessu frá mér á meðan þetta er mér allt í fersku minni. Ég er raunar bara ný kominn heim í Hansabæinn. Rétt náð að átta mig á því að þetta sé á enda runnið. En byrjum á því að segja frá upphafinu. Myndir koma vonandi inn, ef dvergarnir eru ekki ennþá að fikta í routernum mínum. En þær munu í það minnsta koma inn á myndasafnið á fljótlega. En það er frá mörgu að segja.

Ævintýrið hófst eiginlega meðan ég var ennþá að undirbúa ferðina. Gömul vinkona frá Londres kom til landsins á mánudagskvöldið og á þriðjudeginum hittumst við til þess að undirbúa ferðina. Þá komst ég að því að bróðir hennar var að keppa í Vestfjarðarvíkingnum á Ísafirði á fimmtudeginum, sem var upphaflegur ferðadagur okkar í Hornvík. Nú var hringt í Vesturferðir og kannað hvort aukaferð væri í Hornvík á föstudeginum. Sem okkur til lukku reyndist vera. Því hún hafði nefnilega aldrei séð bróður sinn keppa og vildi endilega ná því. Í ljósi óskemmtilegrar veðurspár vorum við líka mikið til í að seinka brottför frá Ísafirði um einn dag. Enda gekk það eftir að veður í Hornvík á fimmtudeginum var virkilega leiðinlegt. En meira um það og veður síðar. Því fyrst ætla ég að skamma Símann. Ég hafði nefnilega hringt og spurst fyrir um Iridium síma. Verið sagt að þá þyrfti að sækja í Ármúlann. Þegar þangað var komið fékk ég loksins að vita að panta þyrfti með í það minnsta 2 vikna fyrirvara og það gæti verið allt að mánaðar bið. Sem voru óheppilegar fréttir. Því síminn átti að vera okkar aðal öryggistæki.

Dagur 1

Eftir loka undirbúning á þriðjudeginum þar sem heimsóttar voru útivistarverslanir og leitað upplýsinga hjá umboðsaðila Garmin á Íslandi, þá var ákveðið að reyna að leggja af stað fyrir hádegið. Sem var kannski aðeins of mikil bjartsýni. Því það var komið vel fram yfir hádegið þegar við sameinuðust með bróðir vinkonu minnar því við ætluðum í samfloti vestur á Ísafjörð. En var veðurspáin leiðinleg fyrir helgina. Raunar var veðrið ekkert að leika við okkur á leiðinni heldur. Svo heldur var útsýnið grátt. Samflotsfélagi okkar lenti líka í því að það sprakk dekk hjá honum á leiðinni. Sem hefði sennilega ekki verið í frásögur færandi, nema af því að hann var á glænýjum bílaleigubíl og það tók okkur því  nokkurn tíma að komast að því hvernig átti að skipta um dekk. En allt hafðist þetta á endanum. Við héldum áfram sem leið lág um Þorskafjarðaheiðina og enduðum á Ísafirði um kvöldmatarleitið. Þar fengum við inni á Edduhótelinu á Ísafirði og síðan fengum við okkur kvöldverð á Fernandos á Ísafirði. Ég mæli svo fyrir mun ferðafélaga þegar ég segi að saltfisk pizza á Fernandos sé spennandi valmöguleiki á matseðli. Ísafjörður er að mínu viti afskaplega fallegur bær og góður heim að sækja. Vel þess virðið að heimsækja þó Hornstrandaferð sé ekki endilega á dagskrá. En við fengum gott að borða þetta kvöld. Það voru því kátir ferðalangar sem lögðust til svefn á miðvikudagskvöldið.

Dagur 2

Á fimmtudagsmorguninn vaknaði ég hins vegar kominn með hálsbólgu og kvef. Sem ég kenni samstarfsfélaga mínum um. Mér leist satt best að segja ekkert alveg á að vera æða á Hornstrandir með veikindi í uppsiglingu. Við komum okkur saman um að ég myndi taka því rólega á fimmtudeginum, en stefna þó ótrauður á að leggja í ferðina. Við fórum út af hótelinu og fórum og fengum okkur æðislega fiskisúpu í Faktorshúsinu á Ísafirði. Mæli með heimsókn þangað ef þú átt leið um Ísafjörð. Sem og innkaupum í Gamla Bakaríinu á Ísafirði. Meira af þeim innkaupum í lok ferðasögunnar. Nú tók við frekari undirbúningur. Við ætluðum okkur nefnilega að ganga að veislu í Aðalvík sem var loka takmark göngunnar. Svo ég fór og keypti inn í holusteikina. Fór síðan á fund við þann sem um hafði verið samið að koma fyrir okkur pakkanum í bát og til Aðalvíkur. Það reyndist gæfufundur. Því mér var tekið afskaplega vel. Boðið upp á kaffi og þegar ég sagði söguna af símanum, þá var mér lánuð talstöð til þess að ég gæti náð að senda frá mér neyðarkall ef á þyrfti að halda. Síðan lá leið okkar í Hafnarbúðina á Ísafirði þar sem síðustu útivistarvörurnar voru keyptar í samræmi við ráðleggingar heimamanna. Sem sögðu mér að ekkert af þeim nútímaefnum sem til boða standa (Gore-tex og sambærileg efni) myndu þola endalaust slagveður. Fékk góðar kveðjur og óskir um góða göngu. Heimsótti apótekið og náði mér í Strepsils. Hélt upp á hótel og slakaði á þangað til 2 ferðafélagar í viðbót lentu á flugvellinum á Ísafirði. Ekki var hægt að segja að veður eða veðurspá benti til þess að útlitið væri of gott fyrir föstudaginn. Svo við héldum fund á Fernandos til þess að ákveða með plan B. Þar sem ég myndi ekki koma með í gönguna. Sem hefði orðið ef ég hefði annað hvort veikst meira eða veður verið svo slæmt að ekki hefði verið álitlegt fyrir kvefaðan að leggja upp í gönguna. Ég kom mér svo bara í svefn upp á hótel. Það myndi ráðast um morguninn hvort ég væri yfirleit að fara í göngu.

Dagur 3

Föstudagsmorguninn rann upp og er ég leit út um gluggann sá ég að það var að birta. Heilsan hafði heldur ekki versnað svo ég ákvað að láta mig ekki vanta í gönguna. Við komum okkur niður á höfnin og í bátinn. Það kom í ljós að þessi auka ferð í Hornvík var til þess að sækja þangað hóp, svo við vorum einu farþegarnir í ferðinni. Eftir því sem leið á siglinguna létti skýjahulunni af fjöllunum. Þegar við síðan lentum í Hornvíkum fengum við þær fréttir að þar hefði verið ausandi rigning og leiðindaveður á fimmtudeginum. Svo ferðatöfin hafði reynst okkur vel. Reyndar hljóðaði veðurspáin fyrir föstudaginn upp á slagveður. En sólin skein á okkur alla leiðina. Upp paufuðumst við í Atlaskarð. Heldur þung í spori enda með hámarksþyngd í pokunum. Þetta var sá hluti leiðarinnar sem mestur var bratti. Við settum 3 steina í Atladys eins og fyrirmæli eru um og héldum áfram göngu í skínandi veðri. Þetta auðrötuð leið og vegna þess hve gott veðrið var þá vorum við ekkert að flýta okkur of mikið. GPS tækið reyndist vel og vísaði okkur veginn. Svo rétt um 6 tímum eftir að við lögðum af stað frá Hornvík vorum við lent í Hlöðuvík. Þar var ekki nokkur maður, en tófa tók á móti okkur. Svo rosalega gæf að við lá að hún kæmi og hnusaði af okkur. Í það minnsta veiti hún okkur afskaplega litla athygli. Við tók bras við eldamennsku. Eitt okkar hafði tekið með sér prímus sem gekk fyrir fljótandi eldsneyti og sá reyndist ekkert sérlega vel. Var eiginlega bölvað fram og til baka. Við hin vorum með gas og gekk öllu betur. En á endanum tókst okkur nú öllum að komast frá matargerðinni. Mæli með þurrmat í ferðalögum sem þessum. Auðvelt í matreiðslu og létt í bakpokanum. Ég kom upp tjaldinu, tók kvöldgöngu og rotaðist svo snemma kvölds.
Dagur 4

Vaknaði snemma á laugardagsmorguninn. Skömmu síðar átti gönguferðafélagi leið hjá og spurði um tíma sem reyndist vera 4:30 að morgni. Eitthvað var byrjað að blása og einhverjir dropar að lenda á tjaldinu. Að sögn göngufélagans var samt lítið að veðri. Ég snéri mér því á hina hliðina og sofnaði aftur. Þegar ég vaknaði aftur nokkrum tímum síðar heyrði ég að eitthvað var rigningin að aukast. Skreiddist út og það var grár himinn sem tók á móti mér. Samt var þetta ekki svo slæmt. Léttur úði og langt í frá stanslaus rigning. Raunar hafði spá veðurfræðinga hljóðað upp á sæmilegt veður. Svo mér fannst ekki ástæða til þess að vera of svartsýn. Eitt okkar hafði komið sér fyrir í neyðarskýlinu. Svo við fórum þangað inn. Réðum ráðum okkar og fengum okkur staðgóðan morgunmat. Hafragrautur með rúsínum. Frábær leið til að byrja daginn í svona ævintýrum. Notaleg stund og við vorum sammála um að veðrið væri nú ekki svo slæmt að ástæða væri til þess að sitja það af okkur í Hlöðuvík. Því þrátt fyrir að fyrir höndum væri lengsti áfangi leiðarinnar þá ætti okkur ekki að vera vorkunn að ganga þetta í smá rigningarskúrum. Svo við tókum niður tjöld og pökkuðum ofan í bakpokana. Komast þar að því að eitthvað var búnaðurinn minn undarlegur. Samkvæmt meðmælum frá The North Face hafði ég nefnilega fjárfest í undirbotni. Sem átti að passa undir tjaldið. En gerði það bara hreint ekki. Raunar lak vatnið undir tjaldið. Svo botninn var rakur og ég er ekki frá því að það sama hafi átt við um eitthvað af búnaðinum mínum. En ég hafði þó vandað mig við að pakka öllu inn í plastpoka til að hindra að hann yrði blautur ef við lentum í rigningu. En þetta var svo sem ekkert of slæmt. Bara rétt rakt. Örkuðum af stað. Komum að fyrstu á sem við þurftum að vaða yfir, Hlöðuvíkurós, þar sáum við að þar hafði einhvern komið sér fyrir. Líklega ekki nennt að vaða daginn áður. Við komumst vandræða laust yfir á ósnum. Eitthvað var smávegis að bæta í rigninguna. Heldur að herða vindinn. En ekkert sem við vorum að óttast. Héldum áfram og óðum yfir Kjaransvíkurá og fundum þar slóðina sem átti að koma okkur upp í Kjaransvíkurskarðið. Það rigndi og við hittum fyrir ferðalanga sem höfðu rölt frá Hesteyri daginn áður en ekki náð nema rétt niður í gróðurlendið. Ákveðið að leggjast þar til hvílu. Líklega hefur þeim ekki fundist skemmtilegt veðrið en við fengum þó þær upplýsingar að þetta væri auðratað. Vörður alla leið upp í skarðið og greinilegur vegur þegar yfir það væri komið. Sem við höfðum heyrt áður. Við töfðum ekki lengi hjá þessum gönguhóp, enda fannst okkur sem heldur væri að aukast rigning og rok og við ætluðum okkur þess vegna að komast sem hraðast upp í skarðið. Þetta sannarlega vel vörðuð leið. Sem kom sér ágætlega í slagveðrinu. Sum okkar voru byrjuð að blotna, hanskar og vettlingar orðnir blautir. Mínir frá Gordini meira að segja farnir að blotna, en héldu þó höndunum á mér heitum. Eftir því sem við fórum ofar þá herti bæði vind og rigningu. Við tókum smá hvíld áður en við réðumst í síðustu hundrað metrana til þess að komast upp í skarðið. Framundan voru snjóskaflar og urð. Eftir stutta hvíld, enda við öll köld á höndunum og á þessum tímapunkti voru skórnir hættir að halda vatni. Það þrátt fyrir heil brúsi af vatnsverjandi hefði farið á skóna í vikunni fyrir gönguferðina. Líklegt að ég muni fjárfesta í nýjum gönguskóm eftir þessa ferð í ljósi þessarar reynslu. Því það sannaðist að fleiri saumar bjóða upp á meiri möguleika á leka. Á síðustu hundrað metrunum versnaði veðrið enn. Það var búið að kólna, herða vind og á leiðinni upp var slydda. Við vonuðumst til að eitthvað myndi þetta skána þegar við næðum upp. Sem reyndist með öllu óraunhæft. Því í stað þess að skána var hreinlega hríð þegar við náðum upp í skarðið. Þar var risastór snjóskafl, lítið skyggni og ég komst að því að GPS punkturinn fyrir Hesteyri sem ég hafði slegið inn fyrir ferðina var vitlaus. Samkvæmt GPS tækinu var Hesteyri í 285 km fjarlægð. Líklega hafði ég ekki vistað punktinn rétt og tækið að reyna að vísa mér í Hansabæinn. Við vorum því hreint ekki viss um hvert ætti að halda. Það var slóð í skaflinum sem virtist liggja lengra upp á við. Eðlilegra virtist að halda beint áfram. Það snjóaði. Við sáum ekki í næstu vörðu. En ákváðum að best væri að fylgja slóðinni í skaflinum. Væri líklega eftir hópinn sem við hittum fyrr um daginn. Slóðinn kom okkur yfir skaflinn, en þegar við komum af honum sá ég að snjó festi á jörðu. Mér leist ekkert á þetta. Ef það myndi halda áfram að snjóa yrði erfitt fyrir okkur að rata. Snjór myndi leggjast yfir slóðir. Ég hafði búist við ýmsu en ekki því að lenda í snjókomu. Þarna vorum við sem sagt í brjáluðu roki. Hríð og snjó að festa á jörðu. Þetta var óumdeilanlega mesta geðveiki sem ég hef nokkurn tíma lent í. Ferðafélagi minn frá Londres sagði mér seinna að hún hefði verið gjörsamlega orðlaus yfir þessu. Þetta hefði einfaldlega verið svo ótrúlegt að hún vissi hreinlega ekki hvernig hún ætti að taka þessu. Í fyrsta skipti á nokkurri göngu var ég hreint ekki alveg viss um að ég ætti eftir að komast í heilu lagi af fjalli. Það var kannski okkur til happs að við höfðum vindinn í bakið. Við höfðum ekki tekið okkur hádegisverðar hlé og við urðum að koma okkur niður í eitthvað skjól og ná einhverjum hita í kroppinn. Við fundum okkur skjól við stein og réðum ráðum okkar. Við sáum einhverjar vörður framundan. Líklega myndum geta fylgt þeim þangað til við myndum finna veginn. Ólíklegt væri að nokkur kæmist til að finna okkur í þessu veðri þó við myndum nota talstöðina og líklegra betra að setja stefnuna á Hesteyri. Fylgja vörðunum þangað til vegurinn tæki við. Eftir snöggan hádegisverð þá var göngunni haldið áfram. Vegna slagveðursins voru allar sprænur og lækir á leiðinni sneisa full af vatni og við rétt náðum yfir. Alveg tæplega. Orðin blaut og hrakin héldum við áfram að fylgja vörðunum. Óðum áfram til að komast niður úr hríðinni sem smátt og smátt breytist í ausandi rigningu og rok. Samkvæmt leiðarlýsingu þá hafði okkur skilist að vegurinn ætti að liggja þannig að við ættum að sjá ofan í Hesteyrarfjörð. Mættum varla fara langt til þess að fara ekki fram af bjarginu. Leið okkar var nokkuð önnur. En þetta olli okkur áhyggjum. En ég var þó á því að betra væri að fylgja vörðunum. Sem vísuðu okkur leiðina að Hesteyri. Þar sem ég vissi að von væri til þess að komast í hús og í svefnpokapláss. Því ekki leyst okkur á að tjalda í slagviðrinu. Við vorum enda orðin æði blaut og hrakinn þegar hér var komið við sögu. Reyndar gef ég bæði Marmot regnbuxunum mínum og Millet Gore-Tex XCR hæstu einkunn. Sem og Gordini hönskunum sem héldu höndunum á mér heitum þó þeir væru gegn blautir. Ég mæli því eindregið með því að fjárfesta í góðum búnaði fyrir þá sem hyggja á göngur á Hornströndum. Þar dugar ekkert annað. Á Hesteyri náðum við 17,3 kílómetrum og 8 tímum eftir að við lögðum af stað frá Hlöðuvík. Án þess að hafa nokkurn tíma fundið veginn sem um var rætt. Var tekið óskaplega vel af húsráðanda í gamla Læknisbústaðnum sem breytt hefur verið í gistiheimili. Stungið fyrir framan ofn og sagt að koma í okkur einhverjum hita. Fundið fyrir okkur herbergi til þess að við gætum sofið svefni hina réttlátu án þess að þurfa að tjalda. Á leiðinni höfðum við tekið þá ákvörðun að ef veðrið myndi ekki skána myndum við taka bát til Ísafjarðar. Meira slagveður myndum við ekki þola. Við komum í okkur hita. Koníakið var opnað, heitur matur, kakó og ofninn kom úr okkur hrollinum. Mikið óskaplega var ég líka feginn að hafa munað eftir því að pakka öllu vel inn. Því ekkert af búnaðinum var blautt. En farsíminn minn virðist ekki hafa þolað slagveðrið. Skil reyndar ekki alveg af hverju ég hafði tekið hann með, en hvernig sem á því stóð þá er hann líklega illa farinn eftir þennan dag. Spurning hvort hann nær sér nokkurn tíma að fullu. Eftir að hafa komist í þurr föt. Náð líkamshitanum upp og spjallað við aðra gesti fram yfir miðnætti var lagst til svefns.

Dagur 5

Þegar ég vaknaði á sunnudeginum og leit út um gluggann þá skein sól í heiði. Varla ský á himni. Reyndar var ég vel kvefaður, en virtist ekki hafa skaðast verulega á slagveðurs geðveikinni daginn áður. Nú var blautur búnaður dreginn fram og hengdur upp á snúru til þerris. Þar áttaði ég mig á því að gerviefnin sem mælt er með í gönguferðirnar hafa einmitt þann kost að þorna á mettíma. Sama átti reyndar ekki við um skóna. Upprunalega hafði ætlunin verið að ganga þennan dag yfir í Aðalvík. Eða ef gangan á laugardeginum hefði verið of löng, að þá hefðum við þarna einn auka dag upp á að hlaupa. Sem kom sér ágætlega. Því við forvitnuðumst um ferðir á Ísafjörð. Það átti bátur að fara þennan dag. Óljóst hvort annar færi daginn eftir. Okkur fannst samt veðrið yndislegt og eiginlega synd að þurfa að fara frá Hesteyri í svona góðu veðri. Kannski gætum við bara þurrkað búnaðinn og gengið yfir í Aðalvík daginn eftir. Svona ef veðurspá væri sæmileg. Ákváðum í það minnsta að bíða fregna um bátsferðir. Sem við fengum síðar um daginn. Það væri bátsferð daginn eftir. Væri meira að segja spáð áframhaldandi góðu veðri. Þetta voru akkúrat þær fregnir sem við þurftum á að halda. Við eyddum sem sagt deginum í afar góðu yfirlæti hjá húsráðendum í gamla Læknishúsinu á Hesteyri. Léttum sólina skína á okkur og þurrka búnaðinn okkar. Geðveikin frá því deginum á undan var nú orðin hluti af ævintýraferð okkar á Hornströndum. Þessi dagur á Hesteyri var frábær. Er ekki frá því að þangað eigi ég aftur eftir að koma. Finnst margt vitlausara en að gera þaðan út í göngur. Eiga jafnvel öruggt húsaskjól ef á þarf að halda. Veit ekki alveg hvað mér finnst um það að ganga of mikið án þess að geta leitað inn ef á þarf að halda. Í það minnsta er ég ekki kominn á þann stað ennþá. En þetta var sem sagt rólegheita dagur. Eitthvað var rætt um kvöldgöngu í Aðalvík, en við ákváðum að líklega væri veðurspá fín og við sváfum því aðra nótt á Hesteyri.

Dagur 6

Eitthvað vaknaði ég lítt ferskur morguninn eftir. Bæði var kvefið að stríða mér og ég er ekki frá því að ofnæmi hafi líka komið þar ofan á. Í það minnsta tókst mér að pirrast svakalega út í einN göngufélagann. Svo það voru ekki beint blíðuhót sem einkenndu mánudagsmorguninn. Ætli ég þurfi ekki að temja mér meira æðruleysi og leti gagnvart svona eins og annar göngufélagi okkar benti mér á. Óþarfi að láta skapið hlaupa svona með mig. En svona er þetta bara stundum. Ekki eins og veðurblíðan hefði átt nokkurn þátt í þessu. Því hafi veðrið verið gott daginn á undan, var það jafnvel ennþá betra þennan morguninn. Spegilsléttur sjór. Hreyfði varla vind. Þetta var ekki nokkur spurning. Við vorum ekki á leiðinni á Ísafjörð. Til Aðalvíkur skildi haldið. Þetta var dagurinn til þess að skella sér úr skálmunum og ganga á stuttermabolnum. Eins og áður sagði þá fundum við aldrei neinn veg á leiðinni til Hesteyrar ofan úr Kjaransvíkurskarði. Sú leið er bara afskaplega vel vörðuð og þess vegna auðrötuð. Við vorum hins vegar ekki í miklum vandræðum með að rata á leiðina til Aðalvíkur. Ég hafði gengið þetta fyrir tveimur árum og við lögðum af stað út eyrina og fylgdum símalínum sem þar voru lagðar fyrir áratugum síðan. Minning um að það er ekki ýkja langt síðan þarna var byggð. Brattabrekka reyndist öllu brattari en í minningunni, en það var kannski frekar vegna þess að byrðin á bakinu var þyngri en í fyrsta skiptið sem ég gekk þetta. En útsýnið var ekki verra. Enda veðrir alveg jafn bjart og fagurt og í fyrra skiptið. Þarna var líka greinilegur vegslóði og ekkert mál að rata. Þetta er afskaplega falleg leið í svona góðu veðri. Sást inn jökulfirðina og yfir á Drangjökull. Inn til Ísafjarðar, Hnífsdal og Bolungarvík. Við tókum okkur mörg hlé, enda veður til þess. Engin ástæða til þess að flýta sér of mikið. Nema kannski tilhugsunin um steikina sem biði okkar í Sæbóli. Við tókum okkur því langt matarhlé eftir að hafa vaðið yfir ána sem rennur úr Sléttuvatni. Héldum síðan áfram upp á heiðina eftir greinilegum veginum. Þar sem blés aðeins og mikið til þess að ég héldist í stuttermabolnum einum saman. En skálmarnar voru ekki settar upp. Við röltum okkur yfir heiðina og ég hélt áfram að bæta í myndasafnið. Sem var orðið nokkuð stórt þegar hér var komið við sögu. Síðan blasti Sléttuvatn og Aðalvíkin við. Áfram héldum við göngu og nú ofan af heiði sem þýddi að lofthitinn hækkaði. Við tókum okkur aftur hlé við húsakynni átthagafélags Sléttuhrepps. Nú var orðið stutt eftir í loka takmark göngunnar. Sæból í Aðalvík. Þegar þangað var komið þá fundum við tjaldsvæðið á staðnum, sem stendur á afskaplega fallegum og skjólgóðum stað. Við tókum af okkur pokana og tókum fram flugnanetin. Sem áttu eftir að vera í mikilli notkun það sem eftir var dvöl okkar í Aðalvík. Því þarna er mikil fluga. Svo var haldið í leit að pakkanum góða. Það hafði verið undirbúið vandlega að hann átti að bíða okkar. Á sunnudeginum sem var upprunalega ferðaáætlunin. Þegar við hins vegar vitjuðum hans þarna á mánudagskvöldið þá voru komnir nýir húsráðendur í húsið sem við vitjuðum hans í. Sem könnuðust bara ekkert við neitt. Farið var á þá staði sem okkur datt sameiginlega í hug. En ekkert fannst. Við spurðumst fyrir á öðrum stað. Ekki kannaðist fólk þar heldur við að hafa séð neitt koma. Þetta leit ekki vel út með veisluna. En íbúar í Aðalvík eru gott fólk. Það fer sko ekkert á milli mála. Því þar sem við spurðumst fyrst fyrir var verið að elda og ef ekkert fyndist þá vorum við boðin í steik með þeim. Raunar fannst okkur þetta öllum hið undarlegasta mál. Bátsferðir höfðu verið í lagi og sá sem ætlaði að koma pakkanum í bát ekki þekktur fyrir annað en að standa við sín orð. Raunar þekktur fyrir nákvæmlega það að standa ævinlega við gefin loforð. Svo við ákváðum að rölta einn lokahring. Auðvitað rákum við augun í veisluföngin. Svo þetta hafði allt skilað sér með eðlilegum hætti. Fengum meira að segja lánaða skóflu til að grafa holu og tekið af okkur loforð um að mæta í kaffi eftir steikina þegar við myndum skila skóflunni. Þetta var fyrsta tilraun til holusteikinga og það verður að segjast eins og er að kartöflurnar voru hráar. En allt annað tókst frábærlega. Þetta er æðisleg aðferð til að elda lambalæri, rauðvínið var vel valið og félagsskapurinn gat ekki verið betri. Raunar hefði ég ekki getað hugsað mér betri ferðafélaga. Þrátt fyrir fúllyndi mitt og smá orðaskak við einn þá er þetta allt frábært göngufólk. Vinkona mín frá Londres var þarna í sinni allra fyrstu göngu. Gekk í gegnum þetta eins og hún hefði aldrei gert annað. Fannst þetta á köflum reyndar þræl erfitt. En hún var svo sem ekkert ein um það. En við stóðum okkur öll eins og hetjur. Það var því ekki erfitt að skála fyrir okkur öllum þar sem við nutum veðurblíðunnar í Aðalvíkinni. Gæddum okkur á kræsingunum og vorum stolt af því að hafa náð því að klára gönguna. Við stóðum við loforðið um að mæta í kaffi og þar var okkur tekið opnum örmum. Eins og reyndar alls staðar þar sem við stoppuðum á leiðinni. En þarna var okkur boðið upp á gæða kaffi og með því. Sáttum við góða stund og skiptumst á sögum. Hittum líklega þann sem lengst hefur alið manninn í Sæbóli. Mann sem fékk sín fyrstu peninga laun í vinnu fyrir Bretana sem komu sér fyrir á staðnum í seinni heimstyrjöldinni. Held ég geti ekki annað sagt en að ég hafi verið heppinn að fá að kynnast einhverjum af þeim sem eiga ættir sínar að rekja til Aðalvíkur og met það mikils. Við yfirgáfum húsið við sólarlag. Komum okkur fyrir á ströndinni og kveiktum lítið bál. Horfðum á sólina setjast á meðan við drukkum heit kakó. Í einstöku umhverfi sem skipti litum á meðan sólin datt niður fyrir sjóndeildarhringinn og ég náði að sjá byrja að bjarma af nýjum degi áður en ég lagðist til svefns.

Dagur 7

Það heyrðist dropa niður á tjaldið mitt þegar ég var ræstur upp um hálf níuleitið. Ekki beint rigning en það var grár himinn. Sólin hulin skýjum. Við vildum ekki vera of sein í gang enda átti báturinn að vera í Aðalvík um 10 leitið. Raunar höfðum við fregnað að vegna sérstakra aðstæðna yrðum við ekki flutt á Ísafjörð heldur til Bolungarvíkur. Engan sáum við bát kl 10. En veðrið var svo sem ekki alvont. Sæmilega gott í sjóinn svo varla myndi ferðin falla niður. Áætlun báta á þessum slóðum enda ekki hárnákvæm vísindi svo engin ástæða til þess að örvænta. Um 11 sáum við bát sigla í Látra. Sem er hinum megin í Aðalvík. Þar dvaldi hann þó nokkra stund. Lengur en ég átti von á. Reyndi að nota kíkirinn til þess að átta mig á því hvað væri í gangi. Fannst ég sjá mikið af fólki og farangri fara frá Látrum, en var þó ekki alveg viss. Þegar Ramóna frá Bolungarvík kom loksins að landi í Sæbóli fengum við hins vegar vondar fréttir. Báturinn var fullur af fólki. Okkur sagt að ekkert okkar kæmist með fyrr en klukkan 5 þennan dag. Okkur tókst að telja þá á að eitt okkar sem þurfti að ná flugi fengi að fara með. En aðrir í hópnum sem biðu þarna sátu eftir. Tíu manns voru sem sagt komin í þá stöðu að þurfa að bíða í nokkra tíma. En kom gestrisni Aðalvíkinga okkur á óvart. Því þarna var okkur boðið inn í hús, í kaffi, kökur og brauð eins og hver gat í sig látið. Svo okkur leið vel á meðan á biðinni stóð. Klukkan 5 var hins vegar engan bát að sjá. Rétt fyrir klukkan 6 hringdum við í Vesturferðir og sögðum farir okkar ekki sléttar. Hvort ekki væri að vænta þess að við yrðum sótt. Minntumst á að þetta væri klúður sem bæri ekki vitni atvinnumennsku í ferðaþjónustu. Held að þau skilaboð hafi komist vel til skila. Um 7 sáum við bátinn fara enn eina ferðina út í Látra. Hann kom síðan að Sæbóli um 8. Við vorum komin til Bolungarvíkur rétt um 10. Fengum far inn á Ísafjörð þar sem skelltum okkur inn á Fenandos og fengum okkur kaldan og dýrlegan síðbúin kvöldverð. Aftur fengum við inni á Hótel Eddu og vorum ekki lengi að sofna.

Dagur 8

Það var rétt um hádegi sem ég vaknaði aftur. En við vorum ekkert að flýta okkur frá Ísafirði. Fórum og fengum okkur aftur fiskisúpu á Faktorshúsinu. Hún er bara allt of góð til þess að við færum án þess að fá tækifæri til þess að smakka hana aftur. Komum talstöðinni aftur í hendur þeirra sem höfðu lánað okkur hana ásamt örlitlum þakklætis votti. Renndum við hjá Vesturferðum og sögðum þeim hvað okkur hefði fundist skemmtilegt að bíða eftir bátnum. Rákumst á göngufélaga á leiðinni bókabúðina að kaupa kort og mæltum okkur mót í Gamla Bakaríinu. Þangað fór ég og fjárfesti í Hornstrandabrauði, Smá snúðum með súkkulaði, kringlum, kókostoppum og kókoslengjum. Hefði helst viljað kaupa eitt af öllu í þessu frábæra bakarí. Því þar er allt einstaklega gott. Kom líka við í handverksbúðinni og fjárfesti í minjagripum um ævintýraferðina mína á Hornstrandir. Eitthvað sem á eftir að minna mig á þessa ótrúlegu ævintýraferð. Eitt hef ég lært af þessari ferð. Það er að veðurspár fyrir þetta svæði eru lítils virði. Engin af þeim sem kom frá opinberu veðurfræðingunum stóðst. Heimafólk stóð sig mun betur. Annað er að ég var með of mikinn farangur. Tók of mikið með mér og valdi það ekki nægilega vel. Stóð mig betur en síðast. En ekki  nógu vel. Mun hafa það hugfast við næstu ferð. Þarf líka að halda betur í góða skapið. Láta ekki litla hluti setja mig um of úr jafnvægi. Taka því sem að höndum ber. Eða svo ég vitni í einn ferðafélaga minna. Hvers vegna ætti maður að vera eyða kröftunum í einhver leiðindi. Njóta frekar þess að vera á göngu. En þetta verður svo sannarlega ekki síðasta heimsóknin á þessar slóðir ef ég fæ einhverju um það ráðið.

Ummæli

Vinsælar færslur