Squeal like a pig

Ég hafði ákveðið að halda áfram umfjöllun minni um áhugaverðar kvikmyndir. Í tilefni þess að nú liggur leið upp út í óbyggðir. Á vit ævintýranna í náttúru Íslands. Við erum nefnilega svo heppin að eiga ennþá nokkuð mikið af óbyggðum. Óspilltu landi sem býður upp á ævintýri. Ég er heldur ekki frá því að við séum að öðlast betri skilning á þeim verðmætum sem felast í þessu. Þessi ferð mín hefur verið undirbúin í nokkra mánuði og við erum núna smá hópur sem ætlar að leggja þetta á okkur. Förum saman borgarbörnin á vit ævintýra.

Það er reyndar nokkur samhljómur með þessu ævintýri okkar og myndarinnar. Því myndin sem ég ætla að mæla með í þetta skipti er mynd John Boorman, Deliverance. Myndin sem kom út árið 1972 og er byggð á samnefndri sögu James Dickey. Þessi mynd er athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Fyrir mig er það kannski athyglisverðast hvað hún á sér miklar samsvaranir í okkar raunveruleika hér. Því eitt af sögusviðum myndarinnar er einmitt svæði sem er að breytast vegna virkjana. Því í Bandaríkjunum hefur verið virkjað stórt. Virkjað mikið. Kannski hvergi meira en einmitt á þeim slóðum sem Deliverance gerist.

Ég mun ekki eyðileggja söguþráðinn með því að fara ofan í smáatriði. En í hnotskurn fjallar myndin um fjóra borgarbúa sem ákveða að fara í ferð niður fljót í suður ríkjum Bandaríkjanna.  Fljótið á að fara að stífla. Það er því óneitanlega nokkur vísun í það sem við erum að gera til að breyta umhverfi okkar. Þær fórnir sem við færum. John Boorman er líka sannfærður umhverfisverndarsinni eins og átti eftir að sjást í The Emerald Forest sem hann gerði 1985. En það er þó hin hliðin á Deliverance sem mér finnst ekki síður áhugaverð. Það er sagan af því sem við gerum í aðstæðum sem við lendum í. Hversu langt við erum tilbúin til þess að ganga þegar á reynir. Hvaða gildi við erum raunverulega tilbúin til þess að fórna þegar á reynir. Þetta er auðvitað vel þekkt stef. Úr fjölmörgum sögum. En mér finnst Borman takast meistaralega upp. Burt Reynolds er þarna í einu af sínu bestu hlutverkum. En hann hefur í gegnum tíðina verið ákaflega mistækur.

Deliverance er mynd sem getur höfðað til þín á mismunandi hátt. Sem spennumynd. Sem ádeilumynd. Sem innsýn inn í heim sem er að hverfa. Sem viðvörun til borgarbúa um þær hættur sem leynast í náttúrunni. Auk þess er í þessari mynd ein frægasta laglína í kvikmyndasögunni, Dueling Banjos. Það er því ákaflega vel við hæfi að Deliverance sé myndin sem ég mæli með rétt áður en ævintýri mín í óbyggðum hefjast.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Sammála þér með Reynolds. Fatta núna að ég steingleymdi að diskútera Full Metal Jacket við þig mano a mano þegar ég hafði tækifæri til þess!

Vinsælar færslur