Lentur í Hong Kong

Í gærkvöldi leit ekkert sérlega vel út með flugið mitt til Hong Kong. Ég ákvað hins vegar að taka jákvæðnina á þetta. Fara bara út á flugvöll í rólegheitum (reyndar alveg eldsnemma morguns) og sjá hvort það leyndist ekki eitt laust sæti handa mér. Mér til gleði þá reyndist svo vera. Kannski kertið sem ég kveikti á við eldguðin hafi hjálpað mér eitthvað. Hver veit. Í það minnsta brosti ég mínu breiðasta til ungu konunar hjá Cathay Pacific sem afgreiddi mig. Veit ekki hvort allir farþegarnir eru svona ánægðir.

Ég er líka ákveðinn í því að vera kurteis og brosa mínu breiðasta sama á hverju gengur í þessari ferð. Það að ég skildi komast með í fyrsta flugi dagsins sannfærði mig um að sú aðferð er sú eina rétta. Það er víst klukkutíma munur á Tokyo og Hong Kong. Síminn minn ætti núna loksins að fara virka aftur. En hvað sem öðru líður þá er ég afskaplega ánægður með dvöl mína í Japan. Fannst rosalega skemmtilegt að koma til þessa lands. Þrátt fyrir að vera mállaus, þá fannst mér allir gera sitt besta til að hjálpa mér. Maturinn var góður og ég vona bara að eigi eftir að fá aftur tækifæri til þess að heimsækja Japan.

Nú er ég hins vegar lentur í Hong Kong. Fullri borg af fólki. Hafi Tokyo virkað full af fólki, er þessi borg bókstaflega iðandi af mannlífi. Hér ægir öllu saman. Skilst að ég hafi líka fundið mér hótel bókstaflega í ferðamannahnútpunkti Hong Kong. Rétt við Nathan Road. Ég er sem sagt í Tsim Shat Sui, Kowloon sem er beint á móti Hong Kong eyju. Fékk aðstoð frá Couchsurfing félaga sem tók mig í skoðunarferð niður að ferjustæðinu. Þar er stjörnustígur Hong Kong. Stytta af Bruce Lee og handaför frægra kvikmyndastjarna frá Hong Kong. Svo fylgdist ég með stærstu ljósasýningu í heimi. Fylgdist með sólinni setjast, húma að og þegar það var orðið niðamyrkur hófst sýningin. Sem var nokkuð flott, en fyrir mér var ekki síður mikilfenglegt að sjá útsýnið. Að þessu loknu fór ég á næturmarkað sem hér er. Raunar ekki nema smá spöl frá hótelinu mínu. Þar skilst mér að alltaf eigi að prútta. Ég fékk mér útileguhníf – einhverja Leatherman eftirlýkingu fyrir 400 krónur og þóttist hafa prúttað þokkalega úr 700 krónum! Hér fann ég líka loksins leiðsögubækur. Keypti mér eina fyrir Hong Kong, aðra fyrir Tæland, þá þriðju fyrir Singapore og svo freistaðist ég til þess að kaupa eina um Vietnam og Angkor Wat. Langar rosalega að kíkja þangað.

Annars var ég svo mikil snillingur. Að rétt eftir að ég lenti, þá vissi ég að mig vantaði aura. Ætlaði að taka út sem svarar til 5000 íslenskra króna. En tók í staðinn út 5000 Hong Kong dollara, eða rétt um 47.000 íslenskar. Ætli mig vanti nokkuð aura hér. Held varla. En gat þó notað þetta til að ganga frá gistingu og svo mun ég bara skipta yfir í Singapore gjaldmiðilinn þegar ég yfirgef Hong Kong. Á ekki alveg von á því að ég eyði öllum þessum aurum hér – ekki miðað við verðlagið sem virðist vera hér í gangi. Ekki vegna þess að mig skortir tækifæri, því hér er rosalegt úrval af búðum og allra handa verslunum. Næturmarkaðurinn var til dæmis fullur af eftirlíkingum. Hefði getað fengið Rolex fyrir lítið. En ekki viss um að það hefði gengið lengi. Á morgunn er svo ætlunin að taka góða skoðunarferð um borgina og enda á matar og bjór veislu í miðbænum. Langur dagur framundan. Líka komin helgi og kominn tími til að lyfta sér aðeins upp.

Annars hefði verið fínt að vita af þessu varðandi flugþreytu áður en ég lagði af stað.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
ég skal koma með hugmynd hvernig þú átt að eyða þessum peningum:D...keyptu nú eh fallegt handa uppáhaldsbestu vinkonu þinni sem þú skildir eftir á Íslandi:p

Vinsælar færslur