Síma vesen og yoga

Auðvitað eru alltaf smá vandræði í öllum ferðum. Það er bara partur af þessu. Ég komst til dæmis að því að taskan sem ég var með undir vélina var ekki góð. Búinn að fjárfesta í góðum North Face dagspoka sem mun koma í staðinn. Það er líka til lítils að treysta á þjónustuver Vodafone, þetta í 1414 sem auglýsir að það reddi þér með Búkollu. Það má vel vera, en þeir hafa ekki grun um það hvernig símakerfið í Japan virkar. Ég hringdi nefnilega sérstaklega í þá til að afla mér upplýsinga fyrir ferðina.

“Engar áhyggjur, kortið þitt virkar fínt í Japan”
“En ég hef heyrt að GSM virki ekki í Japan?”
“Jú, jú, við erum með samning í Japan”

Eitthvað á þessa leið var samtalið sem ég átti við Vodafone. Áður en ég fór úr landi. Hefði betur kíkt á vefinn þeirra og sleppt þessu símtali. Hér virka bara 3G símar. Sá sem ég leigði á Narita flugvelli frá fyrirtækinu sem Vodafone segist hafa samning við. Hann virkar þannig að ég get hringt (2,05 Evrur á mínútu) en það er ekki hægt að hringja í mig. Fyrir þetta borga ég nokkur hundruð krónur. Sendi þeim póst áðan á vodafone@vodafone.is en ekki fengið nokkur viðbrögð. Svo ég er fúll út í Vodafone. Ætli ég skipti ekki um símafyrirtæki þegar ég kem heim (og hefði kannski betur verið búinn að því áður en ég fór).

Fór í Yoga í morgunn. Komst að því að hér er kennt Ashtanga yoga rétt hinum megin við hornið frá hótelinu mínu. Svo þetta var ekki nokkur spurning. Enda var ég vaknaður upp úr kl 5 að staðar tíma og því bara fínt að skella sér í yoga um 7 leitið. Fæ líklega leiðbeiningar um hvar ég finn Ashtanga í Kyoto svo ég skelli mér kannski líka þar. Nú er ég farinn að skoða meira af Tokyo.

Ummæli

Vinsælar færslur