Hong Kong er borg að mínu skapi

Hong Kong er borg að mínu skapi. Í fyrsta lagi er hér allt fullt af fólki og allt iðar af lífi. Fyrir fólk sem lætur mikið af fólki fara í taugarnar á sér. Þolir illa hita og raka. Fær gæsahúð af því að sjá kjöt verkað fyrir framan sig. Þá er Hong Kong ekki rétta borgin. En ég er yfir mig hrifinn. Hér er líka fólk úr öllum áttum. Þeir tala um að Hong Kong sé sýnishorn af allri Asíu og ég er ekki frá því að það sé alveg rétt. Þegar við bætist að hér er allt fullt af ferðamönnum. Þá verður þetta ótrúleg blanda. Finnst þetta allt svo skemmtilegt að ég ákvað að bæta við einum degi í Hong Kong.



Ég er líka búinn að vera duglegur síðan ég kom. Strax fyrsta daginn þá var ég rifinn út af CS meðlim. Annan daginn var ég bara á mínum eigin vegum, en það skemmdi ekkert fyrir. Mér finnst nefnilega líka bara ágætt að vera sjálfur á ferðinni. Það gerir þetta nefnilega bara að meira ævintýri. Ég er búinn að ferðast hérna upp á Tindinn (The Peak) með lest, sem var einhver ævintýralegasta lestarferð sem ég hef farið í. Málið er að þetta er svakalega bratt og ekki endilega fyrir lofthrædda að ferðast með þessari lest þarna upp á toppinn. En mér fannst þetta bara skemmtilegt og var alveg laus við að finna fyrir lofthræðslunni. Þegar upp var komið blöstu við verslanir. En verslun er eitthvað sem ég á ævinlega eftir að tengja við Hong Kong.



Hér er nefnilega ævintýralega gott úrval af öllu því helst sem þig gæti langað í. Allt frá merkjavöru fyrir þá sem hafa unnið nýlega í lottó (eða efnast með öðrum hætti) til ódýrra eftirlíkinga. Öll merki sem ég þekki og mörg fleiri. Svo þetta er paradís fyrir þá sem vilja versla mikið. En ekki endilega sérlega ódýr. Í það minnsta er margt hér á svipuðum slóðum og ég þekki bæði frá Íslandi og Bretlandi. Svo það þarf að leita til að gera gæðakaup. Hér eru líka ýmsar hættur til að varast. Til að mynda er hótelið mitt staðsett á frábærum stað. En þar eru reyndar gaurar sem endilega vilja fá að klæðskerasauma á þig föt. Þeim er vís best að gefa sem allra minnsta athygli. Svo eru hér endalausir markaðir. Í dag fór ég til dæmis og kíkti við í blóma, fugla, fata og jade (man ekkert hvað jade er á íslensku) mörkuðum. Bara svona á rölti mínu í leiðsögn Top 10 Hong Kong leiðsögubókarnir sem ég, hvað annað, keypti hér. Ég er nú svo sem ekkert að fjárfesta mikið, enda bakpokinn hvorki hentugur fyrir mikil innkaup, né freistar það mín sérstaklega að þurfa drösla fengnum um SA-Asíu.



En eftir heimsókn upp á Tindinn þá rölti ég niður leiðina sem áður og fyrr var farinn upp á Tindinn. Fullt af fólki sem notar þessa leið sem líkamsrækt. Ég svitnaði hins vegar lítrum. Því hér er bæði heit (30 stiga hiti) og rakt (80% raki). En röltið var skemmtilegt og ég endaði með því að sjá miðborg Hong Kong og taka svo ferjuna aftur yfir til Tsim Sha Tsui en svo heitir hverfið sem ég bý í. Miðborgin er full af háhýsum og raunar miklu flottari úr fjarlægð en þegar nær er komið. En á þessu svæði býr hins vegar sumt af ríkasti fólki Hong Kong. Það fékk ég staðfest af bílaeigninni á svæðinu. Við erum að tala um alvöru bíla. Raunar er það svo að ég er rétt hjá einu af fínustu og frægustu hótelum í Hong Kong. Að innan er það víst meira eða minna hannað af Starck og ef þú hefur áhuga á að gista, þá er svíta á 190.000 fyrir nóttina en þú færð líka far til og frá flugvellinum á Rolls Royce. En þarna í miðbænum eru helstu byggingar frá því Bretar voru hér við völd, en núna nýtur þessi borg algjörar sérstöðu innan Kína. Líklega vilja þeir ekki eiga við það sem virkar. En hér eru líka andstæður. Því það hafa það ekki allir jafn gott. Raunar býr fólk hér þröngt og úthverfin virka ekkert rosalega spennandi. Raunar er orðið fátt sem minnir hér á að Hong Kong þýðir “ilmandi eyja” í jákvæðum skilningi, en heldur hefur hallað á verri hliðina hvað það varðar.



Hafandi heimsótt þessa merkilegustu staði á Hong Kong eyju, þá fór ég og fékk mér Dim Sum eða Yumcha eins og það er víst kallað af þeim sem hér búa. Dim Sum er upprunið frá Hong Kong og afgreiðslufólkinu á hótelinu fannst ég víst frekar fyndinn þegar ég spurði hvort það væru góðir staðir hér við hótelið. Bara rétt handan við hornið var staður og þangað fór ég. Var sá eini sem var ekki af asískum uppruna þar inni. Kunni ekkert á kerfið. Vissi til dæmis ekki að mér bæri að veifa matseðlinum þegar ég væri tilbúinn að panta. Fékk að vita það og kennslu í notkun á prjónum (alltaf að læra) frá sessunaut mínum. Það er nefnilega þannig að á þessum stöðum ertu ekkert endilega einn eða með fólki sem þú þekkir við borð. Svo ég fékk þennan fína félagsskap frá manni sem vinnur á einu af hótelunum hér. Raunar eru allir ósköp hjálplegir hérna. Ég svo sem skil ekki annað. Getur vel verið að mér sé bölvað í sand og ösku þess á milli. En ég veit ekki betur og er því afskaplega kátur og glaður með þetta. Í dag ætlaði ég til dæmis að fara og skoða eina af stærstu Búddastyttum í heimi. En tókst ekki betur til en svo að ég endaði með því að fara í hringferð. Fór í vitlausan strætisvagn. Þegar ég spurði sessunaut minn þar, þá fékk ég ekkert nema góð ráð. Var hjálpað með þetta allt saman og fékk auk þess óvænta skoðunarferð um Hong Kong. En þetta Dim Sum stóð undir nafni og er raunar eitt af mínu uppáhalds. Hefur verið það frá því vinkona, vinkonu kynnti mig fyrir því í London fyrir nokkrum árum. Sú er einmitt ættuð frá Hong Kong.



En dagurinn var langt frá því liðinn. Ég slakaði aðeins á eftir matinn og rölti svo um hverfið og kíkti í verslunarmiðstöð sem er í stærri kantinum. 700 verslanir. Rölti þar um að ætlaði að kaupa mér 2-3 hluti, en það tókst nú ekki betur til en svo að ég fann lítið af því sem ég ætlaði mér. Raunar held ég að það sé í góðu lagi. Það eiga eftir að koma góð kauptækifæri síðar. En svo var bara kominn tími á að rölta upp á hótel, því um kvöldið var stefnt í gleði með CS hópnum í Hong Kong. Sem kom skemmtilega á óvart. Okkur hafði verið stefnt á ákveðin bar við Lan Kwai Fong götu, en svo heitir helsta bar gata í miðbæ Hong Kong. Svona eins og Hong Kong útgáfan af 101. Raunar er “Central” líka miðstöð skemmtanalífsins í Hong Kong – þar eru alvöru klúbbar og mikið um að vera fram undir morgunn. En þarna við Lan Kwai Fong var sem sagt verið að halda alþjóðlega bjór og matarhátíð. Þar smakkaði ég besta Kebab sem ég hef fengið á ævinni eftir ábendingu frá CS meðlim og svo var drukkið fullt af bjór. Eitthvað týndist úr hópnum þegar á leið á kvöldið. En ég var að sjálfsögð kátur og hress fram eftir. Þó að í morgunn hafi ég aðeins fundið fyrir kvöldinu áður. En þetta var svakalega skemmtilegt og ég skil vel að Hong Kong sé þekkt sem skemmtana borg. Hingað koma til dæmis flestir ef ekki allir af stærri nöfnum í mínum hljómlistargeira. Ég kvartaði hvorki undan félagsskapnum né tónlistinni þetta kvöld. Kannski það hafi einmitt verið afleiðing af kvöldinu hvað mér gekk illa að rata á Búdda styttuna. En eftir það óvænta ævintýri ákvað ég bara að taka rölt um Kowloon hluta Hong Kong.



Leiðsöguritið mitt leiddi mig inn í blómamarkað. Ég sá fullt af fuglum, en hér koma menn víst með fuglana sína á ákveðin stað til að viðra þá. Eða svo segir bókin. Ég held nú samt að þetta sé meira fyrir ferðafólkið, því þarna voru fuglasalar út um allt og mig grunar að þeir hengi upp fugla til að trekkja að fólkið. Svo lá leið mín um þetta einstaka hverfi. Þetta er miklu meira alvöru en miðbærinn. Fullt af litlum og skrítnum búðum. Fullt af fólki út um allt. Þarna í hverfinu búa 1.4 milljónir svo allir Íslendingar kæmust fyrir í hluta þess. Þarna voru líka flottir markaðir og alveg æðislegir matar markaðir. Ég væri svo til í að geta verslað í svona úrvali heima. Fann reyndar hvergi mangó, en fékk þetta flotta Papaya fyrir 100 krónur. Þetta hverfi minnir mig líka rosalega á Blade Runner. Gæti næstum verið klippt út úr þeirri mynd. Neonljós út um allt og þetta verður ennþá magnaðra þegar kvölda tekur. Kíkti við í hofi sem þarna er og sá einhverja athöfn í gangi. Þetta hof er tileinkað konu sem færir víst lukku og þarna voru í gangi þau stærstu reykelsi sem ég hef séð. Hingað til. Hægt að kaupa eitt slíkt sem færir þá mér og fjölskyldu minni lukku í heila viku. Raunar endaði ég svo daginn á því að fara og láta spá fyrir mér. Hafði verið sagt af þeim sem hér búa að ég gæti ekki sagt frá því að ég hefði komið til Hong Kong án þess að láta spá fyrir mér. Það voru bæði spákonur og spákarlar í röðum þegar ég kom á staðinn í kvöld. Kom mér fyrir hjá einum. Sem að sjálfsögðu gaf mér “special price”. Held að það sé hægt að prútta um flest og greinilega líka gæfuna. Hann sagði mér að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur. Lífið léki við mig og raunar væri minn allra besti tími framundan. Það eina sem ég þyrfti að passa væri heilsan. Raunar hafði ég heyrt margt af því sem hann sagði mér áður. Eða lesið það öllu heldur. En ég verð að segja að Hong Kong er borg að mínu skapi. Hér er fjölbreytni en ekkert til að hafa áhyggjur af. Fólk er úti með börnin sín langt fram eftir kvöldi og greinilegt að lítil hætta er á ferðum. Ekki nema þá helst að kaupgleðin grípi þig, því þá getur Hong Kong reynst hættuleg fyrir fjárhaginn.

Ummæli

Vinsælar færslur