Dagur 2 í Tokyo

Það rigndi í Tokyo þegar ég kom út af hótelinu í morgunn. Skrítið hvað það minnti mig á Ísland. Rok og rigning. Það er eitthvað smávegis líkt með þessum eyjum að þessu leiti. En það var svo sem stutt fyrir mig að fara út á Shibuya stöð. Ég á að sjálfsögðu ekki regnhlíf, en hélt því mikilvægasta þurru með því að vera með regnslá sem keypt var á Ísafirði einhverju sinni þegar ég var á leið á Hornstrandir. Sem er eldri saga. En í gær var ljómandi gott veður til þess að skoða sig um í Tokyo.

Ég byrjaði daginn á því að fara í jóga klukkan 7 í morgunn. Þarna sannaðist enn einu sinni hversu fínt Ashtanga jóga kerfið er. Málið er sem sagt að hefðbundin þjálfun sem er kölluð Mysore aðferðin felst í því að maður fer og gerir þetta sjálfur á eigin hraða. Er reyndar kennari sem segir manni til. En annars ert þetta bara þú. Af þessum sökum þá get ég farið hvar sem þetta er kennt og gert mitt. Án þess að hugsa um tungumála erfiðleika. Var reyndari kennari sem talaði ensku og ég fékk smá ábendingu um hvað ég ætti að gera öðruvísi. Gat gert ákveðna hluti sem ég hef verið í smá vandræðum með í fyrsta skipti í langan tíma. En ég þarf samt að passa mig vel. Get ekki alveg leyft mér að fá illt í hnéð núna. Sem ég fann að er aumt í dagf. Enda fór ég líka heilmikið um Tokyo í gær. Byrjaði á því að fara til Akihabara sem er miðstöð raftækja í Tokyo (lesist tölvur og rafeindatæki) og Manga. Athyglisvert svæði fyrir þá sem hafa gaman af hvor tveggja. Mér hafði einmitt verið bent á að skoða mig vel um þarna. Rölta hliðargöturnar. Sem eru fullar af litlum búðum sem selja ótrúlegustu hluti. Fyrir dellukalla held ég að þetta sé stórhættulegt að heimsækja. Sá þarna ferlega flottar myndavélar. Kemur að því að ég endurnýji mína Kodak vél. En þetta var ekki sá dagur. Því þó þarna sé hægt að kaupa næstum allt. Þá er ég ekkert að fara drösla svona tækjum með mér í ferðalagið um Asíu. Nógu þungur og stór þykir mér bakpokinn minn samt. Sem ég algjörlega sannfærðist um að var rétt ákvörðun að taka með í morgunn. Hefði ekki boðið í það að dröslast með tösku í lestarkerfi Tokyo þarna milli 8 og 9 og allar lestar næstum fullar af fólki. Tölvutöskuna skildi ég eftir á hótelinu, nennti ekki þvælast með hana tóma um alla Asíu og af því að þetta var taska sem ég hafði fengið gefins fyrir nokkrum árum, þá var mér bara alveg sama.

En já ég eyddi sem sagt góðum tíma í að skoða raftæki, taka myndir, fékk mér hádegismat. Sem var smá skemmtilegt. Því ég hafði séð að það væri hægt að ná sér í máltíð í 10-11 þeirra Tokyo búa (eða svona eitthvað í þá áttina). Þetta eru verslanir sem eru opnar allan sólarhringinn og þar má versla allt það nauðsynlegasta og þar eru seldir matarbakkar. Sem skrifstofufólk í nágrenninu fyllti þarna í hádeginu. Eiginlega ætlaði ég mér bara að kaupa ávexti, en fannst þetta svo sniðugt. Svo ég byrjaði að skoða. Ekki alveg það auðveldasta að átta sig á því hvað væri í boði. Ekki einu sinni þó umbúðirnar væru úr glæru plasti. Ég endaði með núðlurétt, grænt te og banana. Borðaði þetta með bestu list, en ég er eiginlega viss um að einhverjum þarna fannst skrítið afhverju ég hitaði ekki upp matinn minn. Kvöldið áður hafði ég farið inn á japanskan skyndibitastað sem heitir Yoshinoya. Þarna var matseðil með myndum og ég brosti, benti og fékk að lokum disk með grænu, kjöti og stóra skál af hrísgrjónum. Þetta var bara gott. Fyrir innan við 500 yen. Ég er alveg að sjá að Tokyo er ekkert endilega svo dýr. Reyndar alveg hægt að eyða fullt af krónum hérna. Margt í boði.

Eftir raftækin hafði ég ákveðið að taka rölt. Fór til Shinjuku og rölti þaðan til Shibuya. Þetta var svona út í óvissuna rölt. Með GPS tækið og svo bara rölta. Það gekk vonum framar. Ég fór reyndar langt í frá beinustu leið til baka. En fékk í staðin að sjá Olympíuleikvanginn í Tokyo frá 1964, garða sem ég hefði ekki séð annars og endaði á því að rölta í gegnum svæði sem mér var síðan sagt að sé kallað “á bak við Omotesando”. Það var svo skrítið að allt í einu var ég að rölta á svæði fullu af litlum skrítnum búðum, galleríum og datt meira að segja inn á lítinn franskan Bretaníuskaga stað sem hét því lýsandi nafni Cafe-Creperie Le Bretagne. Þar sem ég fékk ótrúlega góða pönnsu með vaniluís og karmellusósu og ektra síder frá frakklandi með. Algjör sæla og þarna var matseðil á ensku og ekkert vandamál. Raunar er það mín reynsla að þó hér tali fólk misjafnlega mikla ensku. Þá hef ég alveg náð að bjarga mér. Skil ekkert hvað fólkið er að segja. En brosi og þakka fyrir mig á íslensku.

Hitti svo Keiko vinkonu um kvöldmat. Þá var mér reyndar farið að líða svolítið undarlega. Tímamismunur ekki alveg að vinna með mér á kvöldin. Ég er kominn á fætur snemma. Vakna um 6 hingað til en eftir 6 þá byrja ég að verða frekar undarlegur í höfðinu. Ennþá í það minnsta. En hún sýndi mér svo meira af Omotesando og sagði mér söguna af því að það hverfi hefði verið þekkt fyrir gömul hús. En núna væri þar bara búið að byggja allt nýtt og það hefði ekki verið sérlega vinsælt hjá öllum. En mér fannst það nú samt bara fínt og sannarlega nóg af flottum verslunum. Svona Kings Cross Tokyo útskýrði hún. Við fórum síðan á ítalskan stað sem hét Café Madu. Þú tekur þetta klassíska Japan þegar þú ferð til Kyoto sagði hún mér. Það er borg þar sem hefðir ríkja. Fékk góð ráð fyrir Kyoto ferðina, upplýsingar um hvar ég ætti að taka lestina til Kyoto (frá Tokyo lestarstöðinni) og fékk fullt af fréttum af hverju Keiko hefði verið að vinna að undanförnu. Hún er á leiðinni til Íslands að fara halda sýningu á ljósmyndunum sínum í mars og apríl á næsta ári. Bráð vantar stuðningsaðila (enda ekki alveg ókeypis að komast á milli Japan og Íslands) svo endilega ef þið hafið tök á að styðja við ljósmyndara frá Japan þá get ég komið á sambandi. Fullt af góðum leiðum varðandi styrkveitingar sem ég hef og nokkuð öruggt að þetta á eftir að fá umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum enda ekki á hverjum degi sem ljósmyndari frá Japan heldur sýningu á Íslandi.

Í morgunn vaknaði ég svo í grenjandi rigningu í Tokyo. Kom mér út af hótelinu og mundi þá eftir því að athuga hvort ég gæti fengið gistingu þar á fimmtudaginn. En því miður var ekkert laust. Hefði átt að vera búinn að athuga það fyrr, en það er seinni tíma vandamál. Sit núna í Shinkansen hraðlestinni á leiðinni til Kyoto. Heldur ekki með gistingu þar, en sýnist samt að það sé að stytta upp og veðurspá dagsins á morgunn er glampandi sól. Náði mynd af Mt. Fiji eða einhverju fjalli sem var svipað í laginu á leiðinni. Svo ég er viss um að þetta á allt eftir að ganga eins og í sögu. Á kvöldverðar boð með Couchsurfing meðlim sem var svo elskuleg að bjóðast til að hitta mig á meðan ég væri í Kyoto. Eins gott að ég komist á Netið og geti haft samband. Japan sem ég sé í hraðlestinni minnir mig annars ótrúlega á Ísland. Meiri gróður og eðlilega meira af fólki, en hér eru fjöll og fallegt land að sjá.

Ummæli

Vinsælar færslur