Bit, blöðrur og óvænt símtöl

Í morgunn, þegar ég vaknaði, þá var ég kominn með fyrsta bitið mitt. Það fyrsta sem ég fæ í þessari ferð, en líklega ekki það síðast. Ég keypti mér “jungle strength” skordýrafæluefni með 50% DEET til að vera alveg viss. En það er víst svo sterkt, að það ber að varast að úða því á húð. Svo er ég með kláðapenna til að halda niðri eftirköstunum. Því ég bólgna alveg svakalega af þessum bitum og klæjar líka ferlega. Öllu verra er að ég er kominn með blöðrur á löppunum. Litla táinn mín er ekki sérlega glöð þessa dagana, kominn með blöðrur á hælana og mig verkjar þegar ég geng í sandölunum mínum. Ekki gott, því hér er svo heitt að það kemur eiginlega ekki neitt annað til álita sem fótabúnaður. Er með plástra meðferðis, en þetta er ekki alveg það sem ég óskaði mér. Þarfa að skoða hvaða fótabúnaður hentar mér best þegar ég kem til Tælands.

En ég er orðinn örlítið glaðari með Singapore. Því þrátt fyrir fótverki (sem versnuðu eftir því sem leið á daginn) þá rölti ég heilmikið um borgina í dag. Hún hefur sinn sjarma og það sem gerir hana svolítið sérstaka er þessi mikla litagleði sem hér er í gangi og að innan um háreystar byggingar þá er lágreistari byggð. Svo lét ég reyna á lofthræðsluna mína aftur í dag. Fór í 150 metra hæð í helíum loftbelg. Það var bara nokkuð skemmtilegt, en ég fann samt fyrir hræðslunni sem var þarna rétt handan við hornið. En ég lifði þetta alveg af og útsýnið var bara nokkuð flott. Ég forðaðist bara að líta beint niður. Þetta var nokkuð magnað tæki. Þetta er sem sagt loftbelgur sem hengur í kappli. Lyftir sér sjálfur upp og er síðan dreginn niður. Ekki ætla ég að segja að ferðin hafi verið löng. Raunar var þetta eiginlega alveg í styðsta lagi, meira að segja fyrir lofthrædda eins og mig. Ég heimsótti líka Arabahverfið hér. Kíkti inn í helstu mosku þeirra og var næstum hent á dyr. Mun minni gestrisni á þeim slóðum en í Búddahofum sem ég hef komið inn í.

Gestrisni skorti líka á veitingastaðnum sem ég ætlaði að borða á í kvöld. Ég hafði sem sagt ákveðið að fyrst þetta væri nú síðasta kvöldið mitt hér, þá ætlaði ég að finna mér sæmilegan veitingastað og fá mér gott að borða. Sá að Lonely Planet talaði um einhvern sérlega alþýðlegan franskan stað hérna rétt við gistiheimilið. Svo ég kom mér þangað. Vildi helst sitja úti, en nei, þar voru bara stór borð og það kom ekki til álita. Svo ég fékk mér sæti inni. Fékk matseðil og byrjaði að skoða hvað væri í boði. Til mín gekk þjónn nokkru síðar og spurði hvort ég væri tilbúinn að panta. Ég bað um mínútu frest og rauðvíns glas. 10 mínútum seinna og eftir að hafa meira að segja óskað eftir því að fá að panta, þá bara einfaldlega gafst ég upp á biðinni. Þá búinn að sitja þarna í 20 mínútur. Veit ekki hvort maður verður ósýnilegur á því að panta ekki þegar þjóninn kemur fyrst, eða hvað var málið. En í staðinn fór ég á frábæran indverskan grænmetisstað. Mikið rosalega var bæði maturinn og þjónustan þar góð. Fyrir brot af því sem ég hefði þurft að greiða á franska staðnum. Svo þegar upp var staðið þá fannst mér það bara góð skipti. Kíkti svo í Mustafa. En svo heitir stórmarkaður sem er opinn allan sólarhringinn í Indverska hverfinu. Er opinn allan sólarhringinn og þar gildir “stack’em high and sell’em low” eins og ég lærði einhvern tíma hvernig þetta væri orðað. Þarna væri eflaust hægt að gera rosa fín kaup. Þó ég væri bara að leita að sandölum, en samt fann enga betri en þá sem ég á núna.

En undarlegasta tilvikið í dvöl minni hér var samt í gærkvöldi. Þá hringdi síminn og maður kynnti sig.
“Góðan daginn, XXX, heiti ég og hringi frá lögreglunni. Þú býrð á XXX er það ekki?”

Þetta var svo súrealískt að ég var ekki alveg viss um hvort ég ætti að svara, eða spyrja hver þetta væri sem væri að gera grín að mér, en til allrar hamingju fylgdi svo smá með í viðbót sem gerði það að verkum að ég hló ekki bara og skellti á.

“Málið er sko að það kveiknaði í þarna í íbúð skáhalt á móti þér um daginn. Nú hafa iðnaðarmenn verið þar að störfum og það vildi svo óheppilega til að þeir boruðu í sundur vatnsleiðslu og inntakið mun vera í sameign hjá þér. Ekki hefurðu tök á því að koma og hleypa okkur inn í sameignina”

Allt satt og rétt og einhvern veginn trúði ég því einfaldlega ekki að einhver hefði búið til svona sögu, bara til að gera grín að mér. En þá kom að því að svara.

“Já, ég bý nú reyndar þarna, en er hins vegar staddur í Singapore og get því afar lítið fyrir ykkur gert, en get bent ykkur á fólk sem er með aðgang að þessu og þið bara prófið að hafa samband við það.”

Sem þeir og gerðu. Ég sannreyndi að það hefði verið hringt í þetta fólk af lögreglunni. Sannarlega undarlegasta atvik sem ég hef átt hingað til í fríinu. En næst liggur leið til Tælands. Vakna snemma í fyrramálið og athuga hvort ég komist með Thai til Tælands

Ummæli

Vinsælar færslur