Á leið út í heim

Ég er að undirbúa langferðina. Atvinnuleit minni er nefnilega lokið og þegar ég sá fram á það, þá fékk ég þá hugmynd að núna væri tími fyrir ævintýraferð. Vegna þess að það styttist í sumarið þá spurði ég tilvonandi atvinnuveitanda hvort honum litist betur á að ég myndi klára ferðalagið áður en ég kæmi til starfa, eða hvort betur hentaði að ég myndi taka mér frí í sumar. Tilvonandi atvinnuveitandi taldi best fara á því að ég myndi klára fríið áður en ég kæmi til starfa, svo ég fór af krafti að skoða hvernig ég ætlaði að gera þetta.

Stefnan er sett á Asíu með hugsanlegri viðkomu í Ástralíu. Held líklega af stað út í heim eftir tæplega viku (eða svo) og ætlun mín er að heimsækja Tokyo, Kyoto, Hong Kong, Singapore, Kuala Lumpur og enda í Tælandi. Allt var þetta bara hugmynd fyrir viku svo ég hef haft í mörg horn að líta. Búinn að fá fyrstu umferð af bólusetningum. Líka búinn að komast að því að vegabréfaáritun ætti ekki að vera vandamál fyrir þessa ferðaáætlun. En ekki alveg jafn ljóst hvernig ég mun nákvæmlega fara á milli þessara staða.



Vegna þess að þetta var bara hugmynd fyrir viku þá vissi ég varla hvað ég ætti að skoða á þessum stöðum. Eða kostnaðarhliðina. Eða yfirhöfuð út í hvað ég væri að fara. Hef bara einu sinni komið til Asíu áður og það var í hálf óraunverulegri 25 tíma heimsókn til Tokyo. Svo ég hef verið að skoða mig um á Netinu. Fyrst hef ég verið að heimsækja þessa staði sem ég þekki. Finnst til dæmis Couchsurfing alveg magnað fyrirbæri. Ætla svo sannarlega að nýta mér það og vonast til þess að finna á hverjum stað sem ég heimsæki einhverja sem gætu viljað sýna mér það helsta á svæðinu. Það er algjörlega magnað að hafa einhvern á staðnum sér til halds og trausts. Ekki hvað síst vegna þess að ég verð einn á ferð. Hef líka verið að skoða gistimöguleika í gegnum TripAdvisor. Þetta eru greinilega mjög misjafnlega dýrar borgir heim að sækja. Ætli ég reyni ekki að stoppa frekar stutt ef gisting er dýr, en það virðast þó vera margvíslegir valkostir í boði. En ég hef líka fundið alveg nýja hluti.

Fann til dæmis Wikitravel. Wikitravel er svona eins og Wikipedia nema fyrir þá sem eru að ferðast. Ég skoðaði það sem kom fram um Ísland svona til að tékka hversu áræðanlegt þetta er og svo virðist sem þetta sé nokkuð í lagi. Geta þá líklega notað Couchsurfing til að staðreyna ef á þarf að halda. Í gegnum þessa vefi hef ég fengið þá tilfinningu að það sé ekki mikil áhætta fólgin í því að ferðast um Asíu. Helst að ég þurfi að passa upp á verðmæti. Komast hjá því að villast í þessum stórborgum. Átta mig á því hvert verðgildi mismunandi gjaldmiðla er. En mikið svakalega hlakka ég til að takast á við þetta ævintýri.

Ummæli

Vinsælar færslur