Kyoto til Tokyo

Ég tók daginn snemma. Það hefur verið vaninn í þessari ferð. Tímamismunur gerir það held ég að verkum. Svo verður þetta líka að vana. Ef þetta heldur svona áfram, þá verður ekkert næturlíf í gangi hjá mér í þessari ferð. Ég er alltaf orðinn svo syfjaður upp úr níu á kvöldin að það freistar mín bókstaflega ekki neitt að eyða tímanum á einhverjum börum. Ekki ennþá í það minnsta. Í gærkvöldi fór ég til dæmis út að borða aftur með couchsurfing félögum. Sú sem hafði verið svo vinsamlega að kíkja með mig í japanska pizzu var að hitta nýjan couchsurfing félaga, strák frá Frakklandi. Sem er hér í Japan í töluvert lengri tíma en ég. Hann var frá suður Frakklandi og var hér vegna þess að hann hafði í einhver ár (man ekki alveg) verið að læra japönsku og fannst vera kominn tími til að heimsækja landið. Það voru Ramen núðlur í matinn hjá okkur í gærkvöldi ásamt góðum japönskum bjór. Sem er einstaklega þægilegt öl að drekka. Skilst að það sé vegna þess að þeir nota hrísgrjón þegar hann er bruggaður. Gefur honum mjög fína og þægilega áferð. Ég var hins vegar farinn að geyspa upp úr níu og þurfti þráfaldlega að afsaka dónaskapinn. Þetta væri ekki vegna þess að félagsskapurinn væri svo slæmur. En ég fór sem sagt snemma út af Ryokan í Kyoto. Fékk að geyma farangurinn minn og hélt út í gönguferð.

Í þetta skipti ákvað ég að nenna ekki meira að skoða hof. Fannst ég svolítið klára þann pakka í gær. En í gærkvöldi heyrði ég af fallegri leið þarna í Kyoto. Leið sem sá franski sagði að ég yrði að fara áður en ég færi frá Kyoto, svo fræg væri þessi leið í Japan. Þessi leið heitir Heimspekingaleiðin eða kannski Heimspekileiðin. Það hefur nefnilega ekkert farið framhjá mér að hér í Japan er skilningur og tök á ensku ekki alltaf alveg 100%. Sá til dæmis unga konu í bol sem stóð á “nice seaward views and evening breeze”. Sem mér fannst skemmtilegt. En ég fékk sem sagt að skilja farangurinn eftir í gisithúsinu og fór þessa leið. Sem er víst alveg mögnuð þegar kirsuberjatréin blómstra á vorin. En nógu falleg var hún samt í dag. Kyoto er víst miðstöð japanskrar menningar og þessa leið gengu sumir af mestu hugsuðum landsins. Meðfram skurði sem þarna liggur og í er þessi fiskur sem Japanar halda svo mikið upp á sem skrautfisk. Vatnakarfi held ég að hann sé kallaður á íslensku. Þarna býr greinilega fólk sem á nóg af aurum. Bæði voru húsin stór og bílarnir glæsilegir. Enda óskaplega fallegt svæði. Það endaði samt með því að ég datt inn í hof á leiðinni.

Þetta var svona lítið hof. Með fallegri aðkomu. Var ekki merkt inn á kortið sem ég var með. Var bara 50 metra frá stígnum sem ég var á. Svo ég lét mig hafa það að kíkja. Er nefnilega oft svoleiðis að þetta litla staðbundna verður svo skemmtilegt í samanburði við stóru staðina. Þetta var nákvæmlega svoleiðis. Þarna voru nokkur lítil hof. Í japönsku Shinto hefðinni. Sem er eldri en búddisminn sem er hér. Ef þú heimsækir svoleiðis hof, þá er gott að vita að þú átt að þvo þér um hendur áður en þú gengur nær. Það er alltaf vatn með svona einskonar ausum sem þú notar til að skola á þér lófana. Shinto hefðin er meira í átt að frumtrú, þarna voru dýr, kettir, apar og rottur. Hef ekki hugmynd um hvað hvert þeirra táknar, en þarna var líka fólk sem gekk á milli og fór með bæn. Svo þetta var alveg alvöru fannst mér.

Hafandi fengið þennan góða skammt af japanskri menningu þá endaði ég inni á einhverju kaffihúsi. Fékk mér beyglu og ískaffi í hádegismat. Í Kyoto var nefnilega vel heitt. Ekki kaldara en í gær, þegar Weatherunderground sagði mér að það væri 25 stiga hiti um kvöldið. Sótti farangur, rölti út á lestarstöð og keypti mér miða með Shinkansen hraðlestinni til Tokyo og var ekkert að hafa fyrir því að láta taka frá sæti. Hafði séð það á leiðinni að ég gæti sparað mér þarna nokkur hundruð yen og bara fundið mér sæti. Það virkaði að sjálfsögðu. Svo ég hef verið að skrifa þessar línur í lestinni. Á meðan ég drekk grænt te (hvað annað) og prófa snakkið sem vinkona mín í Tokyo gaf mér. Sem er alveg skemmtilegt. Eitt er lítið kex sem hefur verið vafið með þangi (svipað því sem notað er til að rúlla sushi) og minnir mig eina helst á harðfisk snakk. Svona svolítið salt og sjávarbragð af öllu saman. Þarna er greinilega tenging á milli okkar.

Hafandi eytt þessum tveimur dögum í Kyoto þá held ég að mér sé alveg óhætt að fullyrða að hver sá sem fer til Japan ætti að reyna að heimsækja Kyoto. Því þótt Tokyo sé meiri stórborg, þá fannst mér mikil upplifun að koma til Kyoto. Ég áttaði mig á því hversu miklar rætur eru hérna. Sást kannski bara best á því að sumir af þeim stöðum sem ég heimsótti áttu rætur sínar að rekja til atburða sem gerðust á sjöttu til áttundu öld. Því þótt við höfum komið Þingvöllum á alþjóðaminjaskrá, þá voru flestir þeir staðir sem ég heimsótti þá þegar komnir á þessa skrá. Svo fyrir þá sem vilja finna hefðina í Japan (sem ekki er alltaf augljóst í Tokyo) þá er heimsókn til Kyoto ómissandi.

Núna er ég síðan kominn inn á hótel við flugvöllinn. Í morgunn leit út fyrir að ég myndi komast í fyrramálið til Hong Kong. Núna lítur það ekki eins vel út. En ég ætla að taka power of positive thinking á þetta. Trúi því að það bíði mín eitt laust sæti í vélinni í fyrramálið til Hong Kong. Ef ekki, þá eru þó nokkur flug á morgunn. Svo væntanlega kemst ég á leiðarenda. En það var skemmtilegt að á leiðinni frá Kyoto til Narita. En Narita er 70 km frá Tokyo og vegna þess að það leit svo vel út með flugið, þá ákvað ég að vera á flugvellinum, þá hitti ég hana Sally. Það byrjaði bara þannig að hún spurði hvort ég talaði ensku á lestarstöðinni í Tokyo. Vegna þess að hana vantaði miða en hafði ratað á hraðlestina út á flugvöll. Í kjölfarið settist hún fyrir tilviljun í sætið við hliðina á mér. Kom í ljós að hún var frá Ástralíu og var hér að kenna ensku. Ég komast að því á klukkustundarferð að hún er útskrifaður verkfræðingur og ákvað að gera þetta í kjölfarið á útskrift sinni frá háskólanum í Ástralíu. Fyrr um daginn hafði ég verið að hugsa hvað það væri ekkert endilega alveg málið að vera einn að ferðast. Svo þá fékk ég senda Sally. Sem ég hefði aldrei kynnst (þó það væri ekki nema bara þennan klukkutíma) nema af því að ég var að ferðast einn. Skemmtilegt hvernig þetta virkar.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
veist ég hefði komið með þér ef þessi helv.. vinna væri ekki að flækjast svona fyrir:s...er samt með þér í anda..hangi á öxlinni þinni og garga "GO Simmi, GO Simmi" í eyrað á þér:)...bíð spennt eftir að heyra hvernig þú fílar þig í Hong Kong
Simmi sagði…
Ja eg veit ad thu daudofundar mig:-)

Vinsælar færslur