Á morgunn segir sá lati

Ég hef tekið mér frí. Ekki svona frí frá vinnu. Heldur frí frá skriftum. Átti sérlega góða leti helgi. Það er svo yndislegt að leyfa sér að vera latur. Gott leti kast er nefnilega nauðsynlegt til þess að hlaða sig upp. Sem mér veitir ekki af á þessum árstíma. Þetta er nefnilega minnst uppáhalds tími ársins. Ég verð nefnilega alltaf örlítið dapur við að taka niður jólaskrautið.

Um þessi jól tók ég þá ákvörðun að setja ekki upp jólatré. Akkúrat núna er ég rosalega ánægður með þá ákvörðun. Það þýðir nefnilega að það er mun auðveldara að taka niður jólin en ef ég hefði keypt tré. Þess í stað er þetta bara svona létt niðurtaka á jólaskrauti. Það sem gleður mig yfir jólahátíðina eru hins vegar öll ljósin. Núna eru þau öll að hverfa. Mér fannst virkilega erfitt að rölta út í morgunn. Engin ljós. Í staðinn svarta myrkur og hræðilega kalt. Ég herpist saman við það.

Á móti kemur að ég er búinn að setja mér markmið. Markmið um að hreyfa mig meira en nokkru sinni fyrr á ævinni. Byrjaði eftir vinnu. Skildi ekkert í því hvað ég gat lítið. Held það séu jólin og letin. Þetta kemur í bakið á manni. En næstu vikur stefni ég að því að komast aftur á skrið. Hafði velt því fyrir mér að taka aftur þátt í skipulögðu námskeiði. Svona karla átaki. En ákvað að sleppa því. Í staðinn ætla ég mér að vera duglegur í jóga. Ég er nefnilega á því að ég þurfi meira á því að halda. Þetta andlega hefur verið að þvælast fyrir mér undanfarið. Svo ég ákvað að vera bara með eigin átak. Fara í leikfimi til að lyfta og hlaupa. Taka jóga til þess að koma ró á andlegu hliðina og lyfta mér aðeins upp í svartasta skammdeginu.

Það er nefnilega margt framundan. Eiginlega bara þétt dagskrá af viðburðum. Svo til þess að takast á við það, þá held ég að mér veiti ekkert af því að vera í góðu andlegu og líkamlegu ástandi. Hlakka annars til að takast á við þetta allt saman. Svo það gæti verið eitthvað í að ég fá aftur tækifæri til þess að leggjast í letikast.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
líst vel á þetta hjá þér, þýðir ekkert annað en að rífa sig uppúr janúarblúsnum...

Vinsælar færslur