Sumt reynist mér einfalt að skilja. Annað vefst verulega fyrir mér. Það tók mig ekki langan tíma að átta mig á þyngdarlögmálinu. Hef séð ungabörn læra þetta sama. Þau taka eitthvað upp. Láta það detta í gólfið. Alltaf með sömu niðurstöðu. Samt var það ekki fyrr en með Newton sem þetta varð að viðurkenndri staðreynd. Svo í stórumyndinni er líklega fullt af hlutum sem við erum ennþá ekki búinn að samþykkja sem augljós.

Núna eru byrjaðir þættir á Stöð 2 með Derren Brown. Trick of the Mind. Ég horfði á fyrsta þáttinn. Fannst hann mjög athyglisverður. Hann sýndi þar hvernig hægt er að plata okkur upp úr skónum. Það sem mér fannst skemmtilegast í þessum þætti var þegar hann bað hóp af fólki. Á þremur stöðum í heiminum. Að setja hlut í umslag. Svo kom hann til baka og sagðist hafa sett saman lýsingu á fólkinu. Það var síðan spurt hversu vel lýsingin átti við. Mjög vel að því er virtist. En svo kom í ljós að hann hafði skrifað sömu hlutina um alla. Sem segir kannski eitthvað um það hversu illa við þekkjum okkur sjálf. En í það minnsta er augljóst að það er merkilega auðvelt að segja eitthvað um okkur. Sem við teljum sannleikanum samkvæmt. Þetta sagði Derren að væri aðferð sem til dæmis miðlar nota til þess að plata okkur.

Svo líklega erum við ekkert sérlega góð í þekkja sjálf okkur. Það versnar líklega enn frekar þegar kemur að því að þekkja fólkið í kringum okkur. Ekki að ég sé neikvæður í garð fólks almennt og yfirleit. Held að við séum flest þeirrar gerðar að vilja hvort öðru gott. Ég hef til dæmis átt góð samskipti við flest af því fólki sem ég hef hitt um mína daga. Ekki án undantekninga þó. Stundum kemur það fyrir að mér mistekst gjörsamlega að lesa fólkið í kringum mig. En þótt það komi fyrir. Þá hef ég samt haldið mig við þá skoðun að þetta séu undantekningar. Vegna þess að oftar virkar hitt. Hefur skilað mér nægilega mörgum skemmtilegum hlutum að ég tel þá reglu betri en hina. Að vantreysta þangað til annað kemur í ljós.

En fleira vefst fyrir mér. Mér er til dæmis hulin ráðgáta af hverju mér finnst svona ferlega gott að fara í jóga. Jóga er nefnilega hörkupúl. Ég er að reyna að teygja mig lengra en mér reynist mögulegt. Gera æfingar sem mér finnast þrælerfiðar. En samt finnst mér það lukkudagur þegar góð vinkona mín kom mér til þess að taka byrjendanámskeið hjá Yoga Shala. Hef síðan stundað það, þó kannski ekki af jafnmiklu kappi og ég hefði helst viljað sjálfur. En það sem mér finnst samt ævinlega jafn athyglisvert. Er hversu vel mér líður eftir að hafa farið í gegnum æfingarnar. Það er eitthvað sem gerist í höfðinu á mér. Jafnframt finnst mér sú hugmyndafræði sem Yoga gengur út á afar jákvæð. Sú hugmynd að það sé viðhorf okkar sem ráði mestu. Jákvæðni leiði til jákvæðra hluta. Við þurfum því að vera ánægð með okkur sjálf. Ánægð með þá hluti sem við gerum. Það versta sem við gerum sé að burðast með samviskubit. Yfir einhverju sem við ráðum ekki yfir. Yfir matnum sem við borðum. Það leiði til verri hluta. Þetta rímar vel við trú mína á karma. Veit heldur ekki af hverju það virkar. En hef samt trú á því.

Ummæli

Vinsælar færslur