Er rétt hjá fjölmiðlum að búa til fréttir? Þetta var ein af þessum spurningum sem við veltum fyrir okkur þegar ég var í námi fyrir margt löngu síðan. Þetta var í landi með mun þróaðri fjölmiðla en við þekktum á þeim tíma hér á landi. Raunar gildir það að nokkru leiti enn. En þó ekki. Því Netið hefur breytt miklu í þessu efni. En spurningin er jafn gild fyrir því. Það hefur einmitt verið mikil umræða í kjölfarið á Kompás þætti sem sýndur var á Stöð 2 um þessa spurningu.

Ég ætla mér ekki að taka nokkra afstöðu til umfjöllunarefnis þess þáttar. Finnst það raunar dapurlegt af ýmsum ástæðum. Skoðanir mínar á þeim dómum sem falla í málum af þessu tagi ættu líka að vera nokkuð ljósar. Svo það er ekki það sem rekur mig til skrifta. Heldur hitt, hvort það sé í lagi að fjölmiðlar búi til fréttir. Málið er nefnilega að fréttir ættu að endurspegla eitthvað sem gerist. Ekki eitthvað sem fjölmiðlar láta gerast. Þannig eru til dæmis skoðanakannanir sem fjölmiðlar láta gera, ljóslega á gráu svæði hvað þetta varðar. Það er alveg klárt að birting þeirra hefur skoðanamyndandi áhrif. Þess vegna hefur það löngum verið gagnrýnt að fjölmiðlar birti skoðanakannanir sem þeir sjálfir gera. Raunar heyrir slíkt orðið sögunni til hér á landi. Í dag eru þetta traust fyrirtæki á borð við Capacent sem framkvæma þessar kannanir.

En hvað ef fjölmiðlar setja í gang atburðarrás? Segjum sem svo að einhver fjölmiðill myndi opna bar í 101. Þangað myndu þeir bjóða helstu stórstjörnum landsins. Svona þeim sem helst vilja láta sjá sig í Séð og Heyrt. Á yfirborðinu virtist þessi staður vera venjulegur skemmtistaður. En til þess að afla sér frétta. Hefði fjölmiðilinn ákveðið reyna að selja eiturlyf á staðnum. Sjá hvort einhverjar af stjörnunum myndu bíta á agnið. Nú eða skoða hvort starfsfólkið myndi hleypa inn unglingum sem reyndu að komast inn á staðinn. Eða bara hreinlega athuga hvort hægt væri að múta lögreglu sem kæmi á staðinn til þess að skoða hann lítið. Eða hlera samtöl þeirra sem þarna koma inn í þeim tilgangi að afla sér upplýsinga sem gestir staðarins teldu sig vera að ræða í einrúmi. Þetta voru allt spurningar sem við veltum fyrir okkur. Þarna í náminu. Niðurstaðan í þeirri umræðu var sú að fjölmiðlar ættu að segja fréttir. Segja frá því sem gerist. En ekki vera í hlutverki gerenda í því efni. Spurningin er nefnilega alltaf. Hvort ákveðin viðburður hefði átt sér stað ef ekki hefði verið fyrir tilstuðlan viðkomandi fjölmiðils. Fjölmiðlar eiga nefnilega að standa fyrir utan atburðarásina. Annars er hætta á því að þeir missi trúverðugleika sinn. Hlutleysi þeirra sé dregið í efa.

Ummæli

Vinsælar færslur