Rétta svarið fyrir mig

Ég hef galla. Sem kemur mér stundum í koll. Á það til að vera til í verkefni. En ekki alveg eins duglegur að átta mig á því hversu margir klukkutímar eiga eftir að fara í verkið. Þetta þýðir að ég hef orðið að temja mér ákveðna siði. Meðal annars að halda úti listum. Passa að ég eyði ekki of miklum tíma í eitthvað rugl. Sofa vel. Þetta gengur svona misjafnlega eins og gengur. Ekkert of langt liðið á þetta ár. En ég er samt að sjá fram á að fyrsti ársfjórðungur er að verða nokkuð þéttur af skemmtilegum verkefnum.

Ég er nefnilega líka svo heppinn. Í það minnsta í seinni tíð. Að þetta eru flest afskaplega skemmtileg og spennandi verkefni. Ofan á þau bætist síðan við hefðbundin ferðaþörf mín. En núna lítur út fyrir að ég sé búinn að koma mér í dómnefnd fyrir ákveðin verðlaun. Komi til með að halda áfram í þjálfun í björgunarsveitunum. Haldi fyrirlestur í höfuðborg Þýskalands. Sé líka fram á að kenna meira. Það er skemmtilegt og krefjandi. Nýr hópur samt. Svo það hlaðast á mig aukastörf. Hef líka nóg að gera á aðalvinnustaðnum. Þessi árstími kallar á það.

Þetta kann að hljóma eins og ég sé óskipulagður. Það er mikið til í því. Ég hef þess vegna reynt að temja mér góða siði í þessu. Tímastjórnunarnámskeiðið sem ég fór á fyrir áratug er ein af mínum bestu fjárfestingum í menntun. Mæli með slíku við alla sem eru óskipulagðir eins og ég. Hitt eru listar. Ég lærði þetta af fyrrverandi sambýliskonu minni. Ein af þessum góðu gjöfum sem ég fékk frá henni. Held samt líka að þetta sé ákveðin kostur. En þetta kemur mér stundum í koll. Þá verður iðulega einhver fyrir vonbrigðum. Stundum ég sjálfur. Það er nefnilega afskaplega leiðinlegt að standa ekki undir væntingum. Ég þoli ekki þegar slíkt gerist hjá mér. En hér áður og fyrr. Þá óx stressið hjá mér þangað til að ég var farinn að hlaupa í hringi. Ég kom engu í verk og allt var í bölvun. Síðan þegar kom að skuldadögum. Þá var því sem var skilað ekki endilega í samræmi við það sem ég hafði vonast til. Einfaldlega vegna þess að of mörg verkefni höfðu sest á sama tíma. Þetta er vandamál sem nemar þekkja. Það er eins og öll verkefni lendi í skilum á sama tíma.

Það sem ég síðan uppgötvaði þegar ég kom út á vinnumarkaðinn. Var að þar gat þetta orðið með sama hætti. Hluti af því stressi sem fylgir mínu starfi. Er einmitt að lenda í pressu með mikilvæg verkefni. Þau koma inn, án þess að ég ráði nægilega mikið yfir því. Sem er sannarlega streituvaldandi. Þess vegna þurfti ég að læra að segja nei. Hef komist að því að það veldur mér líka streitu. Óvinsældum hjá þeim sem vilja sjá hluti gerast. En klukkutímunum fjölgar ekkert í sólarhringnum. Svo nei er svarið.

Ummæli

Vinsælar færslur