Bara lítil horn þetta árið

Ég furða mig stundum á því hvernig skapstirð brýst fram í skrifum fólks. Sumir virðast til dæmis vera með allt á hornum sér í upphafi ársins. Sem er eitthvað sem ég bókstaflega skil ekki. Ekki vegna þess að ég skilji ekki að fólk geti verið í fýlu. Það getur alveg verið gott fyrir sálina að vera fúll. En það sem ég skil ekki alveg er skapstirð yfir nýju ári. Sumir virðast nefnilega helst sjá ástæðu til þess að vera með upprifjun á því sem þeim mislíkaði á síðasta ári. Nefni ekki nein nöfn. En þetta tengist góðmálmum og einhverju sem er á klukkum.

Þar á bæ hefur verið nokkuð rösklega ausið yfir okkur sem kjósum að halda úti vefdagbókum. Sem er held ég besta þýðing á weblog (styttist í blog) sem ég man eftir. Ég er hins vegar bara kátur með nýja árið. Finnst meira að segja ástæða til þess að geta þess. Án þess að ég vilji draga úr nokkrum að tauta. Þá hefur mér lærst. Að það þarf ákveðna snilli í skrifum til þess að geta tautað. Án þess að skelfa lesendur úr leiðindum. Raunar hef ég gaman af því að rausa. Tauta og tuða eins og það sé í tísku. En veit líka að öllu má ofgera. Það getur nefnilega orðið svo einstaklega dapurlegt að hlusta á einhvern með allt á hornum sér. Sem skelfist hið jákvæða.

Ég gæti heldur ekki verið meira ósammála því mati að íslenskar vefdagbækur séu einkum og yfirleit fullar af slíku tauti. Ekki af því að ég vilji halda því fram að ég sé svona frábær. Hreint ekki. En ég fagna þeirri þróun að sem flest okkar hafi aðgang að leið til þess að segja frá. Eins og þetta horfir við mér. Þá er þetta að leysa úr læðingi gríðarlega sköpun. Fullt af þöglum sögumönnum og meyjum eru að leysa frá skjóðunni. Auðvitað er afraksturinn misjafn. Ekki allir snillingar. En það er líka bara allt í lagi.

Hér skrifa ég líka fyrir sjálfan mig. Reyndar kemur fyrir að ég fái kveðjur. Veit þá af því að ég á mér lesendur. Geri mér líka ljósa grein fyrir því að ekki á endilega allt erindi hingað. Ég hef þannig skrifað hluti sem aldrei voru birtir hér. En svöluðu þörf. Kannski birtist eitthvað af því í ævisögu. Eða hér. Eða kannski fer það á þjóðskjalasafnið með fyrirmælum um að það megi lesa eftir 90ár. En ég fæ það stundum á tilfinninguna. Að þeir sem hafa setið við skriftir um langan aldur. Hófu jafnvel störf á hefðbundnum miðlum. Telji það hafa dregið úr sérstöðu sinni að þessi lýðvæðing útgáfu skuli vera að eiga sér stað. Sem er eflaust nokkuð til í. Markaðurinn hefur breyst þarna. Það er ekkert nýtt. Það er heldur engin tilviljun að þeim sem sitja inn á markaðnum lítist illa á þá sem þangað sækja inn.

En fyrir mig. Þá finnst mér þetta bara frábært. Ég hef aldrei á ævinni haft aðgang að jafn miklu af gæða efni eins og einmitt í dag. Í mínum huga lifi ég því á hinum bestu tímum. Er þess vegna hóflega bjartsýn og finnst ekki ástæða til að kvarta.

Ummæli

Blinda sagði…
Weeeeell......
sumir hafa stærri horn en aðrir og það virðist ýmiskonar drasl festast í þeim og kenni ég m.a. rokinu í mótbyrnum þar um.

Blindi hrúturinn

Vinsælar færslur