Slæm lausafjárstaða

Ég er blankur. Er alltaf blankur. Það er eðlilegt ástand mitt að eiga minna af fjármunum en ég gæti eytt. Það ríkir stöðugur skortur á reiðufé hjá Simma ehf. Ekki vegna þess að mig skorti viljan til þess að eiga, nei heldur skortir mig viljan til þess að eiga. Kannski er orsökin sú að ég ólst upp í íslensku óðaverðbólgunni. Ég komst til dæmis að því að síðan 1950 hefur verkalýðsfélagið sem ég er meðlimur í, náð fram 139.000 prósent launahækkunum. Svo þrátt fyrir að verkalýðshreyfingin hafi náð fram umtalsverður launahækkunum þá voru þær í langan tíma bara teknar af fólkinu aftur. Þetta var nefnilega nokkuð skringilegt bragð sem var notað.

Eftir að hafa staðið í nokkura vikna verkfalli (í það minnsta áttum við heimsmet í verkföllum) þá var yfirleit samið. Oftar en ekki um fínar launahækkanir. Í kjölfarið hófst umræða um að gengi íslensku krónunar væri orðið of hátt, útflutningsgreinarnar (lesist fiskveiðar og vinnsla) ekki lengur samkeppnishæfar og nú bara yrði að lækka gengið. Kannski var ástæðan sú að eftir kjarasamninga þá höfðu menn ekki lengur efni á því að greiða launin. Svo með því að lækka gengið höfðu útgerðarmenn og fiskvinnsla fleiri krónur í höndunum. Málið var leyst. Reyndar með því að lækka við okkur launin, en það virðist aldrei hafa verið stórkostlegt áhyggjuefni ráðamanna.

Ég er reyndar á því að það sé skárra að halda aftur af launakröfum, en láta atvinnuleysi komast af stað. Hef heyrt í fólki sem trúir því að atvinnuleysisbætur séu helsta ástæða þess að fólk vinni ekki í Evrópu. M.ö.o. að það sé til fólk sem telur að það sé miklu betur sett að vera á bótum, heldur en vinna. Ég held að þetta sé þjóðsaga. Því ég hef búið í löndum með langvarandi atvinnuleysi og þar óskar fólk þess helst að hafa atvinnu. Það er nefnilega fátt raunalegra en að hanga yfir engu. Þjóðsagan um ánægða atvinnuleysingjan virðist því eiga sér litla stoð í raunveruleikanum. Hver ætli hafi séð sér hag af því að viðhalda þessari þjóðsögu?

Ummæli

Vinsælar færslur