Gott Silfur í dag
Í dag komst ég nógu snemma á fætur til þess að horfa á Silfur Egils. Ég er svo sem ekki alltaf sammála pistlunum hans Egils. Það fer líka stundum óstjórnlega í taugarnar á mér hvað Egil tekur mikinn þátt í umræðunum. Með afskaplega misjöfnum árangri að mínu mati. Stundum finnast mér líka þær umræður sem eru í gangi í þættinum alveg hræðilega leiðinlegar. En í dag voru tvö atriði sem vöktu áhuga minn. Annars vegar umræða um klámvæðinguna og hins vegar viðtal við Björn Bjarnason.
Í umræðum um klámvæðinguna hafði Egil fengið til sín tvær konur. Hefði svo sem viljað fá eins og einn karlmann með í umræðuna. En þær stóðu vel fyrir máli sínu. Merkilegasta röksemd þeirra fannst mér sú áhersla sem þær lögðu á markaðsetningu gagnvart börnum. Enda tel ég það góða og gilda röksemd. Það er nefnilega svo að börnin hafa einfaldlega ekki sömu tækifæri, þekkingu eða reynslu til þess að vega það og meta sem markaðsöflin vilja ýta að þeim. Skiptir þá í raun litlu máli um hvað við erum að tala. Þannig eru í gildi ýmsar takmarkanir á því hvernig vörur og þjónusta er kynnt fyrir börnum. Mér finnst það bara hreint ekkert í lagi þegar klámvæðing er farinn að ná til barna. Eða eins og þessar ágætu konur bentu á. Hvað er að gerast hjá þjóð sem velur Sollu stirðu sem sjöundu kynþokkafylstu konu landsins?
Ég var líka alveg sammála Birni Bjarnasyni þegar talið barst að fjölmenningarsamfélaginu. Í fjölmenningarsamfélaginu á ekki að felast að við víkjum okkur undan þeirri skildu að eiga rökræður. Ef einhver hópur kallar eftir breytingum á samfélaginu, þá ber okkur að ræða þær hugmyndir. Í umræðum felst að mismunandi skoðanir koma fram. Við sem viljum kenna okkur við skynsemi og upplýsingu verðum því að mótmæla þeim skoðunum sem koma frá aðilum sem vilja taka upp önnur gildi. Þannig virðast sumir fljótar til þess að gagnrýna stjórnvöld í Bandaríkjunum eða Evrópu. En minna heyrist af áhyggjum þeirra af stöðu kvenna í Sádí Arabíu. Eða líðan íbúa Norður Kóreu og Burma. En þetta hef ég svo sem oft tjáð mig um hér áður. Hættan að mínu mati er sú að ef árásir á lýðræðisríkin halda áfram, þá muni stuðningur við hernaðarhyggju og einangrunarstefnu aukast í þessum löndum. Best að vitna bara í Thomas Jefferson.
“We hold these truths to be self-evident, that all men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty and the pursuit of Happiness.”
Ég kaupi þessa skoðun. Úff hvað manni tekst að verða alvarlegur á sunnudögum. En kannski er ástæðan sú að mér finnast margir vilja meina að við getum haldið í lýðræðisleg gildi okkar án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því. Hér er ég ekkert að kalla eftir hernaðaríhlutun. Ég held t.d. að það sé vonlaust mál að ætla sér að innleiða lýðræði í gegnum vopnavald. Þess vegna sé hæpið að tilraun Bandaríkjamanna til þess í Írak eigi eftir að ganga upp. Miklu líklegra þykir mér að þar eigi eftir að koma til borgarastríðs. En við eigum ekki að víkja okkur undan því að ræða málin. Heldur halda uppi stöðugri gagnrýni á þá hópa sem vilja þrengja þetta frelsi okkar.
Ummæli