Hugleiðing um tónlist á Netinu

Loksins er komið að því að ég eignast nágranna aftur. Þeir sem höfðu búið hérna í húsinu með mér fluttu nefnilega út. Seldu íbúðina sína. Svo ég sat hérna einn. Sem mér fannst stundum ekkert sérlega skemmtilegt. Það er nefnilega eitthvað skrítið við það að búa einn í húsi þar sem maður er vanur að hafa nágranna.

Las um daginn í Morgunblaðinu grein eftir Árna Matt. Hann er fín tónlistarskríbent. Þó hann hafi reyndar sent það langt upp á bak þegar hann lýsti því yfir fyrir 10 árum að teknóið væri búið að vera. Þarna var Árni að tauta yfir iTunes, tonlist.is og svo að segja frá sinni uppáhalds tónlistarþjónustu. Ef ég vissi ekki betur þá myndi ég halda að a) iTunes væri yfirburða tónlistarþjónusta, b) tónlist.is væri vond þjónusta og c) best væri að tónlist á Netinu væri seld með einfaldri gjaldskrá.

Byrjum á tónlist.is. Ég er reyndar sammála Árna að áskriftarkerfi tónlist.is sé ekki nægilega þægilegt. En hins vegar er mér ekki kunnugt um að nokkurs staðar í heiminum hafi tekist að koma allri dægurtónlist heils lands út á Netið. Það finnst mér svo merkilegt afrek að ég treysti mér einfaldlega ekki til þess að vera með taut út í tónlist.is. Finnst reyndar að Árni ætti að skammast sín. Enda er þetta í fyrsta skipti sem tónlistaráhugafólk um allan heim hefur átt auðvelt aðgengi að íslenskri tónlist. Fyrir þetta á að hrósa.

Þá komum við að iTunes. Vinsældir iTunes tengjast með beinum hætti vinsældum iPod. En í dag er Apple með 90 prósent markaðshlutdeild í seldum MP3 spilurum. Þetta veldur því síðan að um 70 prósent af allri tónlist sem seld er á netinu er seld í gegnum iTunes. En þeir eru langt í frá eini aðilinn sem selur tónlist. Real Networks með Rhapsody og svo auðvitað Napster veita Apple harða samkeppni. Hver þessara aðila býður á bilinu 700 þúsund til 1,5 milljón laga í lagasafni sínu. Gríðarleg aukning hefur orðið í notkun á þessum þjónustum, en vegna alþjóðlegra höfundarréttarsamninga er næsta víst að það verði langt í að þessar þjónustur bjóðist hér á landi. STEF virðist nefnilega vera miklu frekar vera til í að lögsækja einhverja örfáa notendur, en semja við stóru aðilana um alvöru dreifikerfi hér á landi. Í það minnsta þegar hugsað er til aðgerða þeirra gegn DC++ þjónustum sem hér voru í gangi. Eða þannig lítur þetta út frá þessum bæjardyrum í það minnsta.

Komum þá að síðasta punktinum. Þetta með einfalda verðlagningu. Sem hljómar kannski ekki svo vitlaust. En skoðum það aðeins betur. Núverandi verðlagning gengur sem sagt út á að við kaupum öll lög fyrir sömu upphæð. En hvers vegna ættum við að gera það? Samkvæmt gömlu góðu hagfræðinni sem ég lærði einhvern tíma er beint samband milli verðlags og eftirspurnar. Ég skil þess vegna ekki afhverju allt ætti að kosta það sama. Ef við horfum t.d. á bækur þá koma þær yfirleit út í amk. 3 útgáfum. Fyrsta útgáfan sem er sú dýrasta er ætluð hörðum aðdáendum. Hún er yfirleit innbundin í leður og það eru eingöngu örfáir sem kaupa þá útgáfu. Í kjölfarið fylgir innbundin útgáfa sem er ætluð almenningi. Hún selst yfirleit mun betur. Best selst síðan kilju útgáfan. Sú ódýrasta. Hvers vegna skildum við ekki búa við sömu verðlagningu á tónlist? Fyrsta útgáfan sem ætluð er hörðustu aðdáendum viðkomandi listamanns er dýrust. Hún kemur út í fáum eintökum. Næsta útgáfa er síðan almenn útgáfa. Að lokum fáum við kilju útgáfuna. Síðan fáum við jafnvel enn ódýrari útgáfur ef salan gengur vel og hagnaður hefur náðst. Við gætum jafnvel hugsað okkur að mér sé boðið að kaupa verk listamanna sem ég þekki ekki. Eitthvað sem eg myndi væntanlega ekki gera nema með af því að verðið er lágt. Þannig gæti náðst að selja meira af verkum viðkomandi listamanns. Þetta gæti orðið býsna flókið allt saman. En er það ekki bara í fína lagi? Er það ekki betra að hafa verðlagninguna flókna, ef það þýðir að allir hagnast. Hljómlistarmenn, útgefendur og neytendur. Þannig býðst notendurm Napster t.d. að kaupa alla þá tónlist sem þeir vilja fyrir fasta upphæð. Sem þýðir að verðlagningin á hverju lagi er misjöfn. Ef ég hleð niður 100 lögum í þessum mánuði og 10 í þeim næsta, þá er hvert lag mun dýrara í seinni mánuðinum en þeim fyrri. En kannski erum við Árni á sömu línum.

Því á endanum kom hann fram með punkt sem ég er alveg sammála. Það á nefnilega að vera auðvelt að neyta tónlistarinnar. Helsta vandamálið við núverandi fyrirkomulag er nefnilega að þú getur ekki flutt tónlistina nægilega auðveldlega á milli allra þeirra tækja sem þú notar til þess að hlusta á hana. Þetta þekkja þeir vel sem eru áskrifendur að iTunes. En nóg um þetta.

Hér er nefnilega dæmi um gjörsamlega óborganlegan listamann. Hvað er annað en hægt að gleðjast yfir svona hlutum. Hvað segið þið líka um að fjölmenna á Art School Confidential? Ég hef trú á því að þetta sé meistarastykki. Svo er þetta auðvitað bara skemmtileg landkynning. Við höfum stundum stært okkur af því að hér sé fallegasta kvenfólk í heimi, en Skotar hafa tekið þetta skrefinu lengra. Vitandi það að þeir bjóða ekki upp á fallegar konur, þá hafa þeir einfaldlega ákveðið að kynna landið með hinu kyninu. Ég sé alveg fyrir mér hvað myndi gerast ef við myndum reyna að bjóða upp á íslenska útgáfu af þessu. Fyrir okkur fréttahundana er þetta bara ofurflott. What’s up – kíktu núna. Góða helgi.

Ummæli

Vinsælar færslur