Heit sumar í vændum?

Ég átti nokkuð merkilegar samræður í afmælisboðinu í London um helgina. Þar hitti ég ósköp venjulega Breta sem höfðu enga sérstaka ástæðu til þess að hafa mikla hugmynd um það sem er í gangi á Íslandi. En ólíkt því sem hefði kannski gerst fyrir nokkrum árum síðan, þá höfðu þessir Bretar bæði nokkuð góða mynd af landinu og líka skoðanir á því sem við erum að gera.

Það kom sem sagt í ljós að þessir Bretar eru í hópi umhverfisverndarsinna. Sem ég hefði hreint ekki giskað á. En það er greinilegt að umhverfismál eiga sér vaxandi hljómgrunn í Bretlandi. Þarf kannski ekki að koma þeim á óvart sem hafa fylgst með stjórnmálaumræðu í Bretlandi á undanförnum árum. Það sem kom mér hins vegar á óvart var hversu vel upplýstir þessir Bretar voru um umræðuna hér á landi.

Þeir voru vel vakandi fyrir því að hér færi nú fram mikil umræða um stíflubyggingar og álversframkvæmdir. Hér væru líka stundaðar hvalveiðar. Ekkert af þessu fannst þeim sérlega jákvætt. Ég komst líka að því að í sumar gætum við vel átt von á því að kastljósi umhverfisverndarsamtaka í Bretlandi verði beint að Íslandi. Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif þetta gæti haft á þær fjárfestingar sem íslensk fyrirtæki hafa lagt út í Bretlandi. Fyrirtæki sem oft eiga í harðri samkeppni við fyrirtæki sem telja sér það til tekna að eiga góð samskipti við umhverfisverndarsamtök. Spurning líka hvað þetta muni gera fyrir ímynd Íslands?

Hvað er annars að gerast með þök á byggingum í austur Evrópu? Fór eitthvað verulega úrskeiðis í kennslu í byggingarverkfræði eða arkitektúr fyrir nokkrum árum síðan? Hvernig stendur eiginlega á því að þök hrynja núna á nokkura mánaða fresti? Ekki erum við að nota sömu aðferðir hér heima?

Ummæli

Vinsælar færslur