Ferðasagan frá London (1. hluti)

Þetta verða nokkrar færslur – en þetta kemur allt. Þetta var skrifað 17. febrúar á meðan ég var ennþá í London.

London er stór borg. Sem þýðir að það tekur ár og eilífð að koma milli staða hérna. Reyndar er ekkert hægt að kvarta yfir samgöngunum. Hér eru endalausir strætisvagnar, neðanjarðarlestir og svo auðvitað frægustu leigubílar í heimi. Nema, ef vera skildu þessir gulu í New York. En borgin er bara seinfarin. Hún byggðist án skipulags. Stækkaði bara og smátt og smátt. Þannig er svæðið sem heitir City of London, ekki nema minnsti hlutinn. Ég gisti samkvæmt þessu alls ekki í London heldur í Knightsbridge.

Þessi aðferð við uppbyggingu borga þýðir hins vegar að þó svo að neðanjarðarlestarkortið láti London líta út fyrir að vera velskipulagða borg, þá er hún það alls ekki. Og af því að hér hefur um langan aldur ekki verið fjármagn í umfangsmiklar endurbætur á samgöngukerfinu, þá er það orðið fremur hægvirkt. Enda skilst mér að meðalhraðinn hér árið 2000 hafi verið svipaður og árið 1900. Ég bý samt á góðum stað. Rétt hjá eini af neðanjarðarlestarstöðvunum. En svo komst ég enn einu sinni að því að það er langt á milli staða í London. Hér hleypur maður tæplega af stað og býst við því að verða kominn á áfangastað nokkrum mínutum síðar eins og í Reykjavík.

Annars var ég í Soho meiri hluta dagsins í gær. Byrjaði á stuttum fundi. Enda hafði ég ekki ætlað mér að vera í London fyrr en í dag. Prófaði síðan að fara í jóga á nýjum stað. Hafði rekist á jóga vef um daginn og þar fundið grein um jóga í London. Svona í samræmi við þá ætlun mína að fara á jóganámskeið þá varð ég að prófa hvernig mér fyndist að vera í útlöndum. Held ég hafi bara verið heppinn, í það minnsta fannst mér Triyoga í Soho ferlega flottur staður. Ég var svo sem ekkert alveg viss um hverskonar tími þetta væri sem ég væri að fara í. Skildi heldur ekki þá sem voru að vinna í afgreiðslunni, en þeir vildu nú samt meina að þetta væru fínir tímar. Sýnist að þetta hafi verið Vinyasa flæði tímar. En sú sem stýrði hópnum var bara ferlega góður kennari.

Í kjölfarið á tímanum hafði ég mælt mér mót við vinkonu mína og við ætluðum að fá okkur eitthvað gott að borða. Af því að maður hleypur ekki á milli staða, þá ákvað ég að fara bara beint úr jóga og hitta hana bara í Beyond the Valley (sem er rétt hjá jógastöðinni). Þar áttum við eftir að sitja dágóða stund. Ég hefði sem sagt betur drifið mig upp á hótel og losað mig við jóga dótið. Því leigubílstjóri með nokkur þúsund punda farm af fatnaði virtist hafa týnst á leiðinni. Í það minnsta sátum við í 2 klukkutíma og biðum. Til allrar hamingju var maturinn á Little Italy í Soho frábær. Geri ráð fyrir að þeir séu margir sem hafa sest inn á ítalska kaffihúsið í Soho sem alltaf er opið og er með besta kaffi í London. Veitingastaðurinn er sem sagt í eigu sömu aðila og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Óhætt að mæla með heimsókn þangað. Húsvínið var gott. Berjaríkt rauðvín alveg í þeim stíl sem mér finnst góður og ættað frá hælnum á Ítalíu.

Það var komið að miðnætti þegar ég var kominn aftur heim á hótelið og ég er ekki frá því að ég sé með smá strengi í dag. Gott að finna að maður hefur verið að gera eitthvað í jóga í gær.

Ummæli

Vinsælar færslur