Ferðasaga frá London (3. hluti)

Ég var ekki í súper formi þegar ég vaknaði á laugardeginum. Hélt til að byrja með að það væri vegna langferðarinnar frá Guilford. Já, eða kannski bara koníakið sem var boðið upp á eftir matinn í gærkvöldi. Planið hafði verið að í þessari ferð ætlaði ég að vera duglegur að halda mér í formi. Hafði kynnt mér það vel að á hótelinu mínu væri líkamsræktaraðstaða og var harðákveðinn í því að prófa þá aðstöðu. En ég hafði líka ákveðið að prófa að taka með mér jógadýnuna sem ég fjárfesti í fyrir jólin. En ég var ekki að komast af stað á þeim dampi sem ég bjóst við. Náði hreinlega ekki alveg nógu góðu sambandi við jógaæfingarnar mínar. Hef sem sagt verið að fara eftir æfingakerfi sem heitir Ashtanga og hluti af því er að nota ákveðna öndun. En þennan morgunn var þetta alls ekki að virka. Ég var eitthvað hálf stíflaður og náði ekki almennilega taktinum í þessu.

Skellti mér samt í sturtu og hélt af stað í Hayward Gallery til þess að sjá Dan Flavin: A Retrospective sýninguna. Þetta er stór merkileg sýning. Byrjum samt á húsinu. Hayward Gallery er bygging sem var hönnuð á sjöunda áratugnum. Það er hluti af South Bank Centre sem þykir víst ekki nein sérstök bæjarprýði. Þetta er svona bygging í svipuðum stíl og CDG flugstöðin í París. Ekki beinlínis vondur arkitektúr. Myndi t.d. ekki segja um Menntaskólann í Hamrahlíð að hann sé illa hannaður. En mér finnst ber steinsteypa bara ekkert rosalega falleg. En mér finnst líka að þessi arkitektúr sé líka að vinna á. Þessi kaldi steynsteypustíll er nefnilega bara fínn í bland við annað. En það á sérstaklega vel við að halda sýningu á verkum Dan Flavin í þessu húsi. Dan þessi sérhæfði sig sem sagt í notkun á flúorljósum í list sinni. Svo innihaldið á sérlega við við umhverfið. Ég hreinlega tími ekki að eyðileggja sýninguna fyrir þér með því að segja of mikið frá henni. En ef þú verður í London á næstu vikum þá mæli ég eindregið með heimsókn í Hayward Gallery.

En sem ég rölti um sýninguna þá gerði ég mér grein fyrir því að ég hafði náð mér í kvef. Í það minnsta. Því ég var hreint ekki alveg eins hress og ég hafði verið undanfarna daga. Svo í stað þess að skella mér í Tate Modern, þá ákvað ég bara að ganga yfir Thames. Eitthvað sem ég hafði reyndar aldrei gert áður. Síðan skellti ég mér inn á Pret A Manger. Þangað hef ég getað sótt gott kaffi, gæða samlokur, sushi, salöt, ávaxtasalöt og núna í þessari ferð uppgötvaði ég vítamín ávaxtaþykkni. Sú alda heilsufæðis og drykkja sem er rétt að byrja hér heima, er greinilega búin að ná mun lengra í Bretlandi. Finnst eitthvað ferlega sniðugt við þessa hugmynd. Kannski ég ætti að opna svona stað á Laugaveginum?

En ég fór sem sagt bara upp á hótel aftur og hvíldi mig. Hafði nefnilega verið boðið í afmælismatarboð um kvöldið. Afmælisboðið var haldið í Brixton. Góðar veitingar, góður félagsskapur og þetta varð bara að skemmtilegasta afmælisboði. Skemmtilegt að hitta fólk með svona mismunandi bakgrunn. Eitthvað sem maður saknar stundum hérna heima. Sem stafar auðvitað af því að vinir mínir í útlöndum eru einfaldlega að gera aðra hluti en þeir sem ég þekki hér heima.

Sunnudagurinn var á rólegum nótum eftir afmælisboðið. Það hjálpaði til að kvefið hafði versnað, þrátt fyrir tilraunir mínar kvöldið áður til þess að koma því úr mér. Gæti svo sem alveg verið að þær hafi komið í veg fyrir meiri veikindi. Leiðinda veður og rigning gerði það svo að verkum að mig fór bara hreinlega að langa til að komast heim. Kvef og rigning er bara hreint ekki skemmtileg blanda. Verslunarferð þar sem maður er hálf dasaður af kvefi og blautur af rigningu var alveg hreint ekki málið. Ágætt að innkaupalistinn var ekki langur. Því ég hreifst hreinlega ekki af neinu sem ég sá. Hefði þurft að hafa félagsskap í verslunarleiðangurinn. Sannaði algjörlega kenninguna um karlmenn og innkaup. Við viljum helst bara kaupa og hlaupa. Ekki eyða of miklum tíma í að skoða. Ég var alveg í þeim gírnum á sunnudeginum. Á mánudeginum var síðan komið að því að halda heim. Löng helgi liðin. Alltaf gott að komast heim.

Ummæli

Vinsælar færslur