Ljúfa lífið í Brasilíu

Herbergisfélagi minn var kominn út á svalir klukkan 7 í morgunn. “Það er sól úti, komdu á fætur,” minnir mig að ég hafi heyrt. En snéri mér að sjálfsögðu á hina hliðina og hélt áfram að sofa. Var samt kominn út á svalir löngu fyrir hádegi. Byrjaði daginn á jóga. Það er frábært að gera jóga í svona miklum hita. Samt var ég stirður. Fannst þetta ferlega erfitt. Enda ekki nema von. 40 klukkutíma ferðalag er ekki til að gera mig sérlega liðugan. Eða í miklu stuði. En það er skemmtilegt að geta setið úti og skrifað þessar línur.

Það er eitt og annað sem kemur á óvart hérna í Brasilíu. Til dæmis stærðin á bjórglösunum. Þau eru öllu minni en ég er vanur. Það er víst vegna hita. Eða réttara sagt til að halda honum köldum. Hér er bjór líka setur í frysti til að halda honum köldum. Líklega þess vegna sem ein tegundin heitir Antartica. Annars hef ég haldið mig rauðvínið. Lærði nefnilega fyrir margt löngu á Spáni að það er fátt betra í hita, en sumarvín. Sem er rauðvín með sódavatni útí. En já, ég byrjaði á jóga og fékk svo morgunmat. Smakkaði í fyrsta skipti kastaníusafa. Sem er sem sagt safi búinn til úr ávextinum sem hnetan er í. Síðan var stefnan tekin út á strönd.

Eitthvað hafði verið haft á orði að ég myndi verða að rækju, humri eða eitthvað svona rautt. En að sjálfsögðu hafði ég vitið með í för. Hafði fjárfest í 50+ sólarvörn í síðustu ferð um London. Líka keypt mér flugnafælu, en er samt með of mörg bit. Flott strönd hérna. Ekkert óskemmtilegt útsýni heldur. En samt ekki þannig að hægt væri að synda. Það var viðvörunarfáni á ströndinni. Ég fann um leið og ég kom út í að það var þungur straumur þarna. Ekki skynsamlegt að fara of langt úti. Hvort sem það sólarvörnin eða að ég sat í skugga, þá slapp ég nokkurn veginn við rauðalitinn. Svo ég hætti mér líklega aðeins út á ströndina á morgunn. En þarna lágum við. Fengum stöðugar heimsóknir frá sölumönnum. Ég fjárfesti í sólgleraugum. Tókst auðvitað að skilja mín eftir í bílnum. En strandalífið í Brasilíu er ljúft. Strandabarir sem sáu mér fyrir öllum helstu nauðsynjum.

Upp úr hádegi þá yfirgáfum við ströndina. Skolaði af mér saltið. Síðan fórum við í hádegismat. Á stað sem mér þykir ótrúlegt að margir túristar heimsæki. En er margverðlaunaður staður hér í Salvador. Eigandinn á 27 börn með fjórum konum. Kom og faðmaði okkur þegar við gengum inn á staðinn. Paraiso Tropical býður upp á alvöru brasilískan mat. Fyrst fengum við frosin ávaxtasafa. Á matseðlinum var boðið upp á ávaxtasafa úr ávöxtum sem maður þekkir ekki nema rétt af afspurn. Eða hafði jafnvel ekki heyrt um áður. Fékk með frosin Guavasafa. Í aðalrétt fylgdi pottréttur sem innihélt bæði humar og rækjur í sósu sem ég þekki ekki frekari deili á, en var með blómi fljótandi ofan á. Ofboðslega gott og líka það sem fylgdi með. Í eftirrétt fengum við úrval ávaxta. Loksins fékk ég aftur alvöru mango. Fullt af öðrum ávöxtum. Allt jafn gott. Þetta er draumaland fyrir þá sem vilja lifa á ávöxtum. Þetta var frábær máltíð og fengum líka smá ökuferð um Salvador.


Þeir sem tala um hættur í Brasilíu eru eflaust að tala um sum af þeim hverfum sem við keyrðum framhjá. Hér búa fátæklingar við erfið kjör. Því þó landið sé fallegt. Þá býr sumt fólk hér við mikla fátækt. Hægt að þekkja hverfin þeirra á því að það eru engar rúður í gluggum. Bara göt. Sum af þessum hverfum hérna eru víst þannig að þar er stór hættulegt að vera á ferli. Ekki bara á nóttunni. Heldur bara yfirleit. Skrítið hvernig þetta er í þessum löndum sem virðast annars hafa allt til alls. En ég fæ samt ekkert samviskubit yfir því að hafa það gott hérna. Ætla að láta mér líða vel í fríinu.

Ummæli

Vinsælar færslur