Lifandi skotmark

Ef einhver öfundar mig af því að vera í Brasilíu. Þá hef ég smá góðar fréttir. Því í dag er ég orðin að lifandi skotmarki. Hér lifa nefnilega moskítóflugur og önnur stungu kvikyndi góðu lífi. Ég er því farinn að minna meira og meira á hlaupbólusjúkling. Eins og venjulega þá fæ ég bit á skemmtilegum stöðum. Ég var bitin í litlu tánna. Akkúrat þar sem sandalinn nuddast við. Einstaklega skemmtilegt. Auk þess sem ég fékk bit á iljarnar. Líka mjög notalegt. Auk þess er ég með tugi bita víðsvegar um líkamann. Það hlýtur að vera eitthvað við mig sem gerir mig að svona fýsilegum málsverði. Öllu þessu fylgir töluverður kláði.

Á síðustu öld þegar ég var í námi í Bandaríkjunum þá hafði ég lent í svipuðu. Reyndar var það mun víðtækara bit. Ég hafði bókstaflega verið kvöldverður hjá hersveitum af bitflugu. Gat raunar sjálfum mér um kennt. En látum það liggja milli hluta. Í Bandaríkjunum er hægt að sækja í lyfjaverslanir lækningu án ávísunnar við flestu sem hrjáir mann. Í þetta skipti var í heimsókn ungur maður (sem í dag er með ástælustu leikurum landsins) og hann fór í lyfjaverslun til að leita sér lækninga við stungusárunum. Kom til baka með smyrsl. Sem var athyglisvert fyrir þær sakir að á það var settur stútur sem var með nokkrum holum á. Þetta þótti okkur athyglisvert. Sniðugt að hafa svona til að bera á sig, þegar maður var að bera á stórt svæði. Því við vorum virkilega illa stungnir og raunar hef ég aldrei bólgnað jafn mikið. Hvorki fyrr né síðar. Að nokkrum dögum liðnum komust við síðan að því. Að stungusmyrslið okkar góða. Var við gyllinæð. Það skýrði holurnar á stútnum.

Raunar er til fínt staðdeyfandi og bólgueyðandi lyf í Bandaríkjunum við stungusárum sem fæst í úðabrúsa. Það alveg virkar. Hér í Brasilíu fæst ekkert slíkt. Bara eitthvað sem dregur úr ofnæmisáhrifum. Þess vegna kom sér vel að muna eftir reynslunni frá Bandaríkjunum. Því í dag þegar við fórum inn í miðbæ til að ég gæti keypt mér stuttbuxur. Þá var að sjálfsögðu komið við í lyfjaverslun. Fest kaup á gyllinæðarsmyrsli. Sem afgreiðslufólkinu fannst athyglisvert. Sérstaklega þegar það áttaði sig á því til hvers það var ætlað. En á móti kemur. Að mig klæjar ekki jafn rosalega í iljarnar.

Ummæli

Valtyr sagði…
En gyllinæðin?
Simmi sagði…
Mesta furða hvað hitinn hefur gert fyrir hana:-)

Vinsælar færslur