Nýja þemavikan

Sambloggari minn og stundum göngufélagi hún Beta skrifaði skemmtilegt innslag á bloggið sitt um síðustu helgi. Varð þar rætt um áhuga sinn á vísinda og ævintýrasögum. Sem hefðu leitt hana í lestur barnabóka. Við eigum þennan áhuga sameiginlegan. Þennan á vísinda og ævintýrasögunum. Veit ekki hvort það er af því að við viljum ekki fullorðnast. Eða höldum í einlæga trú okkar á ævintýrin. En mér finnst fátt skemmtilegra en að sökkva mér ofan í vel skrifaða ævintýrasögu. Hvort sem hún er hreinræktuð ævintýrasaga eða vísindaskáldskapur. Á mér nokkra uppáhalds höfunda á þessu sviði. Reglulega bætast nýjir í hópinn. Svo þó ég viðurkenni að hafa lesið mig í gegnum allar Potter sögurnar. Þá hef ég ekki ennþá fundið þörf til þess að halda í barnabókmenntirnar. Þó kannski megi deila um hvort sumar af þessum sögum sé skrifaðar fyrir fullorðna.

En ein af skemmtilegri uppgötvunum mínum voru tengslin milli ævintýranna og hryllingsbókmenntanna. Það er nefnilega ekki langur vegur á milli þessara tveggja bókmenntahefða. Raunar mörg hina klassísku barnaævintýra blóðug og fremur hræðileg. Enda skilst mér að því sé haldið fram að þarna séu á ferðinni sögur sem er ætlað að kenna börnum um vonsku heimsins. Svo þau geti varað sig á fullorðinsárunum. Þannig hefur til að mynda hryllingssögu höfundurinn Clive Barker skrifað ný ævintýri. Sumar af bókum hans alveg á mörkum þess að teljast ævintýrabókmenntir þó þær séu flokkaðar sem hryllingsbókmenntir.

Það hefur líka glatt mig að sjá þessari tegund sagna gert hærra undir höfði. Ekki mörg ár síðan ég hafði það á tilfinningunni að það væri hálf skrítið að hafa gaman af þessari tegund bókmennta. En áður nefndur Potter sagnabálkur hefur breytt þessu viðhorfi. Vinsældir Lord Of The Rings kvikmyndana líka sýnt að sá hópur sem nýtur þessara sagna er nægilega stór til þess að hann skipti máli. Ekki að það skipti mig samt öllu máli að þessi almenna viðurkenning sé að ná fram. Það sem skiptir mig miklu meira máli er að áfram er haldið að skrifa góðar bækur. Því stundum. Eiginlega of oft. Eru þetta ekki sérlega merkilegar bókmenntir. Svo tilkoma Amazon hefur hjálpað mikið. Þar má lesa dóma lesenda. Átta sig á því hvort eitthvað er varið í viðkomandi höfund. Jafnvel kíkja í bækurnar og lesa úr þeim nokkrar línur. Sem segir oft mikið. Það má nefnilega fljótt átta sig hvort um er að ræða klisju. Eða eitthvað nýtt og spennandi, með því einu að lesa nokkrar línur. Fyrr á árinu þá nefndi ég nokkrar af mínum uppáhalds kvikmyndum. Svo nú blæs ég til nýrrar þemaviku (eða meira jafnvel) og nefni til sögunnar nokkrar af mínum uppáhaldsbókum.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
barátta góðs og ills er þungamiðja í öllum ævintýrum og fleiri tegundum bókmennta, t.d. biblíunnar. semsagt, klassík.

mér finnst skipta gríðarlegu máli að vandað sé til illmenna í bókmenntum, þau gædd dýpt. enda starði ég hugfangin á Grýlumyndina í Vísnabókinni, gat ekki slitið mig frá henni.

fer samt aldrei á hryllingsmyndir, finnst svo vont að láta bregða mér.

Vinsælar færslur