Þreyttur af göngu

Þvílík helgi. Ég verð að viðurkenna að þetta varð erfiðara en ég átti von á. Það hjálpaði heldur ekki að ég var duglegur alla vikuna. Við að hreyfa mig. Kannski ég hafi verið eitthvað aðeins of bjartsýn á formið þessa vikuna. Get samt sagt frá því með stolti að ég hafi núna hreyft mig á hverjum degi í heila viku. Það er í fyrsta skipti. En þreyttur er ég. Ég get líka sagt að í dag er mun ólíklegra að mér takist að villast.

Við lögðum sem sagt í hann á föstudaginn kl 8. Þá var ég búinn að eyða deginum í vinnu og tók meira að segja snúning í Hress. Veðrið var yndislegt. Sól og svona eins fallegt haustveður og hægt er hugsa sér. Ég átti því ekki von á öðru en hópurinn sem ætlaði sér að læra rötun myndi allur mæta. Ekki gæti veðrið haldið fólki heima. Spáin benti ekki til annars en blíðu. Aldrei þessu vant rætist líka þessi veðurspá. Kannski að þeim gangi betur að segja til um veðrið í Borgarfirðinum en Hornströndum. Eða bara verið hundaheppnir. Ég varð hins vegar undrandi á mætingu í ferðina.

Raunar grunar mig að þar gæti hafa valdið sú staðreynd að til þess að geta tekið þátt í ferðinni. Þá þurfti fólk að fjárfesta. Hafandi keypt útivistarbúnað hér heima og erlendis. Þá get ég vitnað um að hann er dýr. Óhemju dýr hér á Íslandi. Við þurftum fyrir þessa ferð að fjárfesta í áttavita (4.990) og 2 kortum (1.600) og plöstun á kortin (1.600). Þetta gæti ég alveg séð fyrir mér að hefði reynst einhverjum heldur dýr biti. En raunar hefðu flestir átt að sjá þetta fyrir. Svo hópurinn var heldur minni en við var að búast. Eins og oft áður þá var ég aldursforseti. Heldur betur held ég meira að segja. Sem truflar mig svo sem lítið. Ekki ennþá í það minnsta.

En okkur var sem sagt smalað upp í rútu og ekið með okkur á föstudagskvöldið sem leið lá upp að Húsafelli. Ekki í Húsafell. Heldur að félagsheimi sem heitir Brúarás. Þar tókum við nafnaleikinn (don’t ask) og svo var bara stungið sér ofan í poka. Sem ég var ekki alveg sáttur við. Var alveg í stuði. En í lok helgar er ég hins vegar voða feginn. Svo vorum við ræst með pottaslætti um 8. Verandi vitlaust í kortaaflestri og áttavitanotkun. Þá hafði ég gert ákveðin mistök.

Málið er sem sagt að því þéttar sem maður strikar kortið sitt. Því auðveldar er að rata. Raunar er enn betra að vera með mjög nákvæmt kort. Þessi sem við vorum að vinna með eru að grunni til frá fjórða áratug síðustu aldar. Svo þó landið hafi kannski ekki mikið breyst. Þá hefði ég alveg verið til í að vera með eitthvað aðeins nýrra í höndunum. Hitt var verra að ég hafði ekki haft vit á því að strika kortið af meiri nákvæmni. Það þýddi að þegar við vorum send út af örkinni í hópum. Þá gekk mér bölvanlega að finna út hvar hnitin sem okkur voru gefin upp voru eiginlega. Lærði hins vegar að staðsetja mig ágætlega. Raunar vorum við svo vitlausir að við gengum framhjá fyrsta punkti. Ekki vegna þess að við værum blindir. Heldur vegna þess að þar hafði annar hópur komið sér fyrir. Við töldum að þeir væru á réttum stað. Þeirra hnit voru önnur en okkar. Þeir veifuðu okkur áfram. Sem okkur fannst í fína lagi. Svo eyddum við 4 tímum í að leita. Að veifunni sem við höfðum þá þegar fundið. Annars hefði það tekið okkur rúmlega 20 mínútur.

Svo eftir að hafa gert þessi grundvallar mistök. Þá lærðum við að treysta á ekkert annað en okkur sjálfa. Leiðbeiningar frá öðrum hópum voru tekin með fullt af salti. Reyndar var þetta ekki eina ævintýrið.

Því fjarskiptabúnaðurinn sem okkur hafði verið afhentur. Hann virkaði bara hreint ekki. GSM símarnir virkuðu hins vegar fínt. Það mætti því segja að við hefðum verið betur sett með þá sem fjarskiptatæki, en þessar talstöðvar. Þar sem okkur var ætlað að tilkynna um fundinn. Sem tókst bara hreint ekki. Þá þurftum við að rölta og finna annan hóp. Reyndar var ég á því að fara aftur í félagsheimilið. Var í kjölfarið kallaður herra svartsýn í smá tíma. En vann mér inn punkta með því að leysa þrautirnar. Með töfrabrögðum og visku. Svo það er stundum ágætt að vera sá elsti.

En mikið rosalega finnst mér leiðinlegt og erfitt að rölta í mýrum og innan um þúfur. Sem hálfur dagurinn fór í. Þetta varð eiginlega bara hörkupúl. Svo ég var rosalega feginn að það var frábært veður. Þó mér tækist reyndar að verða kalt undir lokin. En heim í hús skriðum við rétt um 8 leitið. Þá búnir að vera á rölti í 11 klukkutíma. Sem er persónulegt met. Við tók eldamennska. Ég var ekki til í pulsur og baunir. Sem mér skilst að sé staðalinn í svona ferðum. Svo hjá mér var það pasta carbonara. Sem var æðislega gott. Vantaði bara gott rauðvín með til að fullkomna þetta. Raunar röflaði ég um kaldan bjór hálfan daginn. Veit ekki hvað ungviðið hefur haldið. En mikið rosalega rotaðist ég snögglega eftir matinn.

Daginn eftir vorum við aftur ræst kl 8. Nú var ég heldur betur orðinn stirður. Strengirnir eftir föstudaginn farnir að segja til sín. Þreyttur eftir laugardaginn. Bólginn í andlitinu eins og ég hefði verið á rölti úti í 11 klukkutíma daginn áður. Kaffi og skyr kom mér í gang og hópurinn var allur kominn upp á fjall á hádegi. Enda það kennt við hádegi. Löðrandi af svita. Við röltum af fjalli í glampandi sól. Fundum vað á fossi á leiðinni niður. Ævintýrinu lauk um 2 þegar við komum okkur fyrir í rútunni á leiðinni í bæinn. Þetta var erfið en ánægjuleg ferð. Hvort mér tekst að halda þetta út. Það á eftir að koma í ljós. Ef þetta var létt byrjun. Þá er ég í slæmum málum. En ég kann þó á áttavita og kort. Svo ég týnist í það minnsta síður.

Ummæli

Valtyr sagði…
Þú ert greinilega að komast í hörku form, vona að maður geti haldið í við þig þegar maður fer með þér í göngu næsta sumar.
Simmi sagði…
Úff, miðað við hlaupin á þér drengur held ég nú að það verði pottþétt í hina áttina:-)

Vinsælar færslur