Bílavalkvíði

Ég er eiginlega aftur kominn á byrjunarreit í leit minni að nýju ökutæki. Um daginn var ég búinn að komast að því að mér litist best á Honda Civic eða Peugeot 307. Ég fór meira að segja í reynsluakstur á Hondu. Leist vel á bílinn. Sem reyndar var sjálfskiptur. Ég ekki alveg tilbúinn í svona reynsluakstur. En þetta var góð upplifun. Það sem tók við í kjölfarið var ekki eins skemmtilegt.

Ég lít nefnilega svo á að ef ég er að kaupa mér nýjan bíl. Sem er nokkuð myndarleg fjárfesting. Þá eigi ég að geta ráðið einhverju um það hvernig bílinn er. Í það minnsta eigi ég að geta ráðið því hvernig bílinn er á litinn. Þarna fékk ég það hins vegar á tilfinninguna að ég væri hálf skrítinn að vilja ráða einhverju um það hvernig bílinn minn væri á litinn. Það væru sem sagt til bílar með ákveðnum litum. Eða þegar ég segi að það séu til bílar, þá á ég við að þeir verða til á árinu. 2006. Ef ég vil ráða hvernig litur er á bílnum. Þá erum við að tala um 2007. Þetta sló mig eiginlega úr öllu kaupa stuði.

En af því að á sama stað er seldur Peugeot 307 þá vildi ég allt eins láta selja mér einn svoleiðis. Þar var reyndar liturinn sem ég vildi til. En mér var ekki boðinn reynslu akstur. Það var eiginlega eins og sölumaðurinn væri ekkert rosalega spenntur fyrir því að selja mér bíl. Kannski af því að ég þóttist hafa nægan tíma. Eða kannski af því að hann skynjaði að fréttirnar af Honda Civic bílnum hefðu komið mér úr kaupa stuði. Hver svo sem ástæðan var. Þá fór ég efins út frá bílasölunni.

Svona atriði breyta mér í Herra Óákveðinn. Ég ákvað líka að skoða markaðinn aðeins betur. Það væri kannski ekki svo vitlaus hugmynd. Ég gæti líka varla verið þekktur fyrir annað en að nota vefinn til þess að finna mér bíl. Í kjölfarið fann ég WhatCar.com. Sem er reyndar breskur bílavefur. Sem táknar að bílarnir eru ekki alveg eins og hér heima. Stýrið er til dæmis hægra megin í bílnum. Þar kom í ljós að Honda og Peugeot 307 eru ekki alveg í mesta uppáhaldi. Fengu ekki nema 3 stjörnur af 5 mögulegum. Versnaði jafnvel enn frekar þegar ég fór að skoða umsögn eigenda. Svo ég varð alveg afhuga kaupum á þessum bílum.

Svo nú er ég kominn með nýjan lista. Sem er byggður á þeim bílum sem WhatCar.com mælir með í þeim flokki sem ég er að skoða. En þeir eru Skoda Octavia, Volkswagen Golf og Ford Focus. Auk þess sem mér fannst umfjöllun um Citroen C4 líka það áhugaverð að ég ætla að prófa hann líka. Á þessum lista er auðvitað líka Toyota Corolla. Því þetta snýst að hluta til um að skipta um bíl. Ég spjallaði aðeins við Golf sölumann í síðustu viku. Á eftir að fá reynslu akstur. En þar þarf ég greinilega ekki að bíða í marga mánuði eftir því að fá bílinn í þeim lit sem mér líst best á.

Auk þess þarf ég að taka afstöðu til dísel eða bensínvélar og svo þess hvort ég vilji eiga eða leigja bílinn. Hvað haldið þið um krónuna. Á hún eftir að falla eða standa? Ef hún fellur þá er kannski ekki svo vitlaust að kaupa núna. Eða hafið þið einhverja skoðun á þessum bílahugleiðingum mínum?

Ummæli

Vinsælar færslur