Í mjúku myrkrinu

Ég stóð í myrkvuðum miðbænum í gærkvöldi. Ásamt vinafólki við tjörnina. Þarna rétt fyrir framan Iðnó. Það var reyndar ekkert óskaplega mikið myrkur. Því þótt götuljósin hefðu verið slökkt, þá voru byggingar margar upplýstar. Þess utan þá var skýjað. En reyndar notalegt veður. Tveggja stafa tala á hitamælinum. Svo það kom mér ekkert endilega á óvart að það var bara fullt af fólki í bænum. Þetta er líka svolítið skemmtileg hugmynd. Þó mér hefði raunar fundist að Orkuveitan hefði bara átt að slá út stóra rofann. Þá fyrst hefði orðið fjör. En líklega ekki öllum fundist það jafn skemmtilegt. Ég er hins vegar á því að við eigum að gera þetta að árvissum viðburði. Gott að vera svolítið skrítin.

Ég hef líka nokkra samkennd með mótmælum þeim sem fara fram gegn virkjunum fyrir austan. Finnst verksmiðjuhverfið í Hvalfirði afskaplega ljótt. Held við þurfum ekki meira af svoleiðis. Finnst líka dapurlegt að verið sé að ganga of nærri náttúru sem hægt væri að nýta með öðrum hætti en að sökkva henni. En bygones er bygones. Í þessu sem öðru. Búið að byggja stíflu. Semja um álver. Done deal. Svo því miður getum við lítið gert í því. En ég tek samt ofan fyrir mótmælendum. Þótt þessi mótmæli hafi kannski ekki orðið til þess að stöðva framkvæmdir við núverandi stíflu. Þá er ljóst að það er í lagi að vera náttúruverndarsinni á Íslandi. Það er fjölda hreyfing. Ekki síður sterk en aðrar sambærilegar hreyfingar.

Fyrir mig sem hefur kynnst því að búa erlendis. Í meira þéttbýli en hér er. Í löndum sem eiga sér mun lengri sögu iðnvæðingar en við hér. Þar sem mengun hefur jafnvel náð því stigi að það kviknuðu eldar í vötnum og flytja þurfti íbúa í burtu vegna gríðarlegrar jarðvegsmengunar. Þá skil ég nefnilega hversu sterkt þetta getur virkað á fólk. Sömuleiðis vegna þess að ég hef óskaplega gaman af því að ganga um þetta land mitt. Þá vil ég allra síst að það verði fyllt af háspennulínum, malbikuðum þjóðvegum og þungaiðnaði. En ég skil líka fólkið sem býr út um landið að það vil góða vegi, góða þjónustu og skemmtileg störf. Það er nefnilega þetta síðasta sem ég er ekki sannfærður um að þungaiðnaður flokkist undir. En ég hef svo sem aldrei unnið við slíkt. Kannski er þetta rosa stuð.

Ummæli

Vinsælar færslur