Það haustar

Það er komið haust hérna hjá mér í Hansabænum. Regndroparnir hafa fyllt rúðuna mína. Það er einhver hrollur í veðrinu. Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um að það sé að koma nýtt haust. Nýr vetur. Ég verð ofurlítið dapur yfir því að sumarið sé liðið. Sumarið á eitthvað svo vel við mig. Þá hef ég næg tækifæri til þess að stunda gönguferðir. Nýt þess að finna hita í loftinu. Þegar kólnar þá minnka þessi tækifæri. Liturinn hverfur úr umhverfinu. Raunar er haustið fullt af fallegum litum. Oft líka skemmtilegt að njóta þess að ganga í svölu loftinu. En dagsbirtan er ekki lengur til staðar fram eftir kvöldi. Svo tækifærunum fækkar.

Núna um helgina ætlaði ég einmitt að nýta tækifærið til þess að fara í haustgöngu. En og aftur lá leiðin út úr bænum. Í sumarbústað þar sem ég var boðin í afmælishóf. Afmælisbarnið hefur gaman af göngum og ég tók því það helsta með. Allt nema auðvitað regnfatnað. Sem var aðeins of mikil bjartsýni. Því það var hálf blautt. Svo greinilega haust í loftinu. Svo það varð minna úr göngum en efni stóðu til. Þess í stað naut ég bara samvista með skemmtilegu fólki. Þarna var reyndar flottasti heiti pottur sem ég hef komið ofan í. Með fullt af skemmtilegum stillingum. Svona strákagræja með tökkum og mælum. Við áttum reyndar í smá brasi með að fá þetta til að virka alveg eins og við vildum. En allt gekk þetta nú samt á endanum.

Þarna fór ég sem sagt á laugardaginn. Eftir viðburðaríka viku. Væntanleg ekki farið framhjá neinum. En ég hef samt ekki minnst á nokkra aðra viðburði. Ég hef til dæmis ákveðið að prófa að fara í byrjendaþjálfun hjá eini af björgunarsveitum landsins. Var bent á þessi námskeið af góðvini mínum sem hefur einmitt starfað í þessum félagsskap í mörg ár. Þetta væri stórsniðugt fyrir fólk eins og mig sem hefði áhuga á útivist. Hefði jafnvel verið að prófa einhverjar göngur. Svo eftir að hafa gjörsamlega misst af þessu í fyrra, þá var ég ákveðin í því að láta þetta ekki framhjá mér fara í ár. Þetta er greinilega töluverð vinna. Það eru bæði bóklegir þættir og svo verkleg þjálfun. Svo ég sé fram á að hafa mun meira að gera á komandi vetrarkvöldum en ég hafði upprunalega gert ráð fyrir. Sama gildir um helgarnar sem einhverjar munu verða lagðar í þjálfun. Sem greinilega ætti að gera mér fært að standast hvaða gönguferðir sem er. Mér finnst þetta afskaplega spennandi. Þó ég sé reyndar dálítið kvíðinn á sama tíma. Sumt í þessu mun án efa reyna verulega á mig. En það er auðvitað bara áskorun.

Önnur áskorun er nýbyrjað átaksnámskeið í líkamsræktinni minni. Ég hafði verið áður í þessum námskeiðum. En svo fannst mér ég ekki fá nóg út úr þeim. Fannst eins og ég þyrfti kannski eitthvað örlítið meira púl. En vegna breytinga hjá stöðinni þar sem ég æfi, þá get ég ekki lengur notið einkaþjálfarans míns. Svo í staðinn þá er ég kominn á framhaldsátaksnámskeið. Sem reyndar er stjórnað af þessum sama þjálfara. Þetta námskeið finnst mér henta mér vel. Finn vel fyrir því að ég er að taka á. Endorfínið streymir um mig í lok tímans. Reyndar þjáist ég síðan í kjölfarið, en það er svo sem ekkert nýtt. Allt er þetta hins vegar breyting frá því sem áður var. Því fyrir nokkrum árum hefði mér fundist það ótrúlegt að ég ætti eftir að stunda bæði þjálfun í björgunarsveit og líkamsrækt. Ég er hins vegar afskaplega glaður yfir því að hafa fundið mig í þessu. Ég finn hversu gott þetta gerir mér. Skil eiginlega ekki af hverju ég var ekki byrjaður á þessu fyrir margt löngu.

Það er nefnilega undarleg tilviljun sem kom mér af stað. Fyrir nokkrum árum lenti ég nefnilega í árekstri. Sem var alls ekkert skemmtilegt. En í kjölfarið fékk ég verki. Sem ágerðust. Svo ég leitaði til sjúkraþjálfara. Sem tjáði mér að ég ætti um tvennt að velja. Annað hvort að hreyfa mig reglulega. Eða búa við stöðuga verki. Svo þó atburðurinn sem kom mér á þessa braut hafi ekki verið sérlega jákvæður. Þá hafa afleiðingarnar, í það minnsta hvað þetta varðar, verið það. Sem hefur kennt mér að neikvæðir hlutir þurfa ekki að hafa neikvæðar afleiðingar. Miklu frekar hitt að hvernig við vinnum úr þessum neikvæðu hlutum stjórnar því. Svo þó ég sé dapur yfir því að sumarið sé á enda. Þá sé ég fram á skemmtilega tíma. Þar sem ég mun takast á við ný verkefni. Vinna nýja sigra. Eða í það minnsta komast betur að takmörkunum mínum. Hvernig leggst annars haustið í ykkur?

Ummæli

Nafnlaus sagði…
flott plön hjá þér! líst vel á haustið annars, held að lífið eigi bara eftir að batna:)
Blinda sagði…
Er ekki allt á uppleið bara?
Simmi sagði…
Þetta hefur amk. byrjað þannig að ég er bara bjartsýn - en ég er samt alltaf pínu dapur yfir því að sumrinu sé lokið.

Vinsælar færslur