Ég man

Ég man hvar ég var á þessum degi fyrir 5 árum. Þetta hafði allt saman byrjað sem ósköp venjulegur vinnudagur. Ekkert sem sagði mér að hann ætti eftir að verða svona minnisstæður. Eða varpa svo löngum skugga. Það var ekki fyrr en vinnufélagi minn kom askvaðandi eftir ganginum og sagði mér að það hefði farið flugvél á tvíburaturninn í New York.

Fyrir mig og mitt starf voru þetta auðvitað stórfréttir. Á þessum tímapunkti töldu menn að þetta væri slys. Það var ekki fyrr en seinni vélin flaug á turninn að við áttuðum okkur á því að þetta var eitthvað annað og meira. Síðan fylgdi Pentagon árásinn í kjölfarið. Fréttir af vélinni þar sem farþegarnir snérust til varnar. Sem voru reyndar mjög óljósar. Allt flug lamaðist í Bandaríkjunum. Flugvélar þurftu að lenda í Kanada. Farþegar voru stöðvaðir hér. Fylgdist líka með því hvernig fréttir af þessu fóru um Netið. Sem varð fyrir árás, því einn af helstu hnútpunktum í fjarskiptaneti Bandaríkjanna var einmitt undir og ofan á turnunum. Það er samt merkilegt að það voru farsímar og netsamskipti sem héldust. Margt annað sem lamaðist. En þetta var óhugnanlegur dagur. Allt í einu breyttist heimurinn. Sagan tók nýja stefnu. Svona eins og þegar erfðaprins var drepinn á Balkanskaganum. Við erum í stríði. Eða svo er okkur sagt.

Hryðjuverk eru vopn þess veika. Hryðjuverk eru líka vopn þess sem býr við kúgun. Það er ekkert fallegt að taka grunnskóla herskildi. En það fær athygli. Það er ekkert hernaðarlega mikilvægt við það að sprengja upp skemmtistað. En það fær athygli. Það virtist ekki verða neinum að fjörtjóni að senda út miltisbrand í umslögum. En það fær athygli. Þess vegna er ég sannfærður um að þetta stríð, eins og það er rekið í dag, sé algjörlega vonlaust. Svona eins að berjast við Hýdru með því að höggva af henni höfuðið. Það dugar ekki til eitt og sér. En í dag skulum við muna.

Ummæli

Vinsælar færslur