Ég fór víða

Ég verð að komast aftur til Tokyo. Það er ekki flóknara en það. En hafir þú velt því fyrir þér af hverju ég hef lítið uppfært hérna. Þá er það vegna þess að ég hef haft takmarkaðan tíma og getu undanfarið. Ævintýrið byrjaði á föstudaginn.

Ég vissi að ég var á leiðinni út úr bænum. Í árlega sumarbústaðaferð. Það var nóg að gera í vinnunni. Svo stressið hlóðst upp eftir því sem leið á daginn. Hafði ætlað mér að enda snemma. Komast í smá hreyfingu. Ná úr mér vinnustressinu áður en ég færi í sveitina. Það tókst ekki betur en svo að ég var á þönum. Í stað þess að komast úr vinnu upp úr hádegi. Þá vann ég næstum fullan vinnudag. Leið eins og ég væri að svíkjast undan. Skrítið hvað ég get fengið ofboðslegt samviskubit yfir því að skila vinnunni minni vel. Líður ekkert vel með að hafa kastað til höndunum. Til allrar hamingju hafði ég undirbúið sumarbústaðaferðina vel. Gert innkaup á fimmtudagskvöldið. En í flýtinum við að yfirgefa heimilið. Þá tókst ekki betur til en svo að ég skildi ískápinn eftir opinn. Það var því ýmsu hent þegar ég kom heim á sunnudaginn.

En svakalega var þetta fín sumarbústaðarferð. Sumarið kom. Undarlegt að upplifa það að sitja í 16 stiga hita klukkan 9 um kvöldið þann 1. september. Lambalærið var grillað. Rauðvínið drukkið. Bjórinn kældur. Potturinn fylltur af heitu vatni. En allt þetta bjó mig ekki undir það að sitja í stjörnubjartri nóttinni og horfa á norðurljósin. Það var magnað að upplifa þau í byrjun september. Daginn eftir var það sólin og hitinn sem kom mér á óvart. Ég bráðnaði á pallinum. Horfði á hitamælinn komast upp í 30 gráður. Hann átti eftir að komast upp í 40 gráður daginn eftir. Var reyndar latari en ég hafði ætlað mér. Hitinn hefur þessi áhrif. Eða gerði það í það minnsta um helgina. Frábær helgi. Sem hefði verið mér nóg efni langa sögu. Ef ekki hefði komið til vinnuferðin til Tokyo.

Þetta var óvenjuleg ferð. Flaug til Tokyo. Stoppaði þar í 25 klukkutíma. Flaug heim aftur. Stefnan sett á að sjá sem allra mest af Tokyo. Á þessum stutta tíma. Naut leiðsagnar og ráðlegginga frá vinnufélögunum. Sem sumir höfðu komið á þessar slóðir. Fékk líka góð ráð frá vinafólki sem er frá Tokyo. Þetta var í fyrsta skipti sem ég kem í þennan heimshluta. Hefur samt lengi langað til þess að heimsækja Japan. Fannst staðurinn magnaður. Risaborg. Magnað að koma fljúgandi inn að næturlagi. Sjá bara ljósin frá öllum háhýsunum. Finna hitann sem komst upp í 33 gráður með tilheyrandi raka.

Þetta var samt eitthvað svo óraunverulegt. Því Tokyo er svo mikil blanda af vestrænum og austrænum áhrifum. Ég tók eftir öllum sem ekki voru frá Japan. Við hljótum að hafa sést langt að. Fór ekkert á milli mála innan þarna. Mér fannst samt skemmtilegt að vera svona svolítið ósjálfbjarga. Var einmitt að lesa ferðasöguna hans Bill Bryson um Evrópuferðina hans. Hvað það væri skemmtilegt að skilja ekkert í málinu. Þarna gafst mér gott tækifæri til þess að prófa. Það gekk bara vel. Tokyo kom mér á óvart varðandi það hversu þægileg hún er. Lestarkerfið virkar. Raunar virðist Tokyo öll virka. Það er allt hreint. Vel skipulagt. Fólkið þægilegt og vinsamlegt. Kannski það sé einmitt eitthvað í menningu þessa lands sem fékk þessa stórborg til þess að virka svona vel á mig. Allt önnur tilfinning en í New York. Tokyo er uppáhalds stórborgin mín. Verð að komast þangað aftur.

Ummæli

Valtyr sagði…
Já, maður verður að tékka á Tokyo við tækifæri. Verst að þú gast ekki stoppað lengur.
Nafnlaus sagði…
en frábært, þú hlýtur að vera endurnýjaður, endurnærður, endurbættur...(endurunninn?)

rosa væri ég til í að komast á svona exótískan stað eins og Tókýó...hlýtur að vera allt öðruvísi umhverfi.
Unknown sagði…
sammála þér,tokyo er best,ég er búin að "vera á leiðinni"í 12 ár aftur.

Vinsælar færslur