Summer, Summer, Summertime

Þessa dagana er ég í ofurlitlu sumarfríi. Svona viku sem ég hafði ætlað að eyða fyrir Vestan. En svo var það blásið af með litlum fyrirvara. En ég tók mér frí, enda farið að hlakka til að fá nokkurra daga frí. Hef heldur ekki setið auðum höndum. Alveg verið að njóta veðurblíðu. Frábært að eiga frí og hitta á svona skemmtilegt veður. En fríið hófst samt með skemmtilegum hætti. Ég nefnilega fór heim, settist út í garð og sleikti sólina, með gott rauðvín sem gengið hafði af í Þórsmörk. En þetta hafði svæfandi áhrif, því ég steinsofnaði snemma um kvöldið og var því vel úthvíldur á laugardaginn. Ennþá frábært veður og ég var heldur betur til í að njóta þess. Það varð fyrsta ganga af nokkrum. Fór upp á Helgafell, bæjarfjallið mitt. Eiginlega í fyrsta skipti í ár. Það er yndislegt fjall að rölta á. Svo um kvöldið þá kíkti ég aðeins út. Fór svo sem aldrei alla leið í 101, en bara í heimsókn til vinafólks. Fékk mér freyðivín í tilefni sumarsins. Það er nefnilega eitthvað einstaklega sumarlegt við það að sötra freyðivín. En þetta var bara byrjunin.

Daginn eftir var ég nefnilega boðinn í sumarhús hjá félaga. Svo snemma á sunnudeginum var ég kominn af stað. Byrjaði á því að sækja ökutækið. Strætó stríddi mér aðeins með því að hafa breytt ferðum sínum svo ég var aðeins seinni af stað en ég ætlaði mér. En rétt um hádegið í rjómablíðu var ég kominn upp í Borgarfjörð. Sumarhúsið stendur ekki langt frá Munaðarnesi og eftir að hafa fengið staðgóðan hádegisverð var haldið af stað í göngu. Gengum skemmtilega gönguleið frá sumarhúsinu og næstum að Bifröst. Þetta var þægilegasta ganga og við vorum einhverja 3 tíma að rölta þessa rúmlega 12 kílómetra. Í rjómablíðu. Svo var haldið til baka, þurftum reyndar ekki að rölta til baka, því við fengum far þá leið. Síðan var mér boðið í pott, upp á grill, kaldan öl og kaffi og koníak í kjölfarið. Kvöldið var endað með því að horfa á Superman 3 sem er í miklu uppáhaldi, enda varla hægt annað en hrífast af mynd þar sem Richard Pryor er forritari. Okkur fannst þetta skemmtilegur endir á kvöldinu.

Daginn eftir vaknaði ég í rjómablíðu í Borgarfirðinum. Ekkert nema gott veður í þessu fríi mínu. Alveg magnað. Vinkona mín hafði haft samband og var að gæla við þá hugmynd að rölta á Hellisheiðinni. Taka gönguferð frá Þingvallavatni og yfir í Reykjadal. Ég hafði gengið þetta áður og fannst þetta fín hugmynd. Svo seinni partinn í gær lögðum við af stað. Hún hafði verið spennt fyrir því að rölta með tjald og allt sem því fylgir yfir í Reykjadal um kvöldið, en ég var ekkert rosa spenntur. Orðinn svolítið latur. Eiginlega alveg ferlega latur. Svo ég taldi hana á að breyta þessu í lúxusferð. Við fundum okkur gott kjöt, ferðgrill og enduðum á tjaldstæðinu við Ölfusvatn þar sem við komum okkur fyrir við grillið. Vorum ekki alveg eina fólkið á tjaldstæðinu, en svona næstum því. Við grilluðum og enn var drukkið rautt. Ég fann fyrir rauðvíninu þegar ég leit út um 6 leitið morguninn eftir. Var ekki alveg á því að fara af stað svo snemma. Svo ég hallaði mér á hina hliðina og hélt áfram að sofa.

Það var svolítið merkilegt að ég hélt að það væri rigning þegar ég vaknaði í hitakófi 3 tímum síðar. En svo var ekki. Þetta var mý sem var að ráðast á tjaldið mitt. Fljótlega eftir þetta fór ég að hugsa mér til hreyfings og það birtist líka fólk þarna sem var að bardúsa eitthvað á svæðinu. Við áttum eftir að komast að því hjá þeim að þarna höfði verið óeirðir um helgina. Fullir unglingar sem skildu allt eftir í rúst, brutu klósett, skildu tjöld eftir og gengu illa um. Svo það var nefnt að hugsanleg þyrfti að loka þessu tjaldstæði. Sem er synd. Því þarna er fallegt. Þó það sé rétt að mæla með flugnaneti. Við fengum okkur morgunmat og komum okkur síðan af stað í göngu svona rétt um 11 leitið. Ég hafði áður rölt þetta. Fyrir nokkrum árum. Vissi að það væri hægt að taka þetta sem ákveðin hring. Sólin skein og það var heit og notalegt. Vinkona mín og ferðafélagi var ekki alveg nógu hrifin af því veðri. Hvort það var fyrir hennar ákall eða ekki, þá lentum við í þrumuveðri. Í fyrstu í miðjugljúfri í Kattartungum. Sem mér fannst heilmikil upplifun. Þó ég væri ekki alveg undir það búinn að vera í rigningu. En það stytti fljótlega upp og við ákváðum að rölta bara áfram. Það átti eftir að rigna og sjást bæði eldingar og heyrast í þrumum oftar á leiðinni. En þetta er alveg mögnuð leið. Er rétt liðlega 22 kílómetrar og engin erfiðisganga. 200 til 300 metra hækkun og engum ofviða sem eitthvað hefur hreyft sig. Landslagið á þessum slóðum er alveg magnað og þegar við það bætist áhrifaríkt veður og hverasvæði þá er þetta algjör perla sem er hérna bara rétt við bæjardyrnar. Ég er alveg viss um að þetta verður ekki í síðasta skipti sem ég á eftir að fara þessa leið.

En samkvæmt venju þá mun ég ekki verða duglegur í skrifum í fríinu. Er að reyna að halda í þá reglu að láta tölvur vera á meðan ég er í fríi. Það gengur kannski ekki alveg nógu vel. En ég er að reyna. Svo ég ætla að vera latur hér. Nema það komi eitthvað sérstaklega skemmtilegt fyrir. Þetta er búið að vera töfra frí hingað til, svo það er aldrei að vita.

Ummæli

Vinsælar færslur