Aumt hné og ég er aumur líka

Eftir að hafa ekki komist upp á fjöll, né heldur í yoga út af hnénu á mér. Vera eiginlega bara frekar illt í hnénu. Þá er ég hreint ekkert sérlega kátur. Finnst það kaldhæðnislegt ef ég kemst á endanum ekki með í gönguferðina sem ég er búinn að hlakka til. Svona endilega sendið mér hné karma.

Því ég hef eiginlega verið frekar stúrinn með þetta. Finnst eiginlega ekkert hafa lagast í hnénu á mér. Líður ekki vel með það. Svo finn ég hvernig þetta hreyfingarleysi er ekki að gera mér gott á sálinni. Er hræddur við að æða upp á fjöll og skemma kannski meira. En dapur yfir því að komast ekki neitt. Skrítið hvað það að vera svona aumur á einum stað getur farið yfir allt hjá manni.

Þess vegna hef ég verið eitthvað ókátur undanfarna daga. Sofið meira en ég er vanur. Ekki skrifað neitt hér. Eitthvað fundið meira fyrir sjálfum mér en oft áður. En held að þetta tengist einmitt allt. Ég er aumur á einum stað. Þá verð ég aumur út um allt. Svo ég er ekkert að kvarta of mikið. Hver hefur líka áhuga á því að heyra kvart, þegar við erum að upplifa svona flott sumar. Rakst einmitt á gamla vinkonu og vinnufélaga sem alið hefur manninn í London nokkur undanfarin ár. Sú var sammála mér í því að í svona veðri væri sko ekki mikils að sakna frá London.

Ég fór einmitt á Vegamót í hádeginu í dag með núverandi vinnufélögum. Hef eiginlega ekki gert það í hádeginu í allt of langan tíma. Eins og alltaf í svona veðri þá var þarna múgur og margmenni. Flestir úti í sólinni. Enda um að gera að njóta þess þegar sólin kemur. En líka inni. Vegamót er nefnilega svona tilvalin hádegisstaður. Hæfilega dýr og afslappaður. Svo er líka maturinn fínn.

Veit ekki hvernig þetta tengist allt saman. Gerir það líklega bara alls ekki. En ég fékk allt í einu óstjórnlega löngun til þess að rifja upp Múmínálfasögurnar hennar Tove Janson. Veit samt ekki hvort ég þori. Það er nefnilega sumt sem er best í minningunni. En ég á samt eflaust eftir að prófa. Veit að það komu ekki allar bækurnar hennar út á íslensku. Kannski ég prófi að lesa Haust í Múmíndalnum. En hún er óþýdd. Ekki eins og mig vanti eitthvað að lesa samt. Bókapakkar hafa verið nokkrir í sumar og svo er ég búinn að uppgötva hljóðbókina. Vantar bara fleiri klukkutíma.

Vonandi fæ ég góðar fréttir í fyrramálið.

Ummæli

Valtyr sagði…
Er það rétt að það hafa fundist múmínálfar rétt sunnan við Grímsey?
Simmi sagði…
Ég er ekki frá því að það sé rétt hjá þér...amk. var verið að leita að einhverju þarna fyrir norðan, líklega múmínálfum...
Nafnlaus sagði…
sendi hnénu á þér magnaðar batnkveðjur:)
Simmi sagði…
Takk takk Baun, ég er alveg viss um að ég er að finna muninn:-)

Vinsælar færslur