Ljúfir sumardagar

Ég hef haft ástæðu til þess að vera niðurdreginn undanfarna daga. Fyrst og fremst er það vinstra hné sem hefði átt að valda því. Fór til læknis og komst að því að ég er með slitinn liðþófa. Sem er ekki gott. Sérstaklega ekki nú, þegar Hornstrandaferð nálgast óðfluga. Ákvað samt að taka þessu með jafnaðargeði. En mikið hefur fólk orðið undarlegt á svipinn þegar ég hef sagt því að ég sé með slitinn liðþófa eftir jóga. Staðfestir einfaldlega að flestir telja jóga ekki reyna mikið á. Sem það á sannarlega ekki að gera. Það er hins vegar staðfest að mitt jógakerfi er líkamlega erfitt. Það er ítrekað varað við því að af því geti hlotist meiðsli. Sérstaklega hné og hendur. Svo nú hef ég sannarlega lært að fara varlega og vera ekki of ýtinn. En á sama tíma. Er ég sannfærður um að jóga hefur gefið mér öðruvísi viðhorf. Sem gerir það að verkum að ég er sáttur. Þetta er bara ábending frá tilverunni um að ég eigi að gera hlutina öðru vísi. Svo í stað þess að vera niðurdreginn. Er ég kátur. Ákveðinn í að læra af þessu. Meira að segja byrjaður aftur að fara í jóga. En fer ofsalega varlega og geri ekkert sem ég er ekki viss um að ég ætti að vera gera.

Þetta kemur samt á ferlegum tíma. Ég hefði svo sannarlega verið upp á fjöllum um helgina. Svo frábært sumar. Svo kemur eitthvað svona fyrir og þá raskast allar áætlanir. En í staðinn fyrir að vera dapur yfir því. Þá gerði ég bara eitthvað annað í staðinn. Fór í ferlega skemmtilegt afmæli á laugardaginn. Svo magnað að geta verið úti á svölum fram eftir nóttu og finnast aldrei verða sérlega kalt. En gat samt ekkert dansað í afmælinu og hnéð kvartaði og kvartaði. Svo það skemmdi aðeins stemmninguna hjá mér. Vona samt að ég hafi ekki skemmt hana hjá neinum öðrum, þó ég hafi ekki verið alveg í mínu mesta stuði. Ég verð bara að reyna að bæta það upp við tækifæri. En fyrst fjöllin voru út úr myndinni. Þá varð miðbærinn fyrir valinu.

Ég átti þannig frábærar stundir í miðbænum. Bæði á sunnudag og mánudag. Svo skemmtilegt að njóta þessa sumars. Fullt af fólki úti. Allir svo miklu glaðari en í kulda og vosbúð. Ég er alveg viss um að ein af ástæðunum fyrir furðulegri hegðun okkar á útihátíðum er nefnilega kuldi. Okkur er kalt og þá verðum við einfaldlega árásargjarnari. Svona eins og geitungar. Kannski sama genið sem veldur. Góð vinur minn frá Bretlandi, sem ég átti skemmtilega kvöldstund með í síðustu London ferð er á landinu og það var einmitt ástæða heimsóknar í miðbæinn á mánudagskvöldið. Ekki á hverjum degi sem ég heimsæki miðbæinn á þeim degi og athyglisvert að sjá mannlífið á þessum degi. Tók hefðbundin rúnt. Þó ég kvartaði stöðugt yfir göngunni. En þetta eru ljúfir sumardagar finnst mér.

Ummæli

Vinsælar færslur