Að lenda í sjálfheldu

Ég varð svolítið hugsi yfir fréttum af ferðamönnum á fjöllum um helgina. Raunar varð ég líka hneykslaður á fréttum af dómsmálum. En það eru aðrir duglegri en ég að ræða um það. Svo ég ætla að eins að tjá mig um fólk sem lendir í erfiðleikum á fjöllum. Það var margt varðandi þessa frétt sem gerði mig hugsi. Af einhverjum ástæðum sá leiðsögumaðurinn (eða konan) nefnilega ástæðu til þess að fara með fólkið út af venjulegri leið. Eða best að útskýra þetta aðeins.

Málið er að björgunarsveitir voru kallaðar út til að leysa hóp fólks úr sjálfheldu. Hóp fólks sem hafði verið á leið yfir Fimmvörðuháls. Ekki svo langt síðan ég gekk þá leið. Vandræðalaust. En raunar eru nokkrir staðir sem má fara varlega yfir. Getur verið óheppilegt fyrir lofthrædda að fara þetta. En núna um helgina bárust fréttir af því að hópur hefði lent í vandræðum. En samkvæmt fréttum virtist þetta hafa verið allt hið undarlegasta mál.

Í fyrsta lagi þá fer hópurinn út af hefðbundinni leið. Í stað þess að fara yfir Morrisheiði og síðan vel merkta leið niður í Þórsmörk þá ákveður hópurinn, væntanlega samkvæmt ákvörðun leiðsögumanns að fara aðra leið. Í öðru lagi er alveg kristaltært að þetta var ekki vant fólk. Samkvæmt Morgunblaðinu í morgunn (bls.2) voru þetta ellefu finnskir ferðamenn. Sem auk þess voru „eldra fólk sem ekki treysti sér til að halda áfram ferðinni þar sem stígurinn hafði farið sundur á kafla vegna skriðu“ eins og sagði í Morgunblaðinu. Raunar er þetta ekki óþekkt leið. Því ég hafði séð hennar getið á vefdagbók leiðsögufólks sem gekk yfir Fimmvörðuháls á undan mér. Samkvæmt frétt gekk hópurinn hefðbundna leið. Allt þar til komið var að Heljarkambi. Þá virðist leiðsögumanni hópsins vera farið að leiðast. Eða eitthvað valdið stefnubreytingu. Því í stað þess að fara hefðbundna, vel merkta og tiltölulega einfalda leið. Ákveður hann að fara út af þeirri leið. Eða svo vitnað sér í göngulýsingu frá eyjafjoll.is

„Þegar þarna er komið er um tvær leiðir að velja, að fara til vesturs niður gilið og ganga fram Strákagil niður í Bása en sú leið er ekki hin hefðbundna leið niður af Heljarkambi en fyrir þá sem hafa farið yfir hálsinn oft er alveg þess virði að prófa þá leið.”

Þessi leiðindi viðkomandi kostuðu svo á endanum útkall björgunarsveita. Sem eflaust hefur þótt fátt skemmtilegra en rífa sig frá fjölskyldu og vinum til þess að koma viðkomandi úr sjálfheldu. Ég á raunar erfitt með skilja þessa ákvörðun. Eiginlega er eina ástæðan sem ég get fundið, sú að veður hafi staðið þannig og lofthræðsla verið svo mikil í hópnum að viðkomandi hafi þótt þetta vænlegri kostur en sá að fara hefðbundnu leiðina. En það hafi svo endað með þessum hætti. Eða ég vona að það sé ástæðan. Því þó þetta sé ekki erfiðasta gönguleið landsins. Þá er margt á henni sem getur komið óvönum á óvart. En svo má tala varlega. Allt getur þetta átt sér góðar skýringar og ekki endilega víst að annað hafi staðið til boða. En ég vorkenndi björgunarsveitarfólki sem þurfti að standa í svona leiðindum.

Ummæli

Vinsælar færslur