Svona er heimurinn vondur

Mér brá um helgina. Hélt eiginlega áfram að bregða eftir því sem leið á vikuna. Komast að því að systur sem ég hafði kynnst fyrir margt löngu síðan höfðu gengið í gegnum einhverja þá verstu reynslu sem hægt væri að leggja á nokkurn mann. Fannst það virkilega óhugnanlegt. Fyrir þá sem ekki hafa hugmynd um hvað ég er að tala þá er það útkoma bókarinnar Myndin af pabba sem er saga Thelmu Ásdísardóttur og sú fjölmiðlaumfjöllun sem fylgt hefur í kjölfarið.

Ég hef ekkert skafið utan af skoðunum mínum varðandi þessi mál. Tel að íslenska dómskerfið sé á ótrúlegum villigötum þegar kemur á dómum í afbrotum sem þessum og hér sé verið að varpa ljósi á enn eitt hneykslið hvað þetta varðar. Konur og börn eru bókstaflega varnarlaus gagnvart ógeði sem virðist fá mun vægari meðferð innan dómskerfisins heldur en glæpamenn þar sem erfitt getur reynst að finna viðlíka fórnarlömb.

Það hitti mig því illa fyrir að komast að því að þessar brosmildu og ákaflega yndislegu systur sem ég kynntist í gegnum sameiginlegan áhuga okkar tónlist höfðu og kannski voru að ganga í gegnum einhverja verstu martröð sem ég gæti ímyndað mér að hægt væri að leggja á fólk. Ekki minnkuðu þær í mínum augum við það að stíga nú fram og segja frá þessari hrikalegu reynslu. En mikið rosalega hefði maður viljað getað rétt fram hjálparhönd þegar þær þurftu kannski mest á því að halda. En undarlegt að hafa staðið svona nálægt martröðinni og hafa ekki hugmynd um hvað var að gerast. Ætli maður sé alltaf svona blindur?

Ummæli

Vinsælar færslur