Snjór, snjór, snjór, snjór, já og föstudagur

Föstudagurinn rann upp bjartur og fagur. Nei, það er reyndar hreint ekki rétt. Hann rann upp, en var ekkert sérlega bjartur. Mér tókst til dæmis að setja nýtt met á leiðinni í vinnuna í morgunn. Þá var ég 40 mínútur að komast frá heimili mínu til vinnustaðarins. Það kemur okkur nefnilega alltaf svo svakalega mikið á óvart þegar vatnið byrjar að frjósa á veturnar og gerir bíla á sumardekkjum að dýrum snjóþotum. Þess vegna var ég í fyrsta gír mest alla leiðina í vinnuna í morgunn. Er ferlega ánægður með árangurinn af slökunaræfingunum mínum og bölvaði hvorki nærstöddum bílstjórum, né því að komast ekki hraðar í vinnuna. Vissi sem var að það yrðu allir lengi að komast í vinnuna í dag. Þetta stefnir hraðbyr í að verða alveg klassískur íslenskur vetur. Búið að vera kalt, byrjað að snjóa og maður býst næstum því við að heyra af snjóflóðum um helgina.

Ég fór annars og sá Tim Burton myndina Corpse Bride í gærkvöldi. Flott mynd fyrir þá sem fíla brúðumyndirnar hans Tim. Hef löngum haft gaman af þessum leikstjóra og þó svo þetta hafi nú eiginlega verið alveg við það að vera of barnalegt og væmið (gott í litlum skömmtum) þá fannst mér bara gaman í bíó. Fullt að sjá á Októberbíófest – ætla mér ekki að missa af It’s All Gone Pete Tong eða Gong Fu. Fullt fleira spennandi í boði en ekki alveg búinn að ákveða að sjá nema þessar tvær.

Já, ég er ekkert búinn að gleyma þema dagsins. Finnst viðeigandi í tilefni glæsilegs kvennafrídags að benda á þessa grein um áhrif kvenna á krármenningu Breta.

Ummæli

Vinsælar færslur