Ekki blár mánudagur

Það er mánudagur í dag. Mánudagur til mæðu er sagt, en ég ætla að brjóta þá reglu með því að tala um eitthvað skemmtilegt. Raunar ættum við að gera meira af því að vera skemmtileg á mánudögum því þá þurfum við kannski mest á hressingunni að halda. Enda á maður ekkert alltaf að vera alvarlegur. Við þurfum á húmor að halda á þessum árstíma, ekki spurning. Ekki endalausu tauti og tuði. Núna gefast til dæmis góð tækifæri til þess að kynnast nýju fólki, fá sér kaffi og eiga spjall þar sem þér gefst tækifæri á að heyra fólk láta eins og það taki fáranlegastu hugmyndir sem þú hefur fengið alvarlega.

Ég er er auðvitað að tala um kosningaskrifstofur sem nú opna hver á fætur annari. Þar skiptir mestu að þú hafir náð 18 ára aldri, komir til með að vera á lífi næstu mánuði og kjósir rétt. Í það minnsta þann frambjóðenda sem þú ert staddur hjá hverju sinni. Ein af skemmtilegri hugmyndum sem ég hef heyrt er auðvitað að skrá sig á stuðningsmannalista allra þessara aðila, ganga í alla stjórnmálaflokkana og eiga "vandaðar" umræður og fá frítt kaffi og með því.

Ef þú ert í ferðahugleiðingum þá er rétt að minna á að krónan hefur aldrei verið sterkari. Það gerir það að verkum að ég mæli óhikað með ferð til Bandaríkjana. En við skulum ekkert vera að benda á þessa venjulegu staði sem fólk hefur tekið ástfóstri við fyrir löngu (Mall of America, Empire State, I-95) heldur eitthvað óvenjulegt og skemmtilegt – eins og húsið á steininum. Ef þig vantar fleiri ástæður þá ætti þessi frétt af ódýrustu ferðatölvu í heimi að geta aukið áhuga þinn á heimsókn vestur um haf. Þó mér skiljist reyndar að stóra ástæðan fyrir ferðalögum til Bandaríkjana séu kaup á IPOD og litla útvarpssendinum sem fæst hvergi nema þar. Hef ekki ennþá látið undan IPOD æðinu – en 80% markaðshlutdeild...úff. Ætli maður endi ekki bara á því að fá sér IPOD um leið og næsta bíl.

En fyrir þá sem endilega verða að fá einhverja smá mæðu á mánudegi, því ekki að velta sér upp úr heimsendahugmyndum – það verður ekkert mikið dapurlegra en það.

Ummæli

Vinsælar færslur