Netraunir, gönguferðir og til hamingju konur

Einhverjir hafa rekið augun í að hér hefur lítið verið uppfært undanfarið. Þar er reyndar ekki bara um að kenna pennaleti, heldur hefur það gert mér erfitt fyrir að Netsamband á heimili mínu hefur ekki verið að virka. Þess vegna hefur ekki komið pistil um gönguferð mína fyrsta vetrardag. Ég ákvað nefnilega að heilsa vetri með því að ganga á bæjarfjallið mitt, Helgafellið. Því þó veður sé kalt þessa dagana, þá er í rauninni ekkert mikið kaldara en þegar ég byrjaði göngurnar í vor. Eiginlega er bara svakalega fínt að ganga í svona köldu veðri og eins og það hefur verið hérna á stór Hafnarfjarðarsvæðinu þá er engin ástæða til þess að hætta göngum, þó komið sé inn á 4 ársfjórðung. En ég tók sem sagt myndir sem ég ætlaði að hafa með pistlinum, en erfiðleikar mínir við að tengjast heima hafa alveg komið í veg fyrir að það hafi tekist. Læt ykkur vita um leið og þær komast alla leið.

Svo var auðvitað nóg um að vera í bænum. Iceland Airwaves hátíðin náði hápunkti og í þetta skipti var ég afskaplega ánægður að hafa sleppt biðraða hátíðinni eins og hún var kölluð af þeim sem ég hitti á laugardagskvöldið. Sem er auðvitað ekkert annað en jákvætt vandamál. Það hlýtur samt að vera óþægilegt fyrir skipuleggjendur og samstarfsaðila hátíðarinnar að vita til þess að hátt skrifaðir erlendir blaðamenn (svo ekki sé minnst á sótsvartan pöbulinn) hafi verið skildir eftir í kuldanum á laugardagskvöldið. Því markmiðið með hátíðinni er ekki síður að búa til góða og jákvæða umfjöllun um land og þjóð, en að búa til fleiri fræga Íslendinga. En hátíðin hefur svo sem aldrei höfðað mjög sterkt til mín, svo ég ætla bara að óska mönnum til hamingju með ofselda hátíð, nú þarf bara að tryggja að það sama gerist ekki að ári.

Í gær ætlaði ég síðan að skrifa dágóðan pistil um það að mér fyndist með miklum ólíkindum að konum hefði ekki enn verið sýnd sú virðing sem þeim ber. Það er með miklum ólíkindum að 30 árum eftir að við héldum hér kvennafrídag í fyrsta skipti þá skulum við telja þörf á því að halda annan slíkan. Þó ég telji mig ekki vera feminista, þá flokka ég mig sem skynsemishyggjumann. Sem slíkur þá á ég afskaplega erfitt með að skilja hvert það kerfi sem dregur úr getu u.þ.b. helmings mannkyns til þess að leggja sitt af mörkum til vaxtar og velmegunar. Tel reyndar að þróun undanfarina ára hafi lagt sitt að mörkum til þess að gera útilokun kvenna frá fullri þátttöku í þjóðfélaginu ómögulega. En það eru bókstaflega engin rök sem geta útskýrt afhverju við búum við svona mikinn mun á því hvernig starf kvenna og karla eru metin. Tek undir að sú staðreynd að ummönnunarstörf eru illa launuð séu líklega vegna þess að þau eru hefðbundin kvennastörf. Tel það augljóst að nú þegar fjöldi kvenna líkur háskólanámi og yfirleit með betri árangri en karlar, þá geti hreinlega ekki verið að það taki 30 ár í viðbót að ná fram þessu langþráða jöfnuði í tækifærum karla og kvenna. Hvernig má það vera að í samfélagi sem kennir sig við hugvit, séum við enn að mismuna fólki á grundvelli kyns?

Ummæli

Vinsælar færslur