Kominn heim

Þá er viðburðarríku og afskaplega skemmtilegu páskafríi lokið. Okkur tókst að komast heim. Sem þýðir að við lögðum að baki eitthvað um 28 þúsund kílómetra ferðalag. Held að það sé sannarlega það lengsta sem ég hef nokkurn tíma farið. Heimferðin gekk raunar vel. Við lögðum af stað snemma morguns frá Salvador. Í helli rigningu. En raunar skein sólin þegar við fórum í loftið áleiðis til Sao Paulo. Á leiðinni batnaði veðrið og ég virti fyrir mér Brasilíu á leiðinni. Þetta er ótrúlega stórt og mikið land. Sömu sögu má segja af Sao Paulo. Engin borg virst mér stærri, nema ef vera skildi Mexíkóborg, en hún mun vera fjölmennust borga í þessum heimshluta.

Það var annars skrítið að fljúga yfir Sao Paulo. Þetta er gríðarlega stór borg enda mun íbúatala vera nálægt 20 milljónum. Tala sem maður skilur betur þegar maður flýgur yfir borgina og sér ekkert nema hús og byggð svo langt sem augað eygir. Alveg hreint magnað og ég velti því fyrir mér hvernig það er að búa í svona stórborg. Sem ber þessi einkenni latnesku Ameríku, því þarna mátti sjá háhýsi og fátækrahverfi í samsuðu. Raunar virtust stór svæði ekki vera neitt nema þétt byggð. Sem okkur fannst einkenni á Salvador líka. Það er nefnilega byggt þétt og ekki endilega allt í stíl. En við lentum í Sao Paulo í glampandi sól rétt um hádegið.

Þá tók við nokkurra klukkutíma bið. Við höfðum eytt nokkrum klukkutímum á leiðinni til Salvador á flugvellinum í Sao Paulo svo við vorum ekki í vandræðum með að eyða þeim tíma. Röltum í búðir. Fengum okkur hádegismat. Vorum síðan síðustu farþegar um borð í Air France vélina. Því það er nauðsynlegt að búa yfir ríkulegri þolinmæði í Brasilíu. Þar tíðkast ekki íslenskur kraftur í vinnu. Raunar var það eitt af því sem vinafólk okkar nefndi. Það nefnilega saknaði þessa íslenska krafts í vinnu, sem er fátíður í Brasilíu. Þar er nefnilega svokallaður Brasilíutími í gangi. Þess vegna sem stress hreinlega gengur frá þér. Það er nefnilega nauðsyn að vera birgur af þolinmæði. En starfsfólk Air France var hreint ekki ánægt með okkur og kannski hef ég aldrei verið nærri því að komast hreinlega ekki með vegna þess að búið er að loka flugvélinni. En við sluppum með skrekkinn.

Eins og á leiðinni til Brasilíu þá tókum við hjarta magnyl, svefntöflur og nutum góðrar þjónustu Air France í mat og drykk. Ég sofnaði fljótlega og náði ágætum nætursvefni, en ferðafélagi minn lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu ná ekki miklum svefni. Sem ég þekki vel. Því mér finnst óskaplega erfitt að sofa í flugvélum. En reynslan hefur kennt mér ákveðin ráð. Hljóðdeyfandi heyrnartólin sem ég festi kaup á í París á leiðinni út reyndust mér vel. Því það er töluverður dynur í flugvél á flugi. Sem hefur haldið fyrir mér vöku. En núna small þetta allt saman. Við lentum síðan rétt um 9 að staðartíma í París. Óvíst var með flugið heim. Svo til að byrja með ætluðum við okkur að fara heim í gegnum London. En eftir 2 tíma bið sem var notuð til að nærast og festa kaup á frönskum eðaldrykkjum, þá nefnilega komust við að því að nærri vonlaust væri að komast til London. Öll flug uppseld. Svo eftir símtal til Íslands, ákváðum við að athuga hvort við kæmust heim með beinu flugi til Íslands, en samkvæmt öllu átti að vera uppselt. Okkur til gleði þá skiluðu sér ekki allir farþegarnir í flugið og við komust því heim. Sem þýddi að við vorum ekki nema 36 klukkutíma á leiðinni heim.

Já, þetta er virkilega langt og mikið ferðalag. Raunar er hægt að fara þetta með öðrum hætti. Eitthvað styttra. En þegar ég skoðaði þetta áður en lagt var af stað. Var það þó aldrei mikið undir sólarhring. Okkur þótti gott að hafa góðan tíma til að skipta um vélar, enda þarf ekki mikið til að seinkun verði og alveg klárt að þeir sem ferðast um Brasilíu þurfa að gefa sér góðan tíma. Því allt eins líklegt er að lenda í biðröð meðan Brasilíubúar afgreiðamálin á sínum hraða. En mikið óskaplega var þetta samt skemmtilegt frí. Skemmtilegt að hitta vini sem búa svona langt frá manni. Ég get óhikað mælt með heimsókn til Salvador í Brasilíu. Borgin er vinaleg, þó allur sé varin góður í Brasilíu. Þarna er auðvelt að slaka á. Mikið að sjá. Fallegt fólk. Þarna er mikil tónlist í fólki og við komust að því að ódýrt er að fljúga í Brasilíu. Þar er því engin ástæða til þess að hika við ferð á þessar slóðir.

En það er svolítið erfitt að koma úr 30 stiga hita og sól í íslenska vorið.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
velkominn heim:)

Vinsælar færslur