Hér er allt ódýrt

Það er til siðs í útlöndum að bera saman verðlag. Ég hef komist að því að sumir hlutir eru hér mun ódýrari. Eitt af því sem margir þekkja er kokteil frá Brasilíu. Capirinja. Sem samanstendur af lime, klaka, sykri og rommi. Brasilíska útgáfan af því er framleidd úr sykurreyr og kostar flaskan 90 til 120 krónur. Kíló af lime er á 25 til 27 krónur. Okkur hefur reiknast út að meðalverðið á þessum kokteil sé því í kringum 10 krónur. Til saman burðar þá fengist hann tæplega á undir 1500 krónum á íslenskum bar. Sömu sögu er hægt að segja af nauðsynjavörum.

Það er þess vegna hægt að hafa það fínt hér. Í það minnsta ef þú ert á íslenskum launum. Mér skilst að hér séu meðal laun í kringum 60 þúsund íslenskar. Þykkir ekki slæmt. Ég verð að viðurkenna að ég myndi ekki vilja lifa af þeim launum á Íslandi. Það er líka alls ekki allt jafn ódýrt hérna. Þannig tek ég eftir því að merkin eru dýrari hér en á Íslandi. Það segir mér að hér sé yfirstétt. Sem hafi það nokkuð gott. Mun betra en flestir líklega. Annars er ég að verða ferlega spakur hérna.

Hitinn, ódýr bjór, skemmtilegt fólk. Þetta leggst allt á eitt. Ef ég gæti haldið í sömu kaup og kjör og heima á Íslandi. Hver veit. Kannski ég myndi flytja hingað. En á sama tíma þá hefur bitunum fjölgað jafnt og þétt. Kláði er að verða eðlilegt ástand. Ég sakna þess líka að finna ekki smá kulda. Myndi líka sakna þess að komast ekki á fjöll. Þau eru reyndar einhver hér. En ég datt inn í útivistarhorn í íþróttaverslun hérna. Var að skoða bakpoka. Er svolítið að leita mér að nýjum slíkum. En það vantaði þau 2 atriði sem ég læt mig mestu skipta núna. Regnhlíf og vatnspoka. Fyrra atriði skil ég svo sem. Varla að hér sjáist ský á himni. En það síðara á ég erfiðara með að skilja. Svo ég fjárfesti ekki. Í staðinn keypti ég lounge tónlist frá frægu hóteli í Sao Paulo. Á helming af því sem diskar kosta á Íslandi. Já, það er ódýrt að lifa á íslenskum launum í Brasilíu.

Ummæli

Vinsælar færslur