Klassískur túristi

Ég hef búið til skilgreiningu á því hvað er klassískur túristi í sólarlöndum. Það er einhver sem kemur á staðinn. Fer á ströndina. Finnur sér barinn. Helst einhvern sem Íslendingur rekur. Kíkir kannski í miðbæinn, en þá fyrst og fremst til þess að finna “Laugaveginn”. Forðast að prófa matreiðslu sem einkennir staðinn. Þannig veistu að þú ert á slóðum Breta þegar lambakjötið er með mintusósu. Ekkert svo sem að þessu. Þetta hentar þeim sem vilja komast í frí. Án þess að þurfa að leggja of mikið á sig.

Ég er heldur ekki að segja að maður eigi að reyna haga sér eins og innfæddur. Það er eiginlega hinn endinn. En ég er hins vegar ákafur talsmaður þess að reyna. Fá smá innsýn inn í það sem staðurinn býður upp á. Þess vegna fannst mér það sorglegt fyrir nokkrum árum þegar ég var í Andalúsíu og gekk inn á veitingastað þar sem mér var heilsað á þýsku. Ég vissi þá þegar að það væri orðið eitthvað lítið eftir af staðnum sjálfum. En ég er ekkert endilega ákafur talsmaður þess að allt sé “alvöru”. Ég hef skemmt mér í Disney World. Eflaust yrði ég bara ánægður í Las Vegas. Eða kannski ekki. En þetta fer svolítið eftir væntingum.



Hér í Salvador er mikil saga. Þetta var miðstöð þrælaverslunar. Höfuðborg Brasilíu. Miklar og glæsilegar byggingar í miðbænum. Kirkja og klaustur sem voru vel þess virði að skoða. Þó ekki næði hún þeim sem ég hafði áður séð í Mexíkó. Allt er þetta svæði á Unesco listanum yfir menningarleg verðmæti sem okkur ber að vernda. Sem ég er viss um að veitir ekki af hér. Ég upplifi miðbæinn nefnilega á þann hátt að hér hafi Modernistar ráðið ríkjum í arkitektúr. Í misjöfnum gæðum. Það er samt eitthvað við það að sjá þennan sterka svip Modernista hér í hitanum. Svolítið eins og vera í tímavél. Þessi “International” stíl sem réð ríkjum svona frá 1950 til 1990 heima. Sem ennþá er til staðar á Íslandi. Held til dæmis að háhýsið í Kópavoginum eigi eftir að verða ferlíki af þessu tagi. En hér minnir þetta sterkt á áttunda áratuginn.



En annars er ég ekkert að sökkva mér of djúpt ofan í þessa sögu. Skoðaði þetta allt með áhuga. Fór í lyftuna sem allir fara í hérna. Tók myndir af miðbæjarlífinu. En sleppti söfnunum. Keypti svo sem heldur ekkert of mikið af túristaglingri. Þarf samt að finna mér eitthvað til minja um ferðina. Jafnvel sniðug söfn til þess að kíkja inn á. En það kemur. Ég hef líka verið sæmilega duglegur að prófa matreiðsluna hérna. Ekki tekist að finna mér dökkt súkkulaði ennþá. En verð ekki í vandræðum með páskaegg. Nóg til af þeim hér. Þau eru líka í nokkuð annarri framsetningu en heima. Þau eru hengd upp. Svo ég gekk undir, já eða fyrst á þau, sem mér finnst góð hugmynd. Það þýðir nefnilega að litlir fingur ná ekki í eggin. Þau eru of hátt upp. Af þessu má ráða að ég er ekkert svo ólíkur þessum hefðbundnu túristum. Sé tengingar við það sem ég þekki.

Hins vegar hef ég svakalega gaman af því að prófa matreiðslu á þeim stöðum sem ég heimsæki. Það hjálpar til að ég er ekkert ofboðslega hræddur við að prófa eitthvað nýtt. Eða hef sett mér reglur varðandi mataræði. Svo frá því að ég kom hingað hef ég prófað eitt og annað. Sýnist að matur í Brasilíu ætti ekki að vera stór vandamál fyrir Íslendinga. Málið er nefnilega að þeir virðast hafa það fyrir sið að krydda ekki endilega réttina mjög mikið. En það er hægt að biðja um það. Sömuleiðis fylgir oft krydd í skál með. Þetta þýðir að minni hætta er á slysum. En ég verð að viðurkenna að ég hef ekki ennþá prófað steikur hérna. Sýnist þær nefnilega vera eldaðar mun meira en ég er vanur. En kannski er leyndarmál sem ég veit ekki af. Kannski ég prófi þetta þegar ég kem heim af ströndinni.

Ummæli

Vinsælar færslur