Þetta er ekki illgirni

Þið þekkið þetta eflaust. Þér er boðið til viðburðar. Þið sjáið ekkert að því að mæta. Þakkið boðið og lofið því að koma. Tilefnið getur verið hvað sem er. En líklega þó eitthvað sem skiptir þann sem býður töluverðu máli. Kannski búin að undirbúa það lengi. Eða vinna lengi að einhverju. Jafnvel einhver sá viðburður sem skiptir viðkomandi miklu máli. Hins vegar er þetta atburður sem skiptir þig kannski ekki eins miklu. Ekki svona í stóru myndinni öðru vísi en þannig að þú viljir taka þátt í viðburðinum með viðkomandi. Samgleðjast á góðum degi. Lyfta glösum til að fagna sigrum. Votta samúð ef svo ber undir. Síðan þegar nær dregur þá skapast vandræði.

Þér er nefnilega boðið til einhvers sem skiptir þig verulegu máli. Gæti verið eitthvað persónulegt. Eitthvað tengt vinnu. Atburðir sem þú einfaldlega sérð ekki fyrir. Tilefnið oft ekki næstum því eins merkilegt og það sem þér var upphaflega boðið til. En nú þarft þú að taka ákvörðun. Hvort skiptir meira máli. Þetta er alls ekkert einfalt. Því skammtíma og langtíma hagsmunir geta verið alveg sitt á hvað í þessu. Sárindin sem skapast við það að svíkja áður þegið boð geta verið mikil. Erfið við að eiga. Það er þó að mínu mati mikilvægt að taka ákvörðun.

Ekki bara sitja og ekki láta vita. Það er verst af öllu. Eitt er að þurfa að afboða. Annað að mæta ekki ef þú hefur sagt að þú munir mæta. Því ég held að flestir skilji það á endanum að þú hefur ekki sömu forgangsröð og einhver annar. Ég vona það að minnsta kosti. Ef þú hefur það ekki. Þá er ég líklega ekki góður vinur fyrir þig. Þessa dagana er ég einmitt í þessari aðstöðu. Ekki bara gagnvart mínum vinum og ættingjum. Heldur líka gagnvart verkefnum á vinnustaðnum. Forgangsröðun er algjört lykilatriði. Allt verður að fara inn í dagatalið mitt. Inn á listana mína. Allt sem ekki ratar þangað inn, gleymist jafnóðum.

Mér finnst þetta óþægileg aðstaða. Hef ekki nægilega mikla stjórn og yfirsýn. Sem veldur streitu. Finnst líka leiðinlegt að geta ekki verið alstaðar. En ég verð bara að reyna að bæta ykkur það upp síðar.

Ummæli

Vinsælar færslur