70 ára afmæli

Ég fór norður á Akureyri í dag. Til að fara í afmælisboð. 70 ára afmæli. Sem ég á hluta í sjálfur. Vinnustaðurinn minn á nefnilega 70 ára afmæli í dag. Á rætur sínar að rekja til Akureyrar. Þetta var skemmtilegt og stutt afmælisboð. En búin að vera mikil vinna við undirbúning. Raunar margra mánaða undirbúningur og búið að taka miklum breytingum á þeim tíma.

En ég fór sem sagt á fætur fyrr en ég er vanur um helgar. Miklu fyrr. Var kominn út á Reykjavíkurflugvöll rétt um 10 í morgunn. Þar var mikilvægur hópur sem ég bar ákveðna ábyrgð á að koma til Akureyrar. Ekki eins og það hefði svo sem þurft að hafa áhyggjur. Vant fólk allt í kringum mig. Enda gekk þetta eins og í sögu. Þegar við komum til Akureyrar fengum við smá kynnisferð um bæinn. Ég komst að ýmsu sem ég hafði ekki hugmynd um. Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvort það gæti ekki verið áhugavert að leika túrista í Reykjavík. Fara í svona rútuferð um bæinn eins og ég geri þegar ég kem til útlanda. Heyra hvað er sagt. Hvað leiðsögufólkinu finnst áhugavert og athyglisvert að kynna fyrir útlendingunum. En ég vissi t.d. ekki að miðbærinn í Akureyri er ekkert alveg þar sem Akureyri var fyrst. Eða að þar hefði gamli miðbærinn brunnið. Svo ég veit orðið ýmislegt um staðinn.

Svo tók við afmælisboðið. Þetta var haldið í nýju safni. Eða endurnýjuðu safni sem er að fara opna á Akureyri. Svaka fínt og stórt hús sem ég efast ekki um að eigi eftir að verða lyftistöng fyrir þetta safn. Þarna fengum við rautt, ræður og gjafir gengu á báða bóga. Hugmyndin hafði verið sú að stinga forstjóranum upp í DC 3 vél og fljúga með hann beint í flug, en af því að sá farkostur er heldur hægur þá endaði það með öðrum hætti. En ég fékk smá smjörþef af því hversu mikið öðruvísi veður er á Akureyri en í Reykjavík í suðlægum áttum. Þá er nefnilega sól. Allt annað loftslag. Svo þó það sé kannski ekki eintóm blíða. Hún er nefnilega á mínum heimaslóðum. Þá er greinilegt af hverju ég öfunda stundum þá sem búa fyrir Norðan. Eftir ræður og myndatökur var haldið heim og ég held að allir hafi bara verið sáttir við daginn.

Ummæli

Ausa sagði…
Takk fyrir kveðjuna...Sendi hér með kveðju til baka :)
Kveðja
Ausa ;)

Vinsælar færslur