Tvær hliðar á sömu borginni

London. Þessi borg sem ég hef heimsótt oftar en flestar aðrar. Nema kannski Kaupmannahöfn. Og þó. Líklega er London sú borg utan Íslands sem ég hef hvað oftast komið til. Ef ég ætti að telja heimsóknir á Heathrow með, þá væri þetta ekki nokkur spurning. Ég hef líka margoft verið spurður að því hvort ég ætlaði mér ekki bara að flytja. Sem væri raunar alveg hugmynd. En það hefur alltaf verið það sama sem heldur aftur af mér. Málið er að ég lít á það sem mikil lífsgæði að búa á Íslandi. Eða höfuðborgarsvæðinu. Þessu eina svæði Íslands sem býr yfir nokkru af því sem stærri borgir búa yfir. En þar sem ég er aldrei nema kannski 10 mínútur að komast á áfangastað. Það finnst mér æði.

Í samanburðinum verða öll ferðalög um London að langferðum. Heilu og hálfu klukkutímarnir fara í það að komast á milli staða. Umferðin er sein. Hægfljótandi. Raunar var skemmtilegt að sjá fullt af beru fólki hjóla í miðbæ London. Það var að krefjast meiri réttinda fyrir hjólandi umferð. Sem minnkaði olíunotkun. Það rifjaðist upp í leiðinni að ég sá um daginn að einhver snillingur sagði að það skipti ekki öllu máli þó umhverfisverndarfólk væri kannski lítil minnihluti. Það fólk sem væri tilbúið til þess að hjóla nakið í miðbæ London er eflaust tilbúið að gera ýmislegt fyrir sinn málstað. En þetta virðast einhverjir eiga erfitt með að skilja. En hvað um það.
Ég átti nefnilega yndislega helgi í London. Hitti vinkonu mína. Sem á og rekur fyrirtæki í London. Sem gengur betur í hvert skipti sem ég hitti hana. Svo er hún líka frábær innkaupafélagi. Hitti líka kunningja minn sem hefur verið að stunda nám í hugbúnaðarfræðum í Edinborg. Af honum fékk ég þær fréttir að hann ætlaði sér að flytja til London. Við tókum öll þrjú skoðun á næturlífi London. Sem var skemmtilegra kvöldið fyrir morguninn eftir. Ég fór líka í jóga. Fór í heimsókn í ferlega fallega stöð. En var ekki alveg nógu ánægður með kennarann þar. Fór svo í aðra í Soho. Þar var kennarinn æði. Mæli með henni Emmu ef þið eruð í London og langar í jóga. Ég lærði fullt. Fékk svakalega fínar ábendingar. Kem margsvísari heim. Veit núna að ég þarf að vera duglegur í Mysore tímunum til að geta nýtt mér þetta. Því sumt hentar alls ekki í leiddu tímunum.

Eins og undanfarið í heimsóknum mínum til London fékk ég gott að borða. London er nefnilega að verða mesta matarborg Evrópu. Sem einhverjum kann að finnast undarlegt. Því hér í eina tíð var bresk matreiðsla talin eyðileggja flestan mat. En núna hefur mikið breyst. Ég fékk æðislegt Dim Sum í Ping Pong sem er keðja þar sem hægt er að fá Dim Sum allan daginn. En Dim Sum er annars hádegismatur. Svo fór ég á frábæran Vegitarian stað í hádeginu einn daginn. London má eiga það. Að þar eru frábærir staðir. En ég nærði ekki bara líkama, heldur líka sálina.



Fór í Hayward Gallery. Sá frábæra sýningu. Ef þið eigið leið til London fram í seinni hluta ágúst og hafði snefil af áhuga á nútímalist, þá endilega ekki láta þetta framhjá ykkur fara. Svo er líka bara heimsókn í South Bank Center þess virði. Þessi bygging sem var hönnuð í módernískum stíl er svo yndisleg. Eða það finnst mér. Hún er að veðrast svo yndislega. Er líka svo heilandi blanda af mjúkum og hörðum formum. Skírum línum í steinsteypu. Barn síns tíma og ekki allra en mér finnst hún ferlega flott.

Ummæli

Vinsælar færslur