Af gjöldum, opinberum gjöldum og sjálftöku

Ég hef orðið var við það að undanförnu að talsmaður Neytenda hefur verið að gera athugasemdir við ýmis gjöld. Eða að við séum yfirhöfuð látin vita af því að við séum að greiða skatta og gjöld. Svona ofan á verð vöru. Þetta er ólíkt því sem tíðkast í til dæmis Bandaríkjunum. Þar er hefðin á hinn veginn. Sýnt er verð án skatta. Það á að undirstrika að það sé ekkert endilega eðlilegt að greiða skatta. Hér á landi. Höfum við farið hina leiðina. Þannig kostar bensínlítri t.d. alls það sem þú lest á dælunni. Málið er nefnilega að ríkissjóður lætur olíufélögin innheimta fyrir sig ýmis gjöld. Sama gildir raunar um mörg önnur fyrirtæki. Svo vön erum við þessu, að við áttum okkur ekkert endilega á því þegar fyrirtækin eru sjálf farin að leggja á gjöld, sem ekkert eru fyrirskipuð af hinu opinbera.

Eins og ég hef greint frá, þá hef ég verið að lenda í skemmtilegum ævintýrum vegna innflutnings. Ég er nefnilega einn af þeim sem voga sér að kaupa hluti í gegnum Netið. Alveg frá Hong Kong þess vegna. Í staðinn fyrir að fara bara næstu íslensku verslun og kaupa hlutinn þar. Ég komst að því að fyrir tollskýrslugerð er tekið svívirðilegt gjald. Svo nú geri ég þær bara sjálfur. Raunar skil ég ekki af hverju það er ekki komið vefviðmót fyrir tollskýrslugerð. Sem myndi fara sjálfvirkt í afgreiðslukerfi tollsins. Raunar þykist ég hafa hugmynd um af hverju eftir samskipti mín við starfsfólk þess ágæta embættis í liðinni viku. Ég gerði þetta nefnilega sjálfur af mikilli samviskusemi. Fann út úr þessu með tollnúmerin. Hringdi í upplýsinganúmerið og fékk upplýsingar. Sem ég átti eftir að gera oftar, en kem að því aðeins seinna. Tók saman öll fylgiskjöl. Allt á pappír að sjálfsögðu. Kom þessu svo í hendur á afgreiðslu Tollskjala. Sem strax gerðu athugasemdir.

„Það vantar heimilisfangið þitt, nafn og undirskrift. Svo verður þú líka að breyta þyngdinni. Hún er vitlaus hjá þér. Verður að vera 1 kíló.“
„Já, en þetta er mælt sem 80 gröm, ekki viltu að ég segi ósatt á tollskýrslunni? „
„Kerfið tekur ekki minna en 1 kíló fyrir póstsendingar, svo þú verður að breyta þessu.“

„Ha, breytir þú þessu ekki bara – ekki á ég að fara segja ósatt vegna þess að kerfið tekur ekki við minna en 1 kíló?“ og hugsaði nú til þess hversu skelfilegar aðfarir þetta væru í raun. Vegna þess að allt sem ég skrifaði í skýrsluna. Prentaði út og ljósritaði. Átti nú einhver eftir að skrá inn í kerfið. Sem ég hefði alveg getað verið búinn að skrá. Rafrænt í gegnum Netið.

„Ef þú vilt ekki breyta þessu, þá get ég svo sem bara hafnað skýrslunni, þú ræður því alveg“

Svo ég laug á skýrslunni. Skrifaði 1 kg. Segir mér að íslenska ríkið hefur ekki hugmynd um raunverulegt umfang innflutnings með pósti. Varlega má áætla að um veruleg frávik sé að ræða. Mínar litlu sendingar eru oft í kringum 1-2 hundruð gröm að þyngd, geisladiskur eða dvd diskur. En þar með var þetta ekki búið.

„Þú þarft að skrá umbúðir á skýrsluna, hvað er utan um þetta hjá þér?“

Ég þurfti aðeins að hugsa mig um áður en ég áttaði mig á því hvað hún var að tala um. Umbúðagjaldið. Sem mér skilst reyndar að einstaklingar þurfi ekki að greiða. Við nefnilega hendum þessu í heimilissorp og þurfum ekki að greiða fyrir það sérstaklega (s.s. innifalið í útsvari). En ég hafði ekki hugmynd um hvernig umbúðir væru utan um sendinguna. Líklegast umslag. Úr pappír. En ég hafði aldrei séð þetta. Vissi því ekkert um það. Svo ég varð bara að giska. Starfsmaður sem sat fyrir svörum var víst ekkert heldur of hress með þetta. En varla var þetta verri glæpur en þetta með kílóið. Skrítið að vera sagt að stunda skjalafals af starfsfólki hins opinbera. Líka vont að það vantar upplýsingar um svona kerfismál og lágmarksþyngd á vefinn. En nú spurði ég hvort ég yrði ekki látinn vita þegar skýrslan væri tilbúin. Tek það fram að það kom fram á fylgiskjölum hvert heimilisfang mitt, nafn, kennitala og netfang væri.

„Nei, þú verður að hringja og athuga hvort þetta er í lagi og afgreitt“

Ég var alveg hættur að láta þetta koma mér á óvart. En hugsaði bara sem svo að ég væri kominn með nokkuð gott efni í pistil um atvinnuskapandi starfsemi hins opinbera og illa meðferð á skattfé mínu. Hvers vegna í ósköpunum það væri þannig að starfsfólk sæti og setti inn í kerfi það sem ég hefði áður skráð. Hvers vegna í ósköpunum það væri þannig að ég þyrfti að hringja til að athuga með stöðuna á þessari sömu skýrslu. Í mínum huga er þetta borðliggjandi vefþróunarverkefni. Sjálfvirk villuleit í skýrslu. Ábendingum um það sem vantaði. Auðvitað með uppfærðu kerfi á bakvið sem gæti tekið við smærri þyngd en 1 kíló. En líklega er þeim vorkunn sem þurfa að vinna við þetta. En ég á eftir að ganga í gegnum þetta ferli oftar. Því nú mun ég nýta mér þessa þjónustu, frekar en greiða fyrir hana.

En ég ætlaði hins vegar að segja ykkur frá gjöldum. Málið er nefnilega að ég hef komist að því að Íslandspóstur. Sem sér um afhendingu á pósti. Er einkafyrirtæki sem eitt sinn var ríkisrekið. Hefur komið sér upp gjaldskrá vegna tollsendinga. Málið er nefnilega að það fylgir því umstang þegar ríkið ákveður að tollafgreiða eitthvað. Fyrir þá þjónustu sem ríkið lætur Íslandspóst veita sér. Er greitt gjald. Sem fellur ekki á ríkið að greiða. Sem þó er sá aðili sem fer fram á þjónustuna. Heldur á viðtakanda. Sem þó er í þeirri stöðu að burðargjald hefur verið greitt. Tollskýrsla oftar en ekki vel útfærð á sendingu. Íslandspóstur hefur búið til gjaldskrá vegna þessara sendinga. Sem er þannig að það er Íslandspósti í hag að sem flestar sendingar lendi í tollmeðferð. Því gjaldið er alltaf það sama og alltaf innheimt, alveg óháð verðmæti sendingar eða hvort hún átti yfirhöfuð að lenda í tollafgreiðslu. Reyndar er það mismunandi eftir því hvort um einfalda eða flókna sendingu er að ræða. En hér er um algjöra sjálftöku einkafyrirtækis að ræða. Fyrir þjónustu sem hið opinbera ákveður að það skuli sinna. Svona svipað því að fyrirtæki sem innheimtaskatt fyrir hið opinbera, myndu leggja á ákveðið gjald í hvert skipti. Óháð verðmæti. Ég er ekki alveg að kaupa þetta. Finnst eitthvað stórfurðulegt við það að ég þurfi að greiða fyrir þjónustu sem ég er ekki kaupandi að. Heldur hið opinbera. Það ætti í raun að vera ríkið sem greiðir fyrir þessa þjónustu, enda er það ríkið sem nýtur hennar. Það er líka furðulegt að það sé einkafyrirtæki sem hefur sjálftöku í þessum gjöldum og nýtur þess raunar að setja sem flest í svona meðferð. Þannig hagnast Íslandspóstur á því að láta sem flest fara í gegnum þessa meðferð, alveg óháð því hvort slíkt sé réttlætanlegt. Mér finnst þetta skrítið.

Ummæli

Vinsælar færslur