Útskriftir, þjóðhátíð, innflutningsraunir og tónleikar

Ég gleymdi mér hreinlega. Hef verið upptekinn í allt öðru. En það hefur samt verið heilmargt að gerast. Byrjum á laugardeginum. Þá fór ég í útskriftarveislu. Til útskriftarnema í verkfræði sem var að ljúka fyrstu háskólagráðunni. Hún er nefnilega að ljúka sínum fyrsta áfanga á leið sinni til þess að geta kallað sig verkfræðing. En það er þannig með þessa gráðu að hún veitir víst ekki réttindi til þess að gera slíkt. En þetta er hins vegar alveg hroðalega klár stelpa. Ekki eini kvenkyns verkfræðingurinn sem ég þekki. Raunar þurfti ein ágætt vinkona mín að hrökklast til Danmerkur áður en hún komst í þær aðstæður að geta haldið áfram í námi. Hér ríkir nefnilega það viðhorf að það sé meira virði fyrir þjóðfélagið að lánasjóður námsmanna kosti ríkið ekkert, en að fólk komist til mennta. Sem er skrítin röksemdafærsla. En látum það liggja milli hluta. En þessi vinkona mín sem útskrifaðist núna um helgina tók sig til og rústaði nokkrum staðalímyndum. Er sem sagt ljóshærð, sæt kona að útskrifast á sviði sem helst er kennt við nörda af karlkyni. Ég óska henni til lukku með þetta og fannst skemmtilegt að halda upp á þessi tímamót með henni. Ætlaði meira að segja að ná af henni mynd. En tókst að gleyma myndavélinni.

Um kvöldið var heldur betur haldið upp á daginn. Ég hitti líka gamla vinkonu sem ég hef ekki séð í svo langan tíma að ég ætla ekkert að nefna hversu langt er síðan. En bara að það var áður en ég fór Westur í nám. Það urðu fagnaðarfundir sem blönduðust skemmtilega saman við útskriftarveislu. Kom auðvitað í ljós að við tengdumst hér og hvar á ská, en það var ekki fyrr en með hjálp social networking sem við náðum loksins saman. Svo ég ráðlegg þeim sem eiga sér hala af gömlum vinum og félögum sem horfið hafa í tímans rás, en væri gaman að heyra í, að koma sér inn á eitthvað af þessum netum. Mysapce, Facebook, Linkedin eða hvað þetta heitir nú allt saman. Svo þjóðhátíðargleði mín var kannski bara á enda runninn frekar snemma á deginum. Sem annars var bara fallegur. En ég gerði fátt annað en greiða gjaldið fyrir skemmtanir kvöldsins á undan.

Á mánudagsmorgunn fékk ég síðan svar frá fulltrúum mínum á þingi. Þeim fannst þetta líka skrítið mál. Ætla að skoða þetta. Verður gaman að fylgjast með hvað kemur út úr þeirri skoðun. Hvort kannski verði auðveldara fyrir þá sem flytja inn smávörur að komast hjá því að lenda í svona. Ég hef bara verið aðeins og upptekinn til að ná að hringja aftur í Neytendasamtökin og talsmaður neytenda. Hann er greinilega í sumarfríi. Eða les ekki póstinn sinn. Sér amk ekki ástæðu til þess að svara mér.

Í gærkvöldi sá ég svo Air í Laugardalshöllinni. Flottir hljómleikar. Ekta svona 70‘s. Eins og Air eru svolítið. Þeir eru svona hæfilega líkir bæði Yes og Tangerine Dream. Eða það finnst mér. Allt svolítið svona artí og skemmtilegt. En kannski hefði sýningin mátt vera ögn tilkomumeiri. Ég var samt alveg sáttur. Hef hins vegar ekki haft mikinn tíma til að tjá mig hér. Verð líka utan þjónustusvæða símafyrirtækja um næstu helgi. Stefnan tekin á Fimmvörðuháls í næturgöngu á Jónsmessu. Upp á eigin spýtur þó og ekki með neinu ferðafélagi og nú verður gaman að sjá hvort mér gangi ekki betur en þegar ég fór þetta fyrst. Ég útvegaði mér gps punkta í gær og hlakka bara til að takast á við þetta.

Ummæli

Vinsælar færslur