Ævintýri á Fimmvörðuhálsi

Þetta varð ævintýraleg ganga. Ekki bara vegna þess að þetta var í fyrsta skipti sem ég tek Fimmvörðuháls í einu lagi, á 9 klukkutímum. Heldur ekki vegna þess að sólin skein á okkur næstum alla leiðina upp. Né vegna þess að eftir sólina tók við þokusúld með vind í fangið þegar við gengum efsta hlutann. Eða að það var þoka en logn alveg niður að Heljarkambi. Eða vegna þess að lofthræðslan greip mig á Heljarkambi og mér tókst að dúndra hnénu á mér utan í bergið. Sem var alls ekkert sérstaklega þægilegt. Nei, stærsta ástæðan fyrir því að þessi ferð verður föst í minni. Er sú að mér tókst með einstökum klaufaskap að týna hluta af farangrinum mínum. Sem innihélt dýrasta tækið sem með var í för. Gæða hljóðtæki sem mér hafði verið gefið í afmælisgjöf á stórafmælinu.

Það sem gerðist var að við tókum okkar fyrsta hlé eftir að hafa gengið í u.þ.b. 340 metra. Mér fannst vera kominn tími til að setjast örlítið niður. Taka púlsinn. Finna hvort skórnir sem ég var að ganga í væru að gera sig. Þetta var nefnilega í þriðja skipti sem ég var að nota nýja skó. Skó sem fá þá dóma á Netinu að það þurfi nokkuð til að ganga þá vel til. Svo ég hafði örlitlar áhyggjur af því að ég myndi meiða mig í skónum. Fann svolítið fyrir þeim. Hafði samt skilið sjúkrasetið eftir heima í flýtinum við að leggja af stað. Svo engir plástrar voru með í för. En ég var ekkert svo aumur. Svolítið heitur, en áhyggjulítil. Við köstuðum mæðinni. Nutum sólar og blíðviðris. Héldum svo aftur af stað. Í 517 metrum var farið að blása það mikið að ég ákvað að koma mér í flíspeysuna sem ég hafði bundið á pokann. Þá uppgötvaði göngufélagi minn að pokinn var opinn. Tuðra með ljósi, áttavita og hljóðtækinu góða horfinn. Reyndar líka vatnsbrúsi. Ég leitaði af mér allan grun í pokanum. En hvergi sást tuðran góða. Svo eftir örlitla umhugsun og bölvandi klaufaskapnum í sjálfum mér. Þá tók ég til þess ráðs að hefja leit. Enda verðmætið of mikið til þess að ég legði það ekki á mig. Svo nú tók við niðurferð. Hittum hóp sem hafði verið í stoppi stutt frá okkur, en ég var nokkuð sannfærðum um að tuðran hefði dottið þegar ég var að koma henni aftur á axlirnar í fyrsta stoppi. Svo ég tók stefnuna þangað. Taldi ólíklegt að þessi fyrsti hópur hefði nokkuð séð. Mættum pari sem hafði reyndar séð vatnsbrúsa sem ég átti, en enga tuðru. Sömu sögu sagði mér einn sem var á göngu nokkru neðar. Svo ég var frekar vonlítil. Enda fannst ekkert þegar til átti að taka. Þetta þóttu mér ekki góð tíðindi. Hafði auk þess hálf partinn hlaupið niður eftir og nú átti ég eftir að ganga alla leiðina til baka. Sem ég gerði og svipaðist um eftir tuðru. En ekkert sást. Nú ég ákvað að láta þetta ekki slá mig út af laginu. En hafði eitthvað gengið undarlega og ökklinn á mér var að kvarta. Fann líka að það hafði farið aðeins og mikil orka í þetta. Sem ég hefði heldur viljað nýta í göngu. En þótt mikil verðmæti hefðu tapast. Þá var ekki um það að ræða að hrökkva í einhverja neikvæðni og depurð. Hreint ekki. Ég hugsaði sem svo að þarna hefðu örlögin einfaldlega ákveðið að ég þyrfti smá kennslustund.

Svo við héldum áfram för. Í blíðskaparveðri. Það var nefnilega bæði sólríkt og frekar milt þar til við vorum hálfnuð á leiðinni upp. Þar tókum við okkur pásu við brúna á Skógará. Það er svona síðasta góða færið til að ná sér í vatn. Þar varð okkur frekar kalt. Það blés og við fljót að kólna niður. Svo stoppið varð stutt. Enda höfðum við tafist um klukkutíma við leit. Ég fyllti á vatnsblöðruna mína og svo gengum við eftir veginum upp í Fúkka. Keyrði framhjá okkur bílafloti með kamra og samlokur sem við áttum eftir að hitta upp í Baldvinsskála, en það er rétt nafn Fúkka. Sem mér skilst að hafa hlotið þau örlög vegna þess að hann var byggður of þéttur. Engin leið út fyrir raka og þess vegna stöðugur fúkki í skálanum. En þar fengum við glaðlegar móttökur og leiðsögn um það sem framundan var. Leiðsögnina sóttumst við í, því þegar hér var komið við sögu var bæði komin þoka á leiðina framundan og eins var farið að blása nokkuð rösklega. Svo við vildum vera viss um að villast ekkert. En þó síðasti spölurinn upp væri vindasamur og auk þess með vindinn í fangið. Þá var auðratað. Greinilega mikið gengið og vel stikað. Eftir að hafa náð mestri hæð (og hrósað sjálfum okkur fyrir að vera hetjur að hafa náð alla leið upp) þá dró úr vindi og fljótlega vorum við í þoku og logni að rölta okkur áfram. Ég fann meira og meira fyrir bæði þreytu og verkjum í fótunum. Alveg greinilegt að ég hafði misstigið mig eitthvað, auk þess sem hnén á mér voru að kvarta, en þau verða líka fyrir álagi í jóga. Svo heldur var þetta farið að þyngjast hjá mér. En göngufélagin varð hins vegar mun kátari þegar fór að halla undan fæti. Sagðist ekki finna fyrir þreytu og hún fær alveg plús í bókina fyrir að hafa haldið þessu öllu á jákvæðu nótunum. Ég hef nefnilega lært að vera ekkert að tauta. Held ég hafi gert það svolítið hér áður og fyrr. Eflaust samferðafólki mínu til ama og leiðinda. En það er ekki lengur á dagskrá.

Vegna þoku sáum við harla fátt þegar við héldum niður. Fundum reyndar minnismerkið um fólkið sem þarna lét lífið. Sorgleg saga. En það létti ekki til fyrr en við náðum niður á Heljarkamb. Þá létti líka yfir okkur. Nú sáum við takmarkið. Sáum líka að okkur hafði gengið vonum framar að fara þessa leið. Sem uppgefin er 10 tímar. Við tókum okkur því hlé við Heljarkamb. Fengum okkur næringu. Ég teygði úr þreyttum fótum. Svo drifum við okkur áfram. Eftir því sem ég varð þreyttari í fótunum. Þeim mun erfiðara fannst mér þetta allt saman. Fann líka að ég var orðinn þreyttur. Bara svona yfirleit. Fór að finna fyrir verkjum í bakinu og bara einhvern veginn út um allt. En við fórum alla leið. Fundum meira að segja farangurinn okkar og vorum leyst út með köldum bjór við komuna. Vorum reyndar út í rass**** eins og ég nefndi staðinn. En ég held ég hafi sjaldan verið jafn feginn því að komast undir tjald og ofan í poka eins og akkúrat þarna.

Eftir allar áhyggjur mínar af fótmeiðslum kom í ljós að ég var ekki með vott af blöðrum. Var reyndar illt í ökklanum, en er sannfærður um að skórinn hafi hlíft mér frekar en hitt. Því af honum var rosalegur stuðningur. Var aumari en oftast áður í fótunum. En sofnaði samt fljótlega eftir að komast ofan í poka.

Daginn eftir var draumaveður í Þórsmörk. Reyndar svolítil blástur og moldrok, en samt sjóðandi heit og skínandi sól. Þegar leið á daginn hvarf mesta rykið og það var bara glampandi sól. Svo við röltum okkur inn í Bása að skála Útivistar. Með pulsur, kol og græjur í sturtu. Ferðafélaginn tók til við eldamennsku og ég fór í sturtu. Við höfðum líka tekið með okkur kalt öl og settumst því bara rétt við grillið. Borðuðum pulsur eins og þær væru það besta í heimi og drukkum kalt öl. Þarna hitti ég á vinnufélaga sem hafði verið svo elskuleg að taka í trúss fyrir mig græjurnar sem áttu eftir að sjá okkur fyrir kaffi. Þá gerðist hið óvænta. Gengur ekki fram á mig félagi úr björgunarsveitarnámskeiðinu. Spyr hvort ég hafi hugsanlega tapað einhverju á leiðinni. Sem ég staðfesti. Hafði þá ekki hópurinn rekist á tuðruna og innihaldið allt saman. Ef þetta er ekki ótrúleg tilviljun. Þá veit ég ekki hvað. Gleði mín var enda mikil. Á eftir að þakka þessum ágæta manni vel fyrir fundinn. Enda var nú fátt sem gat spillt gleði minni í Þórsmörk. Svo nú tók við matargerð og tilheyrandi. Við fórum í bálköst og var mikið skálað. Ég rakst á frænku innan um þá allan þennan fjölda sem þarna var. En 300 gengu með Útivist þarna um nóttina, auk þess sem ævinlega er margt um manninn á sumardögum í Þórsmörk. Svo á ég eftir að segja ykkur frá heimferðinni. En það kemur næst. En af þessu lærði ég þó tvennt. Að muna eftir að loka ævinlega pokanum mínum og hinu sem er mikilvægara. Að taka aldrei neitt það með mér í svona ferðir sem mér verður þung byrði að missa. Svo umrætt hljóðtæki líklega ekki aftur verða tekið með í svona gönguferðir.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
skil ekki alveg hvað "hljóðtæki" er, hmmm..?
Simmi sagði…
hljóðtækið í þessari ferð var iPod og það hefði verið bæði leiðinlegt að týna honum og þurfa að endurnýja og svo líka fullt af efni sem ég hefði þurft að koma aftur inn á nýtt eintak. Svo ég var ósköp feginn að þetta skilaði sér aftur.
honeychild sagði…
...það var gaman að rekast á þig frændi...átt klárlega hrós skilið fyrir að klára þessa göngu. ...hvaða skór eru þetta? meindl? ...þarf að farað fjárfesta í nýjum...

...og já það er sorg að tapa i-pod....ekki lent í því enn...en næstum því, einsog þú...mikil gleði þegar hann skilaði sér :)

Vinsælar færslur